Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mið 23. febrúar 2022 13:19
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Óskiljanlegt að Akureyri og KSÍ geti réttlætt að gera ekkert í málinu"
Skemmdir á grasi í Boganum (mynd frá því í janúar)
Skemmdir á grasi í Boganum (mynd frá því í janúar)
Mynd: KDN
Jói Þórhalls
Jói Þórhalls
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skemmdir á grasinu í Boganum (frá því í janúar)
Skemmdir á grasinu í Boganum (frá því í janúar)
Mynd: KDN
Jói Þórhalls spilaði í Boganum á sínum tíma.
Jói Þórhalls spilaði í Boganum á sínum tíma.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Það er kominn tími á að breyta um undirlag í Boganum á Akureyri að mati þeirra sem Fótbolti.net hefur rætt við. Í dag var birtur pistill hér á síðunni þar sem skömminni var skilað.

Umræðan fór af stað í janúar þegar talað var um skemmdir á gervigrasinu og hefur verið gert við eitthvað af skemmdunum sem voru sjáanlegar. Raunin er hins vegar sú að undirlagið í heild sinni er ónýtt. Skipt var um gervigras í fyrsta sinn árið 2016 en ekki hefur verið skipt um gúmmímottuna sem er undir grasinu frá því Boginn var opnaður árið 2002.

Fótbolti.net ræddi við Jóhann Þórhallsson, fyrrum leikmann Þórs og KA. Hann á þrjú börn sem æfa í Boganum. Eru foreldarar að velta því fyrir sér hvort það sé gott fyrir börnin þeirra að æfa á gervigrasinu í Boganum?

„Ég held að foreldrar séu ekki mikið að velta þessu fyrir sér, það er svona mín tilfinning án þess að geta fullyrt það eitthvað. Þetta gras sem sett var á fyrir nokkrum árum er alls ekki nægilega gott að mínu viti. Stóra málið í þessu er að undirlagið var ekki tekið þá. Undirlagið, þá er ég að tala um gúmmímottuna, er tuttugu ára gamalt og þetta er stórhættulegt. Maður vill ekki taka of stórt upp í sig en það er stórundarlegt að þetta sé leyfilegt út af meiðslahættu. Maður hefur verulegar áhyggjur af þessu. Það er hægt að telja upp fjöldan allan af slysum sem hafa orðið í Boganum sem ég rek beint til undirlagsins, ég get ekki fullyrt það en ég er nokkuð viss um það."

„Það sér hver maður að það er galið að vera með undirlag sem er tuttugu ára gamalt. Í ofanálag er grasið lélegt líka."


Þú sem foreldri, hefuru velt því fyrir þér hvort að senda eigi börnin á æfingu í Boganum?

„Ég var að þjálfa í nokkur ár eftir að ég hætti að spila, er núna í fríi frá þjálfun, en hef mikið pönkast í starfsmönnum Þórs á svæðinu og spyrja út í þetta. Þeir eru að gera það sem þeir geta og mér skilst að það kom svo einhver eftirlitsmaður frá KSÍ, og jafnvel frá UEFA, til þess að meta grasið. Maður bindur vonir við að börnin sleppi en það er ansi gremjulegt að sjá að nokkuð mörg slys hafa orðið þarna, bæði hjá meistaraflokksleikmönnum og krökkum."

„Mér finnst alveg óskiljanlegt að Akureyrarbær, sem ber ábyrgð á þessu, geti réttlætt að gera ekkert í málinu. Börnin mín hafa verið að æfa þarna en ég hef reynt að lágmarka þeirra áhættu með því að sjá til þess að þau séu í þannig skóbúnaði að þau festast ekki of mikið í grasinu."


Ef þú værir ennþá spilandi leikmaður, væriru spenntur fyrir því að mæta á æfingar og spila leiki í Boganum?

„Nei, alls ekki. Ég fann það alveg þegar skipt var um grasið, ég var mjög hissa hvað grasið var lélegt og slappt. Þetta er gras sem þarf sem þarf að vökva. Það er engin vökvunarbúnaður fyrir utan byssu sem stundum er dregin er inn á grasið til að vökva grasið fyrir valda leiki. Það reddar engu nema að boltinn flýtur hraðar en undirlagið er ónýtt. Ég spurðist fyrir um af hverju grasið væri ekki betra og þá var sagt að það þyrfti að bæta meira gúmmíi á grasið. Þetta er ótrúlegt og forsvarmenn Þórs og KA hljóta að vera mjög ósáttir með þetta."

Ef KSÍ væri ekki sama þá væri búið að loka þessu grasi
Jói sagðist hafa rætt við sinn fyrrum liðsfélaga, Óskar Örn Hauksson, leikmann Stjörnunnar, fyrir leikinn gegn Þór og bent honum á að grasið væri handónýtt. Samherji Óskars, Hilmar Árni Halldórsson, meiddist í leiknum gegn Þór á laugardag og er það uppspretta þessarar annarar bylgju af umræðu um grasið.

„Ef KSÍ væri ekki sama um landsbyggðina þá væri búið að loka þessu grasi, það er morgunljóst. Það er eitthvað að einhverju eftirlitskerfi hjá KSÍ, það er alveg greinilegt fyrst þeir leyfa þessa leiki í Boganum. Ef ég væri þjálfari eða leikmaður þá myndi maður tuða vel yfir þessu. Ég skil ekki af hverju KSÍ er ekki búið að gera eitthvað."

„Það er sorglegt að það þurfi að nöldra yfir þessu, þetta er augljóst mál ef horft er í staðreyndir. Undirlagið er 20 ára, gras sem þarf að vökva og er ekki vökvað. Það er ekkert dren undir og þó að það sé vökvað fyrir leiki þá lagar það ekki það sem er þegar að. Það er mikil þörf á því að það sé skipt um grasið,"
sagði Jói.

Jói segir svo að gervigrasið á KA-svæðinu sé sér kafli og svo líka grasvellirnir á svæðinu. Þeir séu flestallir ónýtir og hafi verið það í lengri tíma.
Athugasemdir
banner
banner
banner