Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   fim 27. apríl 2023 08:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Gerðu það bara, ekki bíða eftir breytingum
Daði Rafnsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Daði Rafnsson
Daði Rafnsson
Mynd: Úr einkasafni
Í sumar kemur út bókarkafli eftir undirritaðann og Hafrúnu Kristjánsdóttur í bókinni Football in the Nordic Countries sem gefin er út af Routledge. Honum er ætlað að varpa ljósi á jákvæðar breytingar í viðhorfi íslensks almennings til knattspyrnu kvenna síðan kvennalandsliðið varð fyrsta A landslið Íslands í knattspyrnu til að komast á stórmót árið 2009. Þó að enn sé ýmislegt óunnið í jafnréttismálum innan knattspyrnunnar, hefur þó margt breyst til hins betra hraðar en víðast annars staðar.

Þar stendur þrennt upp úr. Í fyrsta lagi hversu þekktar landsliðskonur Íslands eru meðal almennings. Sá Íslendingur er vandfundinn sem þekkir ekki Margréti Láru, Söru Björk, Glódísi og Sveindísi. Í öðru lagi hefur fjölmiðlaumfjöllun um knattspyrnu kvenna stórbatnað með tilkomu nýmiðla og ritstjórnarákvarðanna á hefðbundnum fjölmiðlum. Í þriðja lagi hafa konur hlotið brautargengi í mikilvægum stjórnunarstöðum innan knattspyrnunnar. Það er einstakt á heimsvísu að formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri knattspyrnusambands séu konur.

Bókakaflinn okkar heitir Gerðu það bara! Ekki bíða eftir breytingum. (Women’s football in Iceland: Just do it! Don’t wait for change). Þar byggðum við á viðtölum við konur sem hafa leikið stór hlutverk hver á sínu sviði í uppbyggingu kvennaknattspyrnu frá 2009. Meginniðurstaðan er sú að fólk í áhrifastöðum þarf ekki að bíða eftir því að aðrir breyti hlutum til hins betra. Það breytir þeim bara. Þannig fór landsliðsþjálfari Íslands á sínum tíma markvisst í fjölmiðla og hvatti fólk til að mæta á leiki, þótt aðsóknin væri sögulega dræm. Stjórnendur innan KSÍ tóku ákvarðanir um að jafna aðbúnað, bónusa og dagpeninga. Stjórnendur einstakra félaga ákváðu að jafna aðbúnað og leggja metnað í kvennastarfið. Þannig eignuðust þeir fyrir vikið heilsteyptari félög eins og einn viðmælandi okkar komst að orði. Leikmenn fóru út á meðal yngri iðkenda, voru sýnilegar og aðgengilegar fyrirmyndir. Styrktaraðilar fóru að gera kröfur á knattspyrnusambandið og félög um að gæta að jafnrétti. Áhrifafólk í fjölmiðlum fór markvisst að auka sýnileikann og setja konur í sviðsljósið, enda vex ekkert í myrkri.

Það er líklega vegna þess að svo margt hefur áunnist að það veldur titringi þegar einhverjir hlutir sem eiga að vera sjálfsagðir reynast ekki vera í lagi. Baráttu knattspyrnukvenna fyrir viðurkenningu innan félaga sinna, hagsmunasamtaka knattspyrnunnar og samfélagsins í heild er ekki lokið.

Kvennaknattspyrnan er ekki þiggjandi í íslenskri knattspyrnu. Hún hefur skipað sér í fremstu röð undanfarin fimmtán ár, með reglulegri þátttöku á stórmótum, stórauknum fjölda atvinnukvenna hjá öflugum félögum og háskólum erlendis og þátttöku í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Þátttaka íslenska kvennnalandsliðsins á stórmótum bjó til stofnanaþekkingu innan sambandsins. Þjálfarar, starfsfólk og stjórnendur öðluðust þekkingu sem kom íslenska karlalandsliðinu til góða í lokakeppnum seinna meir. Fyrir þá sem mæla allt í aurum, má benda á að aðdáendur kvennaíþrótta á alþjóðavísu eru líklegri til að kaupa, tala jákvætt um og tengjast vörumerkjum sem styrkja uppáhaldíþróttina þeirra heldur en aðdáendur karlaíþrótta.

Jafnrétti er ekki háð neinum náttúrulögmálum, heldur ákvörðunum einstaklinga og hópa. Því fylgir ábyrgð að veljast til eða taka sér sæti í forystu fyrir samtök á borð við knattspyrnufélög, knattspyrnusambönd eða hagsmunasamtök. Það að kvennaknattspyrnan upplifi að enn sé víða komið fram við sig eins og nöldrandi frænku að norðan getur ekki að öllu leiti verið komið til af misskilningi eða klaufaskap. Ekki eftir allt sem á undan hefur gengið og allt það sem hefur áunnist. Góðu fréttirnar eru að allt þetta er einfalt að laga með smá meðvitund. Og það þarf ekki að bíða eftir að aðrir breyti hlutunum ef maður er í aðstöðu til að gera það sjálfur.

Daði Rafnsson
Athugasemdir
banner
banner
banner