Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
   sun 25. ágúst 2024 15:57
Ívan Guðjón Baldursson
Orri Steinn skoraði í tapi - Elfsborg vann Íslendingaslag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Það voru nokkrir Íslendingar sem komu við sögu í leikjum dagsins í Evrópu.

Orri Steinn Óskarsson var í byrjunarliði FC Kaupmannahafnar sem fékk skell á útivelli gegn Nordsjælland í efstu deild danska boltans.

Staðan var 3-0 í leikhlé og minnkaði Orri Steinn muninn í síðari hálfleik áður en Viktor Claesson kom inn af bekknum til að bæta stöðuna enn frekar. Það dugði þó ekki til þar sem lokatölur urðu 3-2 og er þetta fyrsti tapleikur FCK á nýju deildartímabili.

Nordsjælland og FCK eru núna jöfn með 11 stig eftir 6 fyrstu umferðirnar.

Rúnar Alex Rúnarsson er varamarkvörður FCK og sat á bekknum.

Í næstefstu deild var Daníel Freyr Kristjánsson í byrjunarliði Fredericia sem tapaði heimaleik gegn Hvidovre. Fredericia er í þriðja sæti með 12 stig eftir 7 fyrstu umferðirnar þrátt fyrir þetta tap.

Í efstu deild sænska boltans hafði Elfsborg betur í Íslendingaslag gegn Göteborg, þar sem Andri Fannar Baldursson fékk að spila síðustu 20 mínúturnar í 3-1 sigri á meðan Eggert Aron Guðmundsson var ónotaður varamaður.

Kolbeinn Þórðarson lék allan leikinn á miðju Gautaborgar, sem er aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallbaráttuna. Elfsborg er í efri hluta deildarinnar, þremur stigum frá Evrópusæti.

Í næstefstu deild áttust Östersund og Skovde AIK við í Íslendingaslag þar sem leik lauk með fjögurra marka jafntefli. Adam Ingi Benediktsson varði mark Östersund í leiknum á meðan Stefan Alexander Ljubicic byrjaði í fremstu víglínu hjá Skovde.

Östersund er tveimur stigum fyrir ofan fallbaráttuna eftir þetta jafntefli á meðan Skovde er í fallsæti, þremur stigum frá öruggu sæti.

Þorri Mar Þórisson var þá ónotaður varamaður í 2-1 tapi Öster á útivelli gegn Gefle. Tapið er skellur fyrir Öster, sem situr í þriðja sæti og er í harðri baráttu um sæti í efstu deild.

Í efstu deild í Hollandi var Rúnar Þór Sigurgeirsson á sínum stað í byrjunarliði Willem II sem gerði jafntefli á útivelli gegn Heracles. Willem er enn taplaust eftir þrjár fyrstu umferðirnar, með fimm.

Að lokum lék Ísak Bergmann Jóhannesson allan leikinn í sigri Fortuna Düsseldorf á útivelli gegn Ulm í næstefstu deild þýska boltans.

Düsseldorf er komið með sjö stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar á nýju tímabili eftir að hafa rétt misst af sæti í efstu deild í sumar.

Nordsjælland 3 - 2 FC Kobenhavn
1-0 S. Egeli ('3)
2-0 M. Ingvartsen ('5)
3-0 B. Nygren ('30)
3-1 Orri Steinn Óskarsson ('55)
3-2 Viktor Claesson ('78)

Fredericia 0 - 1 Hvidovre

Elfsborg 3 - 1 Goteborg

Gefle 2 - 1 Oster

Ostersund 2 - 2 Skovde AIK

Heracles 1 - 1 Willem II

Ulm 1 - 2 Fortuna Düsseldorf

Athugasemdir
banner
banner