Real vill Branthwaite - Napoli sýnir Höjlund áhuga - Livramento og Cambiaso orðaðir við City
   mið 26. febrúar 2025 18:11
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sindri Kristinn orðaður við Val - „Þá myndum við finna lausn á því með honum"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það heyrðist af því um helgina, og sagt frá því í útvarpsþættinum Fótbolta.net, að Valur hefði spurst fyrir um Sindra Kristin Ólafsson, markmann FH, en hann er orðaður í burtu frá félaginu þessa dagana. Hann var orðaður við KA í síðustu viku.

Formaður fótboltadeildar Vals, Björn Steinar Jónsson, sagði við Fótbolta.net að Valsmenn hefðu skoðað markmenn vegna meiðsla Ögmundar Kristinssonar.

FH sótti á dögunum Mathias Rosenörn og er Daninn hugsaður sem aðalmarkmaður Fimleikafélagsins.

Fótbolti.net ræddi við Davíð Þór Viðarsson, yfirmann fótboltamála hjá FH , í gær og var hann spurður út í Sindra.

„Það er erfitt að tala um einstök lið en það hefur alveg verið áhugi á honum og við vitum að staðan hans er örlítið breytt frá því sem var. Öll mín samtöl við Sindra hafa verið mjög góð. Hann er ánægður í FH, en það lítur kannski þannig út núna að hann sé númer tvö í röðinni hjá okkur. Ef svo ber undir, og það er hans vilji, þá myndum við finna lausn á því með honum að hann fengi að fara í annað félag," sagði Davíð í gær.

Sindri var orðaður við HB í Færeyjum fyrr í þessum mánuði. Kom tilboð frá Færeyjum?

„Nei, það kom ekkert tilboð frá Færeyjum. Ég sá þetta og las um þetta, en það var ekkert sem kom inn á borð til mín," sagði Davíð.
Athugasemdir
banner
banner