Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 27. mars 2023 21:40
Ívan Guðjón Baldursson
Sérfræðingur býst við brunaútsölu hjá Chelsea
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

The Times greinir frá því að Chelsea verði að halda brunaútsölu fyrir næsta undirbúningstímabil, vilji félagið standast háttvísisreglur ensku úrvalsdeildarinnar sem snúa að fjármálum.


Chelsea hefur eytt gífurlega háum upphæðum, bæði til leikmannakaupa og í launagreiðslur, og segir grein Times frá því að félagið neyðist til að selja leikmenn áður en næsta fjármálaár byrjar í fótboltaheiminum.

Chelsea tilkynnti 153,4 milljón punda tap tímabilið 2020-21 og 121 milljóna tap á síðustu leiktíð. Því er ljóst að félagið verður að selja mikið af leikmönnum til að standast fjármálareglur ensku deildarinnar fyrir næstu leiktíð. Félag má ekki tapa meira en 105 milljónum punda yfir þriggja ára tímabil.

Kieran Maguire, sem er sérfræðingur í fótboltafjármálum, segir að Chelsea eigi verðugt verkefni fyrir höndum sér til að standast háttvísisreglurnar yfir næstu tvö tímabil.

Hann býst því við að Chelsea muni reyna að selja eins mikið af leikmönnum og mögulegt er í sumar, bæði fyrir og eftir skiptingu fjármálaársins, eftir að félagið eyddi fleiri hundruð milljónum í leikmannakaup á yfirstandandi tímabili. Þær milljónir telja þó ekki allar strax vegna greiðsludreifingu samkomulaga sem Chelsea gerði við seljendur.

„Chelsea eru heppnir með það að þeir eru með gríðarlega stóran leikmannahóp og geta því selt mikið af leikmönnum til að bæta upp fjárhagstapið. Við höfum þegar séð mikla umræðu um yfirvofandi sölur á Mason Mount og Conor Gallagher og ég efast ekki um að fleiri leikmenn munu fylgja," segir Maguire.

Slæm staða Chelsea í ensku úrvalsdeildinni getur haft verulega neikvæð áhrif á fjárhag félagsins þar sem liðið er í hættu á að missa af Evrópusæti fyrir næstu leiktíð.

UEFA tilkynnti síðasta september að fjögur ensk félög í Evrópukeppnum væru undir smásjá knattspyrnusambandsins vegna mögulegra brota á fjármálareglum. Chelsea var meðal þeirra félaga en verður ekki lengur undir lögsögu UEFA ef félaginu mistekst að komast í Evrópukeppni.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner