Sem forsvarsmaður og sjálfboðaliði í einu öflugasta félagi landsins hef ég fylgst með allri umræðu um KSÍ undanfarna mánuði. Næstkomandi helgi mun ég sitja ársþing sambandsins þar sem verður kjörin nýr formaður og ný stjórn. Fráfarandi stjórnarmönnum þakka ég vinnuna sem þeir hafa lagt á sig undir afar erfiðum aðstæðum. Þeir eiga hrós skilið.
Ástæða pistilsins er hins vegar ekki mögulegt og ómögulegt andrúmsloft innan hreyfingarinnar/sambandsins eftir róstursaman tíma heldur sú staðreynd að geta sambandsins til að taka á þeim málum sem þarf að tækla er lítil sem engin og fórnarkostnaður þess getur verið ansi hár.
Í byrjun árs birtist frétt um slæma aðstöðu og slysagildru sem tengist knattspyrnuvelli á Akureyri. Ekkert nýtt í þessu enda alþekkt innan hreyfingarinnar að viðkomandi sveitarfélag hefur með engu móti getað viðhaldið svo mikið sem einum velli sem sómi er að og skiptir þá engu hvort um er að ræða gras eða gervigras. Þetta finnst mér reyndar sérstakt í bæjarfélagi sem telur vel á þriðja tug þúsunda íbúa en er samt sem áður staðreynd og reyndar staðreynd sem allir Akureyringar ættu að skammast sín fyrir.
Þegar þessar fréttir komu fram brugðumst við sem erum í forsvari fyrir félagið mitt við og sögðumst ekki getað treyst okkur til að spila á viðkomandi velli og komum skilaboðum okkar skýrt til sambandsins. Bentum þar á kvartanir dómara og annarra ásamt þeim meiðslum sem hafa þarna orðið. Við töldum að það væri hættulegt fyrir leikmenn okkar að spila á ónýtum velli og kröfðumst þess að leikurinn yrði fluttur annað. Málið var kannað, -Akureyrarbær brást við með enn einni reddingunni enda málið í fjölmiðlum og menn kallaðir til, til að gera við völlinn. Allt klappað og klárt og í raun og veru afgreitt með þeim hætti að við værum að væla yfir hlutum sem væru í góðu lagi, enda yrði þetta lagað. -Ábyrgð og meðvirkni KSÍ í þessum þætti er umtalsverð. Fyrr í þessari viku og eftir umrætt atvik var mér tjáð að ekkert annað félag hafi kvartað yfir þessum aðstæðum. Ef satt reynist þá þurfa menn verulega að skoða sína afstöðu til handa heilsu og velfarnaðar leikmanna sinna.
Niðurstaða màlsins er hins vegar allt önnur og alvarlegri enda sú aðstaða sem Akureyrabær skaffar langt í frá að teljast ásættanleg og í þessu tilviki hefur hún afgerandi áhrif á leikmann okkar sem er eitthvað sem ég get illa sætt mig við. Fyrir utan það augljósa þá eru leikmenn hvort heldur sem eru yngri iðkendur eða afreksfólk í þeirri stöðu að þeim er veruleg hætta búin að spila og æfa við slíkan aðbúnað og afleiðingar getuleysis Akureyrarbæjar til að sinna viðhaldi eigna sinna hefur í þessu tilviki ömurlegar afleiðingar í för með sér enn eina ferðina, og í þessu tilviki fyrir okkar leikmann sem skaddar á sér hnéð og mögulega mjög illa sem kemur í ljós á næstu dögum. Allir aðrir leikmenn félagsins fundu fyrir eymslum sem er óeðlilegt fyrir afreksmenn í fremstu röð, en er skiljanlegt þegar rýnt er í úttektir sem hafa farið fram á vellinum.
Í Garðabæ hafa menn tekist á um ýmislegt en almennt hafa menn verið sammála að hlúa að og passa uppá leikmenn sína og iðkendur varðandi aðstöðu og aðbúnað og hefur slíku verið forgangsraðað framar en flestu. Sem betur fer hafa yfirvöld og félögin í bænum að mestu leyti gengið í takt ólíkt því sem er greinilega í gangi norðan heiða.
Það má vera að þeim sé sama um sína iðkendur en mér er ekki sama og er í raun líka verulega ósáttur við getuleysi KSÍ til að taka á málum eins og þessum með afgerandi hætti því ef sambandið gerir það ekki og stendur með sínum iðkendum þá er þetta sama samband handónýtt apparat.
Boginn á Akureyri er slysagildra og er búin að vera það lengi. Akureyrarvöllur er handónýtur og enn eru vellir á KA svæðinu ókláraðir. Hundruðir barna æfa þarna og þúsundir spila á hverju ári með tilheyrandi tekjum fyrir Akureyrarbæ. Ábyrgð sveitarfélagsins er mikil og skeytingarleysi þeirra sem þar ráða er forkastanlegt.
Þeir sem gefa kost á sér til að vera í forsvari fyrir sveitarfélag, íþróttasamband eða íþróttalið bera mikla ábyrgð og þurfa að geta tekið erfiðar ákvarðanir. Því miður er of lítið um að menn (og konur) axli slíka ábyrgð með sannanlegum hætti enda viðurlögin engin við því að sleppa því. - Málin verða skoðuð, sett í nefnd, viðgerðir gerðar eins og þarf og úttektir pantaðar eftir þörfum. Fáir láta sig varða heilsu leikmanna og þar þarf verulega að taka á málum.
Íþróttir skipta máli, bæði sem forvörn en líka efnahagslega og það er kominn tími til þess að fólk átti sig á því að við erum að ræða um heilsu leikmanna og iðkenda og ef einstaka sveitarfélög hafa ekki getu til að bjóða uppá öruggt umhverfi þá geta þau alveg eins lagt starfið niður. Það sama á við um KSÍ, -þar er kominn tími til að menn hætti meðvirkninni gagnvart lélegum vinnubrögðum og standi með íþróttafólkinu sínu í jafn sjálfsögðu máli eins og þessu. Þar hræða sporin.
Verst af öllu þykir mér þó að hafa bent á hættuna löngu áður og þurfa að horfa uppá frábæran leikmann, fyrirmynd og leiðtoga kljást við erfið meiðsli af því að ég setti mitt traust á forsvarsmenn Akureyrarbæjar og knattspyrnusambandsins sem brugðust viðkomandi leikmanni illilega. Þeirra er skömmin en eftirsjáin er mín að hafa búist við meiru.
F.h. knspd Stjörnunnar
Helgi Hrannarr Jónsson
formaður mfl ráðs karla
Athugasemdir