banner
   þri 22. desember 2020 14:13
Magnús Már Einarsson
Vilja fá Lars Lagerback til að aðstoða íslenska landsliðið
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ vonast til að Lars Lagerback geti hjálpað þjálfarateymi íslenska landsliðsins í undankeppni HM á næsta ári. Lars þjálfaði íslenska landsliðið frá 2012 til 2016 en hann er án starfs í augnablikinu eftir að hafa hætt með norska landsliðið.

Arnar Þór Viðarsson er nýr landsliðsþjálfari íslenska landsliðsins og Eiður Smári Guðjohnsen aðstoðarþjálfari. Lars gæti einnig komið inn í teymið en viðræður þess efnis standa yfir.

„Við höfum talað við Lars. Við erum rosalega spenntir fyrir því að fá Lars með okkur inn í undankeppni HM. Það er einfaldlega vegna þess að Lars býr yfir gífurlegri reynslu og gæðum sem þjálfari. Við teljum að ef Lars er tilbúinn að koma og aðstoða okkur og stíga inn í starfshópinn okkar þá muni það styrkja allt umhverfið í kringum landsliðið til muna," sagði Arnar á fréttamannafundi í dag.

„Lars er nýhættur með norska landsliðið og við skiljum mjög vel að hann er ekki tilbúinn að hoppa inn í full-time verkefni með okkur eins og staðan er í dag. Við erum búnir að tala okkur saman um það að hitta Lars eftir áramót. Annað hvort á Íslandi eða við förum til hans. Þá munum við stilla öllu upp og vonandi í framhaldi því mun Lars stíga inn í þetta með okkur."

Lars Eriksson var markmannsþjálfari íslenska landsliðsins og Tom Joel styrktarþjálfari en að sögn Arnars á eftir að ákveða hverjir sinna þeim störfum í nýju þjálfarateymi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner