Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
   mán 27. maí 2024 12:26
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Veit ekki hvar og hvenær ég datt á hausinn og fór að dæma fótbolta"
'Ég held það sé jákvætt upp á framtíðina að fyrrum leikmenn fari að dæma.'
'Ég held það sé jákvætt upp á framtíðina að fyrrum leikmenn fari að dæma.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jens Elvar, þá leikmaður Þróttar, að kvarta í aðstoðardómara.
Jens Elvar, þá leikmaður Þróttar, að kvarta í aðstoðardómara.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Á ferlinum lék hann með Þrótti, Fjarðabyggð, Fylki, Hvöt, Reyni Sandgerði, Gróttu, Kríu og SR.
Á ferlinum lék hann með Þrótti, Fjarðabyggð, Fylki, Hvöt, Reyni Sandgerði, Gróttu, Kríu og SR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jens hefur t.d. þjálfað á Blönduósi, á Seltjarnesi, í Sandgerði og hjá Þrótti.
Jens hefur t.d. þjálfað á Blönduósi, á Seltjarnesi, í Sandgerði og hjá Þrótti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leiknum gegn Stjörnunni.
Í leiknum gegn Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Ragnar er líka byrjaður að dæma.
Stefán Ragnar er líka byrjaður að dæma.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Gunnar Jarl 'laug' að Jens að hann væri alveg með þetta.
Gunnar Jarl 'laug' að Jens að hann væri alveg með þetta.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það vakti athygli í aðdraganda leiks Stjörnunnar og Fylkis í Bestu deild kvenna að Jens Elvar Sævarsson (1980) væri dómari leiksins. Jens lék 356 KSÍ á sínum ferli, þar af 46 í efstu deild.

Hann byrjaði að dæma í vetur og ræddi við Fótbolta.net í dag um hvernig það hefði komið til.

„Ég veit eiginlega ekki hvar og hvenær ég datt á hausinn, fór að hlaupa langhlaup og fjallahlaup og fór að dæma fótbolta," sagði Jens sem var í miðju hlaupi upp Esjuna þegar Fótbolti.net náði tali á honum.

„Öll þessi ár sem ég spilaði þá var ég náttúrulega allan leikinn að aðstoða dómarana," sagði Jens og fréttaritari skaut inn í að hann væri ekki einn um það. „Nei nei, en ég var frekar hávær með það."

„Ég er með smá hlaupadellu, finnst gaman að fara út að hlaupa og byrjaði að hjálpa mínu félagi, Þrótti, hljóp (dæmdi) einhverja yngri flokka leiki í staðinn fyrir að hlaupa í Laugardalnum. Svo fór Gunnar Jarl (Jónsson, fyrrum dómari og meðlimur í dómaranefnd KSÍ) að ljúga að mér að ég væri nú alveg með þetta. Ég fór á héraðsdómarafyrirlestur og fór í þrekprófið."

„Ég hef mjög gaman af fótbolta. Ég hætti að spila, fór að þjálfa, það tók of mikinn tíma. Svo fylgdist ég eiginlega ekkert með fótbolta í þrjú ár, en þetta heldur manni einhvern veginn inni í fótboltanum. Ég held það sé jákvætt upp á framtíðina að fyrrum leikmenn fari að dæma. Mig grunar að það séu fleiri vitleysingar eins og við sem eru með þetta aftan í kollinum og munu tilleiðast. Það er fullt af góðum mönnum í þessu, en ég held það hjálpi þeim og fótboltanum að það komi gæjar sem þekkja leikinn mjög vel og hafa töluverða reynslu úr efstu deildum,"
sagði Jens sem nefndi að Stefán Ragnar Guðlaugsson (1991), fyrrum leikmaður Selfoss, Vals, Fylkis og ÍBV, væri einnig byrjaður að dæma og væri að gera góða hluti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Borgar til baka nöldrið og kvartið
Þegar spjaldaferill Jens á KSÍ er skoðaður sést að hann hefur fengið 123 spjöld, sem leikmaður og þjálfari, og þar af eru 11 rauð spjöld.

„Það var enginn einn sem ýtti mér út í að fara dæma, bara sá sem felldi mig þegar ég datt á hausinn. Ég er búinn að hugsa það svo oft hverju ég get svarað, því ég hef svo oft verið spurður að þessu. Þetta er á meðan er, í dag hef ég bara gaman af þessu, ber virðingu fyrir leiknum og er kannski að borga til baka nöldrið og kvartið sem ég eyddi í dómarana með því að láta aðeins nöldra og kvarta í mér."

Safnar sér reynslu til að læra betur inn á hlutverkið
Ertu með það sem markmið að dæma í efstu deild karla?

„Ég hef dæmt einhverja æfingaleiki hjá liðum gegn Þrótti, leiki gegn Lengjudeildarliðum og Bestu deildar liðum. Það er allt annað en alvöru leikir. Mig grunar að því meiri gæði sem leikurinn býður upp á, því betur getur maður nýtt sér reynsluna sem leikmaður í að geta látið leikinn fljóta og þess háttar. Ef ég væri settur á leik í Bestu karla þá myndi ég glaður taka hann. Ég hef verið að dæma í 2. og 3. deild, maður finnur að maður þarf að fá fjölda leikja til að læra inn á annað heldur en kannski fótboltann sjálfan."

Mannlegi þátturinn má vera stærri
Hvað hefur verið mesta áskorunin við að dæma?

„Það er kannski að venjast þessum nýju áherslum; taka á því þegar verið er að pikka boltanum í burtu og hvernig á að tækla ef það eru læti á bekkjunum. Ég er mjög hrifinn af því að reyna koma í veg fyrir óþarfa leiktafir og finnst það vera komið á góðan veg í fótboltanum hér. Varðandi spjöld, þá verður að leyfa smá hörku líka, spjöldin mega ekki koma of snemma. Ég var harður leikmaður og lét alveg finna fyrir mér, ef ég hefði spjöld fyrir öll brot þá hefði ég fengið fleiri rauð spjöld á mínum ferli og ekki voru þau fá."

„Það sem er erfiðast fyrir mann sem dómari er þegar leikmenn eru agressífir gagnvart manni. Þetta er ekki spurning um hvað menn segja, heldur hvernig menn segja það. Ég man alveg hvernig ég var sjálfur, ég var ógeðslega agressífur, en aldrei dónalegur. Ég skil alveg núna af hverju ég fékk öll þessi spjöld. Það var ekki að ég hafi sagt eitthvað dónalegur, heldur var ég of agressífur, hroki sem leikmenn sýna oft dómaranum, örugglega ósjálfrátt. Það eru skemmd epli inn á milli sem bera enga virðingu fyrir störfum dómara, en flestir bera virðingu fyrir störfum dómara."

„Ég hef reynt að nálgast þetta miklu meira á mannlega. Í staðinn fyrir að rifa upp spjald þegar einhver sýnir hroka, og æsi leikmanninn meira upp með því, þá reyni ég róa leikmanninn niður. Mannlegi þátturinn má vera miklu stærri í þessu."


Hjálpar ekki að vera agressífur gagnvart dómurum
Hefur þú horft til baka á þig sem leikmann og hugsað: Af hverju var ég svona?

„Ég gerði það í rauninni eftir hvern einasta leik þegar ég kom inn í klefa. Maður ræður ekki oft við tilfinningarnar þegar þú upplifir það að verið sé að brjóta á þér. Ég skil það manna best að menn verði reiðir þegar þeir upplifa að það sé brotið á þeim. Nöldur og kvart finnst mér að megi alveg vera, menn sýni smá ástríðu, svo lengi sem það er ekki hroki, agressíf nálgun gagnvart dómara og dónaskapur. Nöldur og kvart verður að fá að vera með, annars verður þetta ekki sami leikurinn."

„Ég var ekki dónalegur, en ég var agressífur. Ég sé það núna að það hjálpaði mér ekki á vellinum. Þeir leikmenn sem koma agressífir að mér þegar ég er að dæma fá minni þolinmæði."


Ekki spurning um hvað sé sagt, heldur hvernig það sé sagt
Ertu undirbúinn fyrir það að fá gagnrýni á þig í hlaðvarpsþáttum?

„Ég er fyrstur manna til að gagnrýna fólk á uppbyggilegan hátt. Ef ég verð gagnrýndur á einhvern hátt þá reyni ég bara að vinna með það. Það er bara eins og á vellinum, þetta er kannski ekki spurning um hvað menn segja það, heldur hvernig þeir segja það. Gagnrýni getur hjálpað manni."

„Ég hef sjálfur verið gestur í hlaðvarpsþáttum og verið einn af þeim trúðum sem babla um eitthvað sem þeir mögulega hafa ekkert vit á. Ég hef setið báðu megin við borðið. Ég hlusta á öll þessi hlaðvörp. Heiðurinn er minn ef menn nefna mig á nafn, annað hvort læri ég af því eða tek því hrósi. Ég hata nú ekkert að fá smá umtal um sjálfan mig, allt umtal er gott, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt,"
sagði Jens sem var við það að klára Esjuhlaupið þegar símtalinu lauk.

Úr skýrslu Hafliða Breiðfjörð eftir leik Stjörnunnar og Fylkis:
Toppdagur hjá Jens Elvari og teyminu hans í dag en ekki mikið um erfið atvik. Fær því góða einkunn fyrir frammistöðuna í dag. En hann þarf samt að fá hrós sem nær út fyrir þennan eina leik. Það er stöðugt verið að reyna að fá fólk til að koma inn í dómgæsluna og gengur misvel. Jens Elvar Sævarsson er með gríðarlega reynslu sem fótboltamaður og á að baki fjölda leikja í efstu deild auk þess að hafa spilað með yngri landsliðum þjóðarinnar. Að fá svona reynslubolta í dómgæsluna er hvalreki og góð fyrirmynd fyrir aðra sem velta fyrir sér hvort það sé til líf eftir fótboltann. Fyrir það fær hann stóra hrósið!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner