Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   fös 24. mars 2023 15:37
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Á bláþræði
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland tapaði 3-0 gegn Bosníu í gær.
Ísland tapaði 3-0 gegn Bosníu í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrrum formaður KSÍ ákvað að veðja á Arnar Þór Viðarsson, hann setti allt sitt traust á Arnar og ráðningin áhugaverð í ljósi þess að ferilskrá hans í þjálfun var afskaplega stutt og snubbótt ef miðað er við forvera hans. En Arnar gerði vel með U21 liðið, kom með ferska vinda að mörgu leyti og það heillaði greinilega KSÍ.

Síðan eru liðnir 27 mánuðir.

Stjórn KSÍ er að bregðast ef hún tekur ekki alvöru fundi núna og skoðar málin ofan í kjölinn. Hjá svona litlu sambandi verður fólk mjög náið en það verður að leggja allar tilfinningar til hliðar og spyrja sig hvort vegferðin sé rétt og framfarirnar nægilegar. Arnar hefur fengið tíma til að móta nýtt lið og nýjar hugmyndir en spilamennskan hefur verið slök og úrslitin léleg. Það er ekki hægt að skýla sér endalaust bak við orðið uppbygging. Vanda formaður hefur sjálf sagt að nú séu verk Arnars lögð fyrir dómstóla.

Skoðun yfirgnæfandi meirihluta íslenskra fótboltaáhugamanna er sú að Arnar eigi að víkja. Óvinsældir hans meðal stuðningsmanna Íslands eru miklar og stjórn KSÍ hlýtur að þurfa að hlusta á þessar raddir en stinga höfðinu ekki í sandinn. Landsliðið er ekki einkamál KSÍ og starf Arnars hlýtur að hanga á bláþræði. Þetta er fólkið sem mætir á völlinn og tekur Víkingaklappið. Ég held því miður að það sé óvinnandi verk fyrir Arnar að vinna fólkið á sitt band.

Ég minni á að Heimir Hallgrímsson var klár í að taka við liðinu í fyrra en KSÍ þorði á endanum ekki að taka skrefið. Heimir trompar samt alla íslenska þjálfara og á stað í hjörtu þjóðarinnar. Hjá flestum löndum gæfi það augaleið að ráða svona prófíl þegar hann er til í tuskið, sama hver væri í starfinu fyrir.

Eftir þennan landsleikjaglugga eru enn átta leikir eftir og nokkrir mánuðir í næsta leik. Við erum með unga, spennandi hæfileikaríka leikmenn og dýrkeypt ef verið er að sóa tíma.

Einhverra hluta vegna var mörgu af því sem skilaði okkur sögulegri velgengni og þátttöku á tveimur stórmótum kollvarpað. Hugmyndafræðin er allt önnur, áherslurnar aðrar og nánast allir sem voru í kringum liðið horfnir á braut. Þekking hefur tapast og það er eitthvað sem erfitt er að kyngja. Allt fótboltasamfélagið á Íslandi ber ábyrgð á því að gullaldarárin hafi ekki skilið meira eftir sig.

Draumurinn um EM 2024 er enn til staðar þó hann sé ansi veikur ef við miðum við frammistöðuna í Bosníu og úrslit landsliðsins síðustu ár. En liðin sem við ætlum að keppa við í þessum riðli hafa líka verið í vandræðum, Bosnía hefur engan veginn staðið undir væntingum stuðningsmanna sinna og gengið í gegnum ör þjálfaraskipti. Úrslit Slóvakíu hafa hreinlega verið hörmuleg, þar er ekkert að frétta. Allt tal um að það sé óraunhæft að stefna á EM er hreinlega lítilmannlegur hugsunarháttur.

Árangur næst aldrei ef ekki er hugsað stórt.
Athugasemdir
banner