Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   fim 26. október 2023 14:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Pirringurinn stigmagnast í Vesturbænum
Elvar Geir Magnússon
Þjálfaramál KR er helsta umræðuefni íslenskra fótboltaáhugamanna.
Þjálfaramál KR er helsta umræðuefni íslenskra fótboltaáhugamanna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ákveðið var að endursemja ekki við Rúnar.
Ákveðið var að endursemja ekki við Rúnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn var efstur, og jafnvel bara einn, á óskalista KR til að byrja með.
Óskar Hrafn var efstur, og jafnvel bara einn, á óskalista KR til að byrja með.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nafn Gregg Ryder er háværast í Vesturbænum núna.
Nafn Gregg Ryder er háværast í Vesturbænum núna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hver verður næsti þjálfari KR?' er vinsælasti samkvæmisleikur fótboltaáhugamanna og fjölmiðla um þessar mundir. Á meðan eru stuðningmenn Vesturbæjarstórveldisins margir hverjir reiðir yfir stöðu mála og að félagið hafi orðið ákveðinn skotspónn í umræðunni. Spjót beinast að þeim sem stýra ferðinni og erfitt að sjá hver lendingin verður.

Það var alltaf vitað þegar tilkynnt var að Rúnar Kristinsson yrði látinn stíga frá borði yrðu stórir skór að fylla en pressan sem verður á nýja þjálfaranum gæti orðið af einhverjum öðrum toga en við höfum áður séð í íslenska boltanum.

Fjölmörg nöfn hafa verið orðuð við starfið og leitin hefur dregist á langinn, KR hefur þurft að horfa neðar á listann en félagið vildi og reiknaði með. Menn hafa reynt að horfa út fyrir boxið og erfitt að sjá að úr þessu verði hægt að finna mann sem almenn sátt mun ríkja með hjá stuðningsmönnum.

Það er risastór ákvörðun að láta mann eins og Rúnar fara, andlit félagsins. Mörgum sem voru á því að tími væri til breytinga hefur snúist hugur og fjölgað í þeim hópi sem telja þetta hafa verið stór mistök.

Létum við Rúnar fara fyrir 'hann'?
KR hefur unnið deildina oftast og bikarinn oftast eins og sungið er um. Stoltir KR-ingar sætta sig ekki við það að þjálfarastarf félagsins sé orðinn einhver 'afgangshlutur' í íslenska fótboltaumhverfinu.

Eftir erfiða þjálfaraleit verður þráðurinn stuttur hjá stuðningsmönnum KR fyrir þann þjálfara sem tekur við. „Létum við Rúnar fara fyrir 'hann'?" er setning sem telja verður líklegt að gæti heyrst þegar nýr maður verður ráðinn og heyrist svo oftar ef sá aðili nær ekki þeim árangri sem fólk vill sjá.

Sá sem tekur við verður allavega meðvitaður um að upphaflega var hann ekki ofarlega á óskalistanum þegar vegferðin hófst.

Þeir sem KR hefur rætt við
Eins og alþjóð veit þá var Óskar Hrafn Þorvaldsson efstur (og jafnvel sá eini upphaflega?) á blaðinu fræga hjá KR og virtist mikil bjartsýni ríkja um að hann myndi skrifa undir. Málin þróuðust þó öðruvísi og Óskar fékk samning hjá Haugesund og hélt til Noregs.

Það vantar ekki KR-inga sem eru í þjálfun og félagið virðist hafa horft til Halldórs Árnasonar og Jökuls Elísabetarsonar sem varakosti ef Óskar myndi halda út. Halldór fékk hinsvegar Breiðabliksstarfið eftir að Óskar fór og Jökull vill ekki yfirgefa það spennandi starf sem er í gangi í Garðabænum, þar sem hann hefur fengið öll lyklavöld Stjörnunnar.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Brynjar Björn Gunnarsson ræddu við KR og félagið fékk höfnun frá Davíð Snorra Jónassyni U21 landsliðsþjálfara og Ólafi Inga Skúlasyni U19 landsliðsþjálfara.

Hvað næst?
Nafn Gregg Ryder virðist háværast í Vesturbænum um þessar mundir og sagan segir að hann hafi heillað á fundi sem hann fékk hjá stjórnarmönnum. Ryder hefur starfað undanfarin ár við þjálfun yngri liða og aðstoðarþjálfun hjá HB Köge í Danmörku.

Hann er fyrrum þjálfari Þróttar og var aðstoðarþjálfari ÍBV en síðasta starf hans á Íslandi var 2019 þegar hann stefndi á að koma Þór upp í efstu deild en endaði í sjötta sæti 1. deildar eftir vondan lokakafla.

Ljóst er að ráðning á Ryder yrði mjög umdeild meðal KR-inga, mörgum finnst hann ekki vera með 'prófílinn' í starfið og hann þyrfti þá að vinna stuðningsmenn á sitt band. - „Létum við Rúnar fara fyrir 'hann'?"

Margir telja að úr þessu gæti reynsluboltinn Ólafur Jóhannesson verið góð og nokkuð áhættulaus lausn og svo er spurningin hvort leitað verði út fyrir landsteinana að þjálfara sem hefur ekki starfað áður hér á Íslandi.

KR stefndi að því að vera búið að ganga frá sínum þjálfaramálum þegar þessi pistill er skrifaður. Eftir því sem dagarnir hafa liðið hefur það bara orðið enn meira spennandi að sjá hvort lendingin verði farsæl eða það skráist sem risastór mistök að hafa látið Rúnar fara.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner