Þorsteinn Halldórsson (Breiðablik)

„Það heppnaðist allt sem þurfti að heppnast," sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, við Fótbolta.net í dag en liðið varð Íslands og bikarmeistari í sumar. Þorsteinn er þjálfari ársins hjá Fótbolta.net.
Breiðablik var með ungan leikmannahóp en Þorsteinn hafði allan tímann trú á að liðið gæti orðið meistari.
„Ég hafði mikla trú á því að við gætum staðið uppi sem meistari í báðum mótum. Ég var vel bjartsýnn. Fyrsti leikurinn hjálpaði okkur mjög mikið. Að lenda undir og vinna sannfærandi það styrkti trú liðsins á því hversu gott það gæti orðið," sagði Þorsteinn en Breiðablik vann Stjörnuna 6-2 í fyrsta leik.
Líður vel hjá Breiðabliki
Þorsteinn hefur verið orðaður við stöðu landsliðsþjálfara kvenna en hann segist ekki vera að fara neitt.
„Ég er samningsbundinn Breiðablik og verð þar áfram," sagði Þorsteinn en hann heyrði frá KSÍ á dögunum.
„Það var bara létt spjall. Það fór ekki nokkur skapaður hlutur í gang. Þeir eru örugglega að heyra hvernig landið liggur hjá mönnum. Þeir hafa örugglega rætt við fleiri og taka svo boltann áfram."
„Ég hef ekki áhuga á því að taka við landsliðinu eins og staðan er í dag. Mér líður vel þar sem ég er og er mjög ánægður hjá Breiðabliki. Ég tel ekki réttan tímapunkt fyrir mig persónulega að fara í annað verkefni. Það eru möguleikar á að gera góða hluti með Breiðablik á næstu árum og ég ætla að gera það," sagði Þorsteinn en Breiðablik er á leið í Meistaradeildina á næsta ári.
„Það er rosalega gaman að fara í Evrópukeppni. Við gerðum það 2016. Ef við horfum á aldur liðsins þá tel ég að það geti orðið ennþá betra og ef allt gengur upp þá á það eftir að verða ennþá sterkari. Ég vænti ekki annars en að við höldum áfram að gera góða hluti eins og í sumar."
Litlar breytingar væntanlegar
Þorsteinn vonast til að halda öllum sínum leikmönnum fyrir næsta sumar.
„Staðan er þannig að engin er með lausan samning og ég sé ekki fram á stórvægilegar breytingar. Það er engin sem getur farið auðveldlega frá okkur eins og staðan er núna. Ég á ekki von á að leikmenn vilji fara nema þær fari í atvinnumennsku," sagði Þorsteinn en Breiðablik gæti bætt við sig í vetur. „Við munum eflaust skoða það. Ef við sjáum góða möguleika sem hjálpa okkur þá munum við skoða það," sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari ársins, að lokum.
Athugasemdir