Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 27. júní 2022 15:05
Elvar Geir Magnússon
Íslandsvinurinn Linta færði sig um set í Serbíu - „Þessi ákvörðun kemur á óvart"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aleksandar Linta hefur fært sig um set í Serbíu en hann hafnaði tilboði frá Vozdovac um nýjan samning og er tekinn við stjórnartaumunum hjá Radnik Surdulica.

Linta bjó í 15 ár á Íslandi og kom fyrst hingað árið 1997 til að spila með liði ÍA. Hann spilaði síðar með Skallagrími, Víkingi Ólafsvík, KA, Þór og Grundarfirði þar sem hann var jafnframt þjálfari.

Hann hefur verið að gera góða hluti í þjálfun og stýrði Vozdovac í fimmta sæti serbnesku úrvalsdeildarinnar á liðnu tímabili.

Þrátt fyrir vel heppnað tímabil þá hafnaði Linta tilboði frá Vozdovac um nýjan samning og skrifaði undir hjá Radnik sem hafnaði í tíunda sæti úrvalsdeildarinnar.

Milos Mirkovic, framkvæmdastjóri Vozdovac, segir það hafa komið á óvart að Linta hafi tekið þessa ákvörðun.

„Eftir mjög vel heppnað tímabil með Linta við stjórnvölinn þá var klár vilji hjá félaginu að samstarfið myndi halda áfram. Það er metnaður til að bæta gengið enn frekar. En því miður þá fékk hann betra tilboð fjárhagslega frá Radnik Surdulica," segir Mirkovic.

„Þessi ákvörðun kemur á óvart en í fótboltanum er ekki tími til að gráta yfir neinu. Linta valdi að fara aðra leið og við óskum honum alls hins besta."

Fyrr á þessu ári tók Hafliði Breiðfjörð ítarlegt viðtal við Linta.

Nýtt tímabil í Serbíu fer af stað þann 9. júlí.
Athugasemdir
banner
banner
banner