Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 25. apríl 2016 13:15
Elvar Geir Magnússon
Lykilmaðurinn: Enginn göngutúr í garðinum
Davíð Þór Viðarsson - FH
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH.
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Það kemur engum á óvart að FH hafnar í efsta sæti í spá Fótbolta.net fyrir Pepsi-deildina 2016 en boltinn byrjar að rúlla um næstu helgi. Fyrirliðinn Davíð Þór Viðarsson er algjör lykilmaður á miðju Íslandsmeistarana.

„Ríkjandi Íslandsmeisturum er oftast spáð efsta sætinu svo þetta kemur ekki á óvart," segir Davíð.

„Miðað við það sem maður hefur verið að lesa eru mörg lið að stefna á að vera í toppbaráttunni eða ná sér í Evrópusæti. Mótið í fyrra var mjög jafnt fannst mér og það var lítið um að einhver lið hafi verið að rúlla öðrum upp. Ég held að þetta sé merki um það sem koma skal. Þetta er alltaf að verða þéttara og samkeppnin á toppnum meiri."

FH leikur gegn nýliðum Þróttar í opnunarleik mótsins á sunnudag en sparkspekingar búast þar við öruggum sigri hjá Íslandsmeisturunum.

„Auðvitað búast flestir við því að við vinnum leikinn en við vitum að það eru komin nokkur ár síðan Þróttur var í efstu deild. Það er væntanlega komin mikil tilhlökkun hjá þeim fyrir fyrsta leik. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta verður enginn göngutúr í garðinum," segir Davíð.

„Við þurfum að hafa mjög mikið fyrir þessu. Þróttarar eru vel skipulagðir og með góðan þjálfara. Þeir eru að einhverju leyti spurningamerki því þeir hafa lítið verið að nota nýju mennina í Lengjubikarnum. Þeir munu koma vel gíraðir til leiks en við hljótum að gera það líka."

Vonandi flottur leikur í kvöld
Næsta verkefni FH er samt leikur í Meistarakeppni KSÍ gegn bikarmeisturum Vals í kvöld á Valsvellinum. Það er fallegt veður í Reykjavík og ekki ólíklegt að við fáum flottan leik.

„Maður getur ekki kvartað yfir veðrinu eins og það er núna. Vonandi verður þetta skemmtilegur leikur. Ég hef ekki séð Valsara í vetur en hef heyrt að þeir séu búnir að vera mjög öflugir og með mjög sterkt lið. Þetta verður vonandi flottur leikur og góð byrjun á þessu sumri," segir Davíð Þór Viðarsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner