mán 25. október 2021 21:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Íslenskt stuðningsfólk Man Utd svarar: Á að reka Solskjær?
Ef svo er, hver á að taka við?
Það er heitt undir þessum manni.
Það er heitt undir þessum manni.
Mynd: Getty Images
Anna María Baldursdóttir.
Anna María Baldursdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mauricio Pochettino og Antonio Conte.
Mauricio Pochettino og Antonio Conte.
Mynd: Getty Images
Kristjana Arnarsdóttir ræðir hér við Ólaf Inga Skúlason.
Kristjana Arnarsdóttir ræðir hér við Ólaf Inga Skúlason.
Mynd: Raggi Óla
Zinedine Zidane og Cristiano Ronaldo. Þeir unnu saman hjá Real Madrid.
Zinedine Zidane og Cristiano Ronaldo. Þeir unnu saman hjá Real Madrid.
Mynd: Getty Images
Kristján Óli Sigurðsson vill losna við Solskjær.
Kristján Óli Sigurðsson vill losna við Solskjær.
Mynd: Úr einkasafni
Mist Edvardsdóttir.
Mist Edvardsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Man Utd tapaði 0-5 fyrir Liverpool í gær.
Man Utd tapaði 0-5 fyrir Liverpool í gær.
Mynd: Getty Images
Sigurður Gísli Bond Snorrason.
Sigurður Gísli Bond Snorrason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steve Bruce er á lausu...
Steve Bruce er á lausu...
Mynd: Getty Images
Það er orðið sjóðandi heitt undir Ole Gunnar Solskjær, stjóra Manchester United. Byrjunin á þessu tímabili er mikil vonbrigði fyrir stuðningsfólk og sögurnar um stjórabreytingu hafa orðið mjög háværar eftir 0-5 tap liðsins gegn erkifjendunum í Liverpool.

Fótbolti.net heyrði í nokkrum aðilum úr stuðningsmannahópi Man Utd hér á Íslandi og fékk þeirra álit um stöðuna sem upp er komin. Lögð var fyrir spurningin: Ætti Solskjær að fá sparkið? Ef svo er, hver á að taka við?

Svona voru svörin...

Anna María Baldursdóttir, varnarmaður Stjörnunnar
Já ég held það sé kominn tími á það. Ég hef alltaf verið 'fan' af Solskjær og hann er legend hjá félaginu, en ég held að þetta sé komið gott og tími á nýjan mann í brúnna. Leikmenn virðast ekki vera að kaupa það að hann geti snúið gengi liðsins við og mikill pirringur sést inni á vellinum. Leikskipulagið er frekar óljóst og með þennan leikmannahóp ætti að vera hægt að ná betri úrslitum. Maður finnur til með honum þegar stuðningsmenn liðsins eru að baula á hann, hjá félaginu sem hann var dýrkaður og dáður sem leikmaður. Mér finnst eiginlega hans vegna bara best að slútta þessu svo hann fari ekki að grafa sér enn dýpri holu en hann er þegar í núna. Það var áhugavert að sjá hvað gerðist hjá Chelsea í fyrra þegar Lampard var látinn fara og þeir fengu alvöru þjálfara með reynslu í stað hans. Maður er smá að vona að það sama geti gerst með United.

Ég væri til í að sjá einhvern reynslumikinn þjálfara taka við þessu sem getur kveikt neistann hjá leikmönnum. Ætli Conte sé ekki ágætis kandídat í það, með alvöru passion á hliðarlínunni. Gæti séð hann setja saman gott United lið.

Halldór Marteinsson, í ritstjórn Rauðu Djöflana
Eins mikið og ég kann vel við Solskjær, þá held ég að það sé engin leið fyrir hann að halda áfram í starfinu eftir leikinn gegn Liverpool, spilamennskuna að undanförnu og fréttir mánudagsins. Traustverðir fjölmiðlamenn í Bretlandi eru með heimildir innan klefans að það séu efasemdir um taktíska getu Solskjær og það er risastórt. Þegar klefinn er farinn þá er ekki langt eftir og klefinn virðist í það allra minnsta vera farinn að hluta. Líklega bara tímaspursmál þá hvenær hann missir starfið. Það væri erfitt að halda honum núna því öll misstig liðsins héðan í frá hefðu margfölduð áhrif frá því sem var fyrir. Og næg var nú pressan fyrir að stýra Manchester United.

Solskjær hefur gert margt vel en virðist ekki hafa það sem þarf til að taka liðið alla leið á toppinn. Hann verður áfram goðsögn fyrir tímann sinn sem leikmaður Manchester United, öll mörkin sem hann skoraði og titlana sem hann átti þátt í að vinna. Hann hefur líka gefið okkur United-stuðningsmönnum bestu leikina og mestu galdraaugnablikin síðan Ferguson hætti, það er ekkert lítið virði í því. En liðið er betra en það er að sýna núna hjá Solskjær, það á að vera hægt að spila betri og árangursríkari fótbolta með þennan mannskap.

Ég er ekki viss um hvern ég vil sjá taka við. Þetta er ekki auðveld ákvörðun og því miður treysti ég þeim sem taka þá ákvörðun hjá Manchester United ekki nógu vel í hana. Kannski væri sniðugast að bíða með framtíðarákvörðunina fram á sumar. Þá væru valmöguleikarnir allavega fleiri, það er líklega auðveldara að fá stjóra til United sem eru núna í öðrum störfum í sumar frekar en strax. Conte er heitasta nafnið af þeim sem eru á lausu, eða Zidane. Þeir hafa sína kosti og sína galla, hvorugur er þó æpandi augljós kostur í starfið.

Jóhann Skúli Jónsson, Draumaliðið og Svona var sumarið
Ole Gunnar Solskjaer hefur unnið þrekvirki á Old Trafford. Hann tók við andlegum og taktískum brunarústum eftir Jose Mourinho og hefur keypt inn góða leikmenn sem hafa langflestir bætt liðið og hópurinn á pappír núna er farinn að líta mjög vel út. Liðið virðist þó á þessu tímabili hafa tekið stór skref aftur hvað varðar taktísk atriði. Það er mjög erfitt að sjá eitthvað leikplan, sérstaklega varnarlega, sem bitnar á sóknarleiknum en samkvæmt háþróaðri greiningarvinnu hjá mér skorar liðið rétt tæplega 100% af mörkum sínum eftir hrein einstaklings gæði. Bæting liðsins hefur á engan hátt haldið áfram á þessu tímabili og þó að það sé ekki að öllu leyti Solskjaer að kenna finnst mér það að stærstum hluta mega rekja til taktísku hliðar leik liðsins.

Ég sé hins vegar ekkert endilega í fljótu bragði hvaða mann ég vil sjá taka við liðinu. Að láta Solskjaer fara til að láta Carrick taka við liðinu eins og trúðar á borð við Jón Kára Eldon hafa verið að leggja á borðið sem lausn finnst mér vera eins og að fara í megrun og skipta út Snickersinu fyrir Mars (köttar út hneturnar, samt er þetta nuts). Síðan á ég veruleikafirrtan trúð sem kollega, Orra Eiríksson, sem er ýmist að segja mér að senda mail á Börk og láta Val ráða Claus Jensen eða Peter Lövendkrans eða þá biðja Glazerana um að fá Brendan Rodgers. Hvorug hugmyndin hefur hljómað rökrétt í mínum eyrum, reyndar hljómar mjög fátt rökrétt í mínum eyrum sem kemur frá honum þó ég geti haft gaman að honum.

Antonio Conte finnst mér ekki spennandi kostur. Ég myndi helst vilja fá þjálfara sem sér sóknarlínu liðsins og vill byggja upp á henni, þar er talentið. Það koma hvort sem er engir titlar inn í ár þannig ég væri til í að keyra bara upp smá geðveiki og hafa gaman. Að fá inn einhvern varnarsinnaðan kolgeðveikan Ítala núna á miðju tímabili með þetta lið og fara að pakka í vörn yrði sami skíturinn og var í gangi undir stjórn Mourinho. Ef ég á að nefna eitthvað eitt eitt raunhæft nafn þá myndi mér finnst Ralf Rangnick skemmtilegt sem einhvers konar skyndilausn. Það er svona það helsta sem mér dettur í hug, hjúfrandi undir sæng að vorkenna sjálfum mér.

Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV
Eins mikið og ég dýrka Ole Gunnar er tími hans hjá United því miður á enda. Það er eitthvað mikið að hjá þessu United liði núna og Ole er bara ekki maður sem getur tæklað þetta ástand. Svo er hann alltof mikið krútt eitthvað, maður tekur skringilega lítið mark á því þegar það fýkur í hann. En hann gerði fína hluti fyrir liðið á köflum, takk Ole.

Ég væri alveg mjög til í að sjá Mauricio Pochettino taka við liðinu, það er hvort eð er allt í steik bak við tjöldin hjá PSG svo hann hefur gott af því að skottast aftur yfir til Englands.



Kristján Óli Sigurðsson, Þungavigtin
Stutta svarið er já. Því fyrr því betra. Ole kom inn á sínum tíma í handónýtt andrúmsloft og fékk menn til að hafa gaman af fótbolta aftur eftir tíma Jose Mourinho og gerði vel. En það versta sem klúbburinn gerði var að gefa honum langtíma samning eftir sigurinn á PSG í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Hann er langt frá því að vera í flokki elítu þjálfara enda aðeins þjálfað varalið Man Utd, Molde og Cardiff, þar sem hann féll úr ensku úrvalsdeildinni.

Hver á að taka við er risastór spurning. Ég færi í Brendan Rodgers ef ég væri Glazier fjölskyldan. En ég er ekki viss um að hann myndi segja já. En það þarf að rífa í gikkinn og það strax.

Mist Edvardsdóttir, Íslandsmeistari með Val
Hingað til hef ég ekki viljað sparka OGS en eftir helgina er ég ekki viss um að það sé hægt að vinda ofan af þessu. Annað eins skipulagsleysi í varnarleik hef ég bara ekki séð hjá United.

Aðallega finnst mér bara ekki nógu mikið um spennandi þjálfarakosti. Ef einhver, þá heillar Zidane mest. Mig langar að gefa Solskjær næstu þrjá leiki og ef City leikurinn fer líka svona illa þá er þetta 100% búið.

Runólfur Trausti Þórhallsson, íþróttafréttamaður á Vísi
Stutta svarið er Já og langa svarið er á sama veg. Eins mikið og manni hefur langað til þess að Ole Gunnar Solskjær nái árangri sem þjálfari Manchester United, þá því miður virðist það fjarlægur draumur. Hann hefur í grunninn skilað góðu starfi en virðist mögulega henta betur í starf yfirmanns knattspyrnumála eins og staðan er í dag. Solskjær hefur sótt góða leikmenn en virðist engan veginn vita hvernig á að nota þá. Það er í raun jafn mikill löstur og skelfileg frammistaða liðsins á þessari leiktíð. Það segir sitt að bestu frammistöður liðsins komi þegar liðið er undir og þarf að henda öllu leikplani út um gluggann. Þó Ole hafi reynt að lagfæra vankanta sína með því að bæta í þjálfarateymið þá hefur það því miður ekki gengið og eflaust kominn tími til að breyta til.

Hver á að taka við er í raun spurningin sem heldur Ole í starfi. Það er í raun enginn augljós kostur. Antonio Conte er sigurvegari en talinn spila leiðinlegan bolta. Fólk virðist halda að hann sé José Mourinho 2.0. Ég held reyndar að flest stuðningsfólk Man Utd væri fljótt að skipta um skoðun ef hann myndi mæta og hafa svipuð áhrif og Thomas Tuchel (sem er líka leiðinlegur að margra mati). Árangur Conte í Evrópu til þessa er hins vegar áhyggjuefni. Zinedine Zidane er líka á lausu. Hann er hins vegar að bíða eftir franska landsliðinu og lítið að spá í félagsliði að svo stöddu.

Við erum annars að tala um Manchester United og þeir ættu því að geta keypt sér þjálfara. Gallinn er að þeir sem maður myndi vilja í starfið eru nú þegar að stýra liðum á betri stað en Man Utd. Erik ten Hag, þjálfari Ajax, er áhugaverður kostur en eitthvað segir mér að þeir sem ráða á Old Trafford séu brenndir eftir síðasta Hollending sem þeir réðu sem þjálfara.Þýskir þjálfarar eru í tísku en ég ætla ekki að fara þykjast vera sérfræðingur þar. Conte væri eflaust mitt val, það tók hann örskamma stund að gera Chelsea að sigurvegurum og hann er mjög sveigjanlegur þegar kemur að taktík. Ég á mjög erfitt með að trúa því að hann nái minna en Solskjær út úr leikmannahóp liðsins allavega.

Svo er Steve Bruce líka laus …

Að því sögðu hef ég litla trú á að eigendur félagsins breyti til og reikna með Solskjær við stýrið þangað til skútan er í þann mund að sökkva.

Sigurður Gísli Bond Snorrason, fótboltamaður
Ég persónulega hef verið helviti ánægður með breytinguna sem Solskjaer hefur haft á Manchester United síðan hann tók við. United var á slæmum stað þá, en hann er búinn að rífa þetta helvíti mikið upp og virðist geta fengið hvaða leikmenn sem er til sín sem hann vill en því miður er eitthvað að klikka. Skil ekki meðferðina sem hann hefur gefið Van De Beek til dæmis og að spila Harry Maguire meiddum; annars hef ég elskað Ole.

Ég er í raun og veru er búinn að hugsa þetta aðeins og ég væri bara til í að reka hann ef við myndum fá Zidane inn, annars ekki. Zidane væri auðvitað frábær, með geggjaða tengingu við Varane og Ronaldo - pottþétt með góða tengingu við Pogba líka og er bara alvöru töffari. Mbk Sigurður Gísli Bond Snorrason

Tryggvi Páll Tryggvason, fréttamaður á Vísi og Stöð 2
Já, því miður. Það má hrósa Solskjær fyrir margt. Hann kom ró yfir klúbbinn eftir stormasamt tímabil undir stjórn José Mourinho. Honum tókst að leggja ágætar undirstöður, leggja góðan grunn og liðið spilaði að mörgu leyti heilt yfir besta boltann sem það hefur gert í lengri tíma. Því miður hefur það alltaf komið betur og betur í ljós að hann ræður ekki við að byggja upp af þessum grunni það sem til þarf til að keppa við erkifjendur félagsins, sem eru ansi mörgum skrefum á undan United þessa dagana. Afhroðið um helgina afhjúpaði það endanlega að hann hefur ekki það sem til þarf til þess að vera knattspyrnustjóri United, til þess að taka upp um þau skref sem það og eftir á að hyggja hefði félagið auðvitað ekki átt að láta undan nostalgíunni með því að ráða hann til frambúðar eftir góða byrjun sem skammtímalausn.

Varðandi það hver tekur við þá verð ég að skila auðu þar. Mér finnst enginn augljós kandídat, kannski helst þá Conte, sem er þó alls ekki gallalaus. Alltaf tekst félaginu að reka stjóra þegar vænsti bitinn á markaðnum er ekki laus, sem er kannski eftir öðru þegar kemur að stjórn félagsins undanfarin misseri.
Enski boltinn - Íslandsmeistarar rýndu í stöðu Solskjær
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner