Portúgalski kantmaðurinn Rafael Leao er talinn til bestu kantmanna heims um þessar mundir enda hefur hann farið á kostum í liði AC Milan undanfarin misseri.
Hann var valinn besti leikmaður Serie A deildarinnar þegar Milan vann deildina í fyrra og átti aftur gott tímabil á síðustu leiktíð, en Milan mistókst að verja titilinn.
Leao og Milan hafa farið vel af stað á nýju tímabili og var Leao spurður út í orðróma sumarsins sem sögðu ýmis stórveldi hafa áhuga á honum, auk fjársterkra félaga í Sádí-Arabíu.
Leao ákvað þó ekki að taka þátt í útrásinni til Sádí, þrátt fyrir að félög þar hafi verið reiðubúin til að greiða yfir 100 milljónir evra til að kaupa hann frá Milan.
„Að mínu mati er Meistaradeildin meira virði heldur en 10 milljón evra árslaun. Ég á eftir að afreka eitthvað frábært áður en ég get samþykkt að fara þangað," segir Leao.
„Ég er einbeittur að því að afreka frábæra hluti með AC Milan, þess vegna skrifaði ég undir nýjan samning í sumar."
Leao skrifaði undir fimm ára samning í byrjun júní og er því samningsbundinn Milan til 2028. Hann viðurkenndi að hann hafi verið svekktur með söluna á Sandro Tonali í sumar, en Tonali var meðal annars ósáttur með brottrekstur Paolo Maldini úr stjórnendastöðu.