Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   fim 22. nóvember 2012 13:45
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Benítez byrjar á botninum
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Menn heimtuðu Benítez burt áður en hann gat hengt upp jakkann sinn á Stamford Bridge.
Menn heimtuðu Benítez burt áður en hann gat hengt upp jakkann sinn á Stamford Bridge.
Mynd: Twitter
Mynd: Getty Images
Þegar ég skrifaði frétt upp úr Daily Mail á þriðjudagskvöldinu síðasta hélt ég að um væri að ræða enn eitt bullið í ensku pressunni. Rafa Benítez var orðaður við Chelsea. Innan við sólarhring síðar var Spánverjinn kominn með penna í hendurnar og skrifaði undir.

Ákvörðun Roman Abramovich að sparka Roberto Di Matteo hefur vakið neikvæð viðbrögð enda tók hann við sundruðu liði í neyð á síðsta tímabili og endaði með tvo bikara í húsi. Annar þeirra er eftirsóttasti bikar Evrópufótboltans, bikar sem Roman hefur alltaf þráð.

Þolinmæðarþröskuldurinn hjá Rússanum ríka er ekki hár og það leynist engum að hann hefur sínar skoðanir á liðsvali og öðru. Ef stjórinn hefur ekki sömu skoðanir er hann á hálum ís.

Þegar Jose Mourinho var við stjórnvölinn var ýtt til hans sóknarmanninum úkraínska Andriy Shevchenko. Leikmaðurinn var ekki á óskalista Mourinho og aldrei í hans áætlunum. Abramovich vildi fá þennan félaga sinn og opnaði veskið, Mourinho hafði ekkert um það að segja. Þessi saga endurtók sig svo þegar Fernando Torres var keyptur.

Di Matteo getur borið höfuðið hátt þrátt fyrir að hafa fengið að kynnast stígvéli Romans. Sagan segir að nú þegar Chelsea hefur unnið Meistaradeildina sé það næsta markmið Romans að skapa lið sem leikur fótbolta í líkingu við Barcelona. Vonast hann til að fá Pep Guardiola til að smíða það lið.

Feiti spænski þjónninn
Ímynd Chelsea og Roman Abramovich hefur aldrei verið neikvæðari en nú. Það má glögglega sjá þegar umræðan á Englandi er skoðuð.

Það er brött brekka framundan fyrir Benítez. „Feiti spænski þjónninn" er viðurnefnið sem hann hefur meðal stuðningsmanna Chelsea. Já hann hefur aldrei verið í uppáhaldi hjá áhangendum Chelsea þó margir Liverpool-menn sakni hans.

Sky Sports News hefur kannað viðbrögð stuðningsmanna Chelsea á ráðningu Benítez og er hún að mestu neikvæð. Íslenskir stuðningsmenn hafa jafnvel talað um að snúa baki við liðinu. Eitthvað spilar inn í að Mourinho, sem er guð í augum þeirra flestra, og Benítez voru aldrei mjög góðir vinir.

Þegar Benítez tók við Inter eftir að liðið hafði átt fullkomið tímabil undir stjórn Mourinho tók hann undarlega stefnu. Hann henti öllu því sem Mourinho hafði gert út um gluggann og vildi helst ekkert sjá sem minnti á Portúgalann. Varnarmanninum Marco Materazzi var bannað að vera með mynd af Mourinho í skápnum sínum.

Benítez taldi að breytinga væri þörf. Það fór eins og allir vita. Leiðtogarnir í leikmannahópi Chelsea eru enn góðir vinir Mourinho í dag. Vonandi hefur Benítez lært af reynslunni.

Það er ljóst að það verður þrautinni þyngri fyrir Spánverjann að komast í náðina hjá stuðningsmönnum. Ef hann nær því ekki er hætta á að söngurinn í myndbandinu hér að neðan muni óma á Stamford Bridge.


Athugasemdir
banner
banner
banner