Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 24. maí 2013 12:00
Sindri Snær Jensson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Best og verst klæddu þjálfararnir í Pepsi deildinni
Sindri Snær Jensson
Sindri Snær Jensson
Ólafur Kristjánsson ber af í klæðaburði í Pepsi-deildinni.
Ólafur Kristjánsson ber af í klæðaburði í Pepsi-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Greinin hér að neðan er fengin af vefsíðunni sindrijensson.com og birt með leyfi höfundar. Sindri Snær Jensson er höfundurinn en hann er sérstakur tískuráðgjafi Fótbolta.net.

Það er gaman að pæla í hinum ýmsu hliðum knattspyrnunnar og málefni sem ég hef sterkar skoðanir á er klæðnaður þjálfara. Ef skoðaðar eru gamlar myndir af knattspyrnustjórum erlendis frá hefur það ávallt tíðkast að stjórinn sé vel til hafður og leiði sína menn á völlinn smekklegur til fara. Einhverra hluta vegna varð þarna breyting á og íþróttagallinn fór að sjást í auknum mæli hjá stjórum. Ég er þeirrar skoðunar að þjálfari liðs eigi að vera klæddur smekklega í leikjum og eru jakkaföt ekki endilega eina leiðin. Auðvitað skipta gæði knattspyrnunnar og úrslitin þó höfuðmáli, það er engin spurning um það.

Þegar ég fór að rannsaka klæðnað þjálfaranna í Pepsi deildinni varð ég heldur betur fyrir vonbrigðum, það er bara einn sigurvegari í tísku deildinni. Maður hefur tekið eftir því að sumir þjálfarar klæða sig upp fyrir bikarúrslit og annað slíkt en það myndi gefa deildinni meiri lit og upphefja hana ef menn færu að sýna þann metnað í öllum leikjum. Pepsi deildin vill nota bestu boltana frá Adidas, umgjörðin verður alltaf betri og umfjöllun fjölmiðla til fyrirmyndar. Ég vil einfaldlega sjá þjálfarana stíga upp í þessum málum.

Engu að síður þá er hér að neðan listi yfir alla þjálfara Pepsi deildar karla og gef ég þeim smá leiðbeiningar um hvernig þeir gætu auðveldlega bætt úr þessu. Auðvitað er þetta allt saman til gamans gert.


1. Ólafur Kristjánsson - Breiðablik
Það er engin spurning að Óli er öruggur sigurvegari þegar kemur að best klædda þjálfaranum í deildinni. Hann kemur í mark mörgum kílómetrum á undan kollegum sínum og ber höfuð og herðar yfir aðra þjálfara þegar kemur að klæðaburði. Stíll Óla er flottur og á hann greinilega gott safn af yfirhöfnum og veit sem víst að Jako úlpurnar eru bara fyrir varamennina. Minnir örlítið á stíl Michael Laudrup enda báðir fengið kennslu í danska tísku skólanum.


2. Rúnar Kristinsson - KR
Að velja annað sætið er gríðarlega erfitt en ég ætla að gefa Rúnari það því hann á það til að suita sig vel upp fyrir bikarúrslit. Rúnar er glæsilegur maður og myndi ég vilja sjá hann taka gamla Guardiola lúkkið á þetta. Jakkafatabuxur eða dökkar gallabuxur við skyrtu og peysu, gæti svo toppað það með fallegum stökum jakka eða léttum frakka, jafnvel trefill fyrir íslenska veðrið.


3. Magnús Gylfason - Valur
Maggi Gylfa er gríðarlegur töffari, það er ekki spurning. En því miður er hann fallinn í Hummel grifjuna frægu sem svo margir íslenskir þjálfarar hafa fallið í. Maggi ætti auðvitað að halda í sitt einkenni sem er pólóbolurinn með kragann upp, nettur Cantona fílíngur í því. Bara skipta út íþróttabuxunum fyrir svartar smekklegar buxur og góða yfirhöfn við. Maggi gæti í raun líka bara kóperað stíl Fatih Terim stjóra Galatasaray því þar er á ferðinni virkilega svalur náungi og þeir félagar ekkert ósvipaðir í útliti.


4-10. Heimir Guðjónsson - FH
Það er nú orðið landsfrægt þegar Heimir átti ekki sinn besta dag í Sunnudagsmessunni í vetur, en Heimir á að geta gert miklu betur. Á hliðarlínunni er það Adidas gallinn sem boðið er uppá. Það ríkir ákveðin dulúð yfir Heimi og greinilega mikill hugsuður hér á ferðinni. Ég sé Heimi fyrir mér í aðsniðnum svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og með svart bindi, alveg klassískt og í FH litunum. Gæti tekið Roberto Mancini sér til fyrirmyndar þegar sniðið er valið.


4-10. Logi Ólafsson - Stjarnan
Logi er reynslubolti, það fer ekkert á milli mála. En því miður er hann eins og margir kollegar sínir ansi hrifinn af liðsstjóra úlpunni. Ég myndi vilja sjá hann tileinka sér takta frá Sir Alex sjálfum og finna sér flottan ullarfrakka og halda sig við hann, jafnvel safna smá skeggi og vera svo áfram sá kóngur sem hann er á hliðarlínunni.


4-10. Hermann Hreiðarsson - ÍBV
Hemmi er samt í raun sá eini sem hefur afsökun, hann er spilandi þjálfari og þarf því að vera klár á bekknum í Hummel gallanum. Ef hann væri ekki spilandi þjálfari myndi ég vilja sjá hann taka Paolo Di Canio á þetta, klikkuð jakkaföt og þá hvítt og svart skáröndótt bindi í litum ÍBV. Svo væri hann að renna sér á hnjánum allavega annan hvern leik og þyrfti að fara reglulega með buxurnar í hreinsun.


4-10. Zoran Daníel Ljubicic - Keflavík
Zoran þykir mér virkilega svalur náungi og hefur auðvitað þetta Austur-Evrópska yfirbragð sem vinnur með honum. Þetta fer að verða þreytandi en líkt og margir kollegar sínir líður honum greinilega best í Puma gallanum. Ég myndi vilja sjá Zoran fara all-in á David Moyes lúkkið sem er mjög öruggt. Gæti verið í dökkgráum jakkafötum, hvítri skyrtu með dökkblátt Keflavíkur bindi og jafnvel toppað þetta allt með svartri V-peysu yfir skyrtuna.


4-10. Ásmundur Arnarson - Fylkir
Ási er myndarlegur maður, því verður ekki neitað. Því er synd og skömm að sjá hann í Hummel úlpunni á hliðarlínunni. Ási Arnars ætti að mínu mati að taka Andre Villas-Boas sér til fyrirmyndar og fara grimmur í rykfrakkann. Ég held að Ási væri rosalegur í Villas-Boas lúkkinu, aðeins farinn að grána í hliðunum og aðsóknin í Lautina myndi aukast um allavega 20%.


4-10. Ejub Purisevic - Víkingur
Á mig virkar Ejub algjör töffari í viðtölum og því mikil synd að sjá hann fara öruggu leiðina í Jako æfingasettinu. Ég sé Ejub fyrir mér í gamla góða Mourinho lúkkinu, gæti líka jafnvel farið að kalla sig þann sérstaka. Þyrfti ekki meira til en dökkan jakka og ljósgráan trefil við dökkbláar eða svartar gallabuxur og þá væri Ejub skotheldur.


4-10. Þórður Þórðarson - ÍA
Þórður er fyrrum markvörður og hafa þeir oft verið taldir skrýtnir og jafnvel kallaðir annar þjóðflokkur innan fótboltans. Þórður er þó karlmennskan uppmáluð en því miður pikkfastur í Errea settinu. Ég held að Þórður væri stórglæsilegur í grófri peysu og stuttum sailor frakka yfir, gæti svo toppað það allt með grófum brúnum leðurskóm við dökkbláar gallabuxur. Það væri mjög karlmannlegt og myndi hæfa Þórði vel.


11. Páll Viðar Gíslason - Þór
Palli er í raun Tony Pulis Íslands, grjótharður í íþróttagallanum. Ég held samt að Palli ætti að líta meira til Sam Allardyce í klæðaburði. Stóri Sam er alltaf smekklegur en samt með þetta "mér er alveg sama" hugarfar og örugglega ekki mikið að pæla í fötum. Palli gæti borið rautt bindi við hvíta skyrtu prýðilega og gæfi ég mikið fyrir að sjá það einn daginn í leik.


12. Þorvaldur Örlygsson - Fram
Þorvaldur vermir botnsætið aðallega vegna einnar ástæðu, dúnúlpan. Því miður er dúnúlpan frá Errea ekki að gera mikið fyrir Todda og Fram húfan í raun ekki til að bæta úr skák. Toddi er þó mjög karlmannlegur og harður á sínu og því teldi ég við hæfi að hann liti til Roy Keane þegar kemur að stjóra klæðnaði. Hvít skyrta, svartur ullarfrakki og kraginn upp. Gæti jafnvel gert góða hluti með grófa húfu við. Vona að Toddi taki botnsætinu ekki illa því ég myndi ekki vilja lenda í honum.
Athugasemdir
banner