Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari U19 landsliðs karla, verður mögulega næsti þjálfari KR. Hann hefur rætt við félagið um að taka við liðinu af Rúnari Kristinssyni.
Dr Football gekk svo langt um helgina að segja að Ólafur Ingi yrði næsti þjálfari Vesturbæjarstórveldisins.
Dr Football gekk svo langt um helgina að segja að Ólafur Ingi yrði næsti þjálfari Vesturbæjarstórveldisins.
Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ, staðfesti í samtali við Fótbolta.net í dag að Ólafur hefði beðið sjálfur um leyfi til þess að fá að ræða við KR.
Ólafur Ingi er ekki eini þjálfarinn innan veggja KSÍ sem KR hefur íhugað að ráða en Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 landsliðsins, var einnig á lista félagsins. Hann gaf hins vegar afsvar og ætlar að halda áfram með U21 landsliðið.
Gregg Ryder og Ólafur Jóhannesson hafa einnig verið orðaðir við starfið. Þá var sagt í útvarpsþættinum Fótbolti.net um helgina að sögusagnir væru um að einn skoskur stjóri hefði verið á blaði hjá KR-ingum.
Það er óvíst á þessari stundu hversu margir eru eftir í kapphlaupinu um starfið hjá KR en Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar félagsins, sagði í samtali við Fótbolta.net í síðustu viku að félagið stefndi á það að ráða nýjan þjálfara í þessari viku. Hann sagði þá að búið væri að þrengja hópinn.
„Ég ætla ekki að staðfesta nein nöfn eða mögulega kandídata en við erum í viðræðum við aðila og við reiknum með því að það verði komin niðurstaða fljótlega upp úr helgi," sagði Páll.
Ólafur Ingi er 40 ára gamall og lék lengi sem atvinnumaður á sínum leikmannaferli. Hann lagði skóna á hilluna 2020 og lauk ferlinum hjá uppeldisfélagi sínu Fylki. Hann lék 36 landsleiki fyrir Ísland á sínum tíma. Hann hefur þjálfað U19 landsliðið frá 2021 og kom hann liðinu á lokakeppni Evrópumótsins í ár.
Athugasemdir