Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 27. september 2022 14:49
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtöl
Haddi um nýja starfið: Kom mér líka á óvart á þessum tímapunkti
Hallgrímur Jónasson og Arnar Grétarsson.
Hallgrímur Jónasson og Arnar Grétarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallgrímur er spenntur fyrir þessari nýju áskorun.
Hallgrímur er spenntur fyrir þessari nýju áskorun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Af hliðarlínunni í sumar.
Af hliðarlínunni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skórnir komnir upp á hillu?
Skórnir komnir upp á hillu?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA ætlar að enda fyrir ofan Víkinga.
KA ætlar að enda fyrir ofan Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta kom mér líka á óvart. Þetta gerðist mjög fljótt," segir Hallgrímur Jónasson, nýráðinn þjálfari KA, í samtali við Fótbolta.net.

Hann var síðasta föstudagskvöld ráðinn nýr aðalþjálfari KA til þriggja ára. Hallgrímur tekur við starfinu af Arnari Grétarssyni sem var sagt upp eftir að hann náði munnlegu samkomulagi við annað félag.

Hallgrímur hefur starfað sem aðstoðarþjálfari Arnars síðustu árin en tekur núna stökkið og verður aðalþjálfari liðsins. Hann var ekki alveg að búast við að taka við þessu starfi á þessum tímapunkti en hann segist vera tilbúinn á að takast á við áskorunina.

„Þetta er bara ákvörðun sem stjórnin tók. Ég frétti seint af þessu. Við tókum fund og ræddum þetta. Ég ræddi líka við Arnar. Við höfum unnið náið saman í langan tíma. Arnar er búinn að gera vel og ég hef lært fullt af honum. Við höfum unnið vel saman. Þetta kom mér líka á óvart á þessum tímapunkti," segir Hallgrímur.

Hugsunin var ekki endilega að það yrði strax
Þetta kom mjög snöggt upp og viðurkennir Hallgrímur, sem er 36 ára, að hann hafi þurft að velta þessu aðeins fyrir sér. Þetta er hans fyrsta starf sem aðalþjálfari í meistaraflokki.

„Mér líst mjög vel á það. Ég er mjög spenntur. Ég er að taka við góðu liði sem er á góðum stað. Þetta er vel samsett lið og spennandi tímar framundan. Ég er búinn að vera með Arnari og sama teyminu í langan tíma. Það hefur gengið vel og liðið er á flottum stað. Ég og mitt teymi, við erum spenntir," segir Hallgrímur.

„Ég þurfti alveg að velta þessu fyrir mér. Ég hef verið að æfa með liðinu og spila. Ég hef sagt að ég hef áhuga á því að verða aðalþjálfari einhvern tímann í náinni framtíð, en hugsunin var ekki endilega að það yrði strax. Svo kom þetta tækifæri. Ég hugsaði þetta aðeins og spjallaði við mína fjölskyldu. Ég ákvað svo að slá til. Þetta er mjög spennandi verkefni og ég þekki strákana vel."

Hallgrímur, sem er fyrrum landsliðsmaður og atvinnumaður til margra ára, hefur komið við sögu í tveimur leikjum í Bestu deildinni í sumar. Eru skórnir þá komnir upp á hillu?

„Aldrei segja aldrei, en akkúrat núna er ég fyrst og fremst að hugsa sem þjálfari. Þetta gerist svo fljótt og það er fullt sem ég þarf að setja mig inn í. Akkúrat núna er ég ekki að æfa með liðinu."

Óskar Arnari alls hins besta
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er Arnar Grétars að taka við Val eftir leiktíðina. Hallgrímur er þakklátur fyrir þann tíma sem hann starfaði með honum.

„Þessi tími með Arnari hefur verið mjög flottur og lærdómsríkur. Hann kom með hluti inn í félagið sem þurfti og er búinn að lyfta félaginu upp. Árangurinn er mjög flottur. Ég er búinn að vinna vel með Arnari og við erum nánir. Ég er mjög þakklátur fyrir þennan tíma. Hann hefur kennt mér mikið," segir Hallgrímur og bætir við:

„Það er ekkert illt á milli okkar. Við erum búnir að spjalla í síma og hittast og ræða málin. Ég óska honum alls hins besta. Ég er mjög ánægður með þennan tíma sem við unnum saman. Hann er búinn að gera vel hérna en núna er hann að fara annað og ég óska honum alls hins besta."

Arnar og Hallgrímur áttu gott spjall eftir að það var ljóst að niðurstaðan yrði sú að Arnar myndi fara og Hallgrímur tæki við liðinu.

„Við áttum gott spjall og það var sjálfsagt mál. Hlutirnir geta gerst mjög hratt í fótbolta. Þú spjallar við manneskju í marga tíma á dag um allt milli himins og jarðar í meira en tvö ár, en svo allt í einu skilja leiðir. Við kvöddumst og við verðum áfram í sambandi. Það er ekkert illt á milli okkar, ekki á nokkurn hátt. Ég var ekki að leitast eftir því að verða aðalþjálfari strax en hlutirnir þróuðust svona og ég er virkilega ánægður að hafa tekið þessa ákvörðun."

Ætla að enda fyrir ofan Víkinga
Framundan er úrslitakeppnin þar sem KA-menn spila innbyrðis við liðin í topp sex. Það eru fimm leikir eftir og markmiðið er skýrt á Akureyri.

„Ég er spenntur og ég er tilbúinn. Ég hef fengið smjörþefinn af þessu. Ég er búinn að taka einhverja sex leiki í sumar þegar Arnar var í banni. Ég er ungur í þjálfun en ég er tilbúinn. Ég er með flott teymi í kringum mig. Við ætlum að gera þetta saman. Ég tel mig vera tilbúinn og er mjög spenntur fyrir þessu," segir Haddi en teymið í kringum hann verður áfram það sama og það hefur verið í síðustu leikjum.

„Það er staðfest hvernig teymið verður út tímabilið. Við klárum tímabilið og svo setjumst við niður. Ég er bara að hugsa út tímabilið núna."

KA er að berjast um það að komast í Evrópusæti, en liðið er með jafnmörg stig og Víkingur sem er í öðru sæti.

„Ég er mjög bjartsýnn. Ég er búinn að segja það við strákana að okkar markmið er að enda fyrir ofan Víking. Við erum með jafnmörg stig og Víkingur og við ætlum okkur að enda fyrir ofan þá. Það er Evrópusæti. Þegar lítið er eftir þá tökum við stöðuna og skoðum hvort það sé möguleiki að fara hærra - miðað við hvernig Breiðabliki gengur. En númer eitt, tvö og þrjú er að enda fyrir ofan Víking. Við teljum okkur vera með nógu sterkt lið til þess."

Víkingur mæta FH í bikarúrslitum á laugardag. Ef Víkingar vinna þann leik þá eru allar líkur á því að þriðja sætið muni duga til að komast í Evrópukeppni. Heldur Haddi ekki með Víkingum á laugardaginn?

„Já, það gerir það auðveldara. En við ætlum ekki að bíða og vona að önnur lið geri hlutina fyrir okkur. Við græðum ekkert á því. Við ætlum að ná í fleiri stig en Víkingar og það mun duga okkur," segir nýráðinn þjálfari KA. Hans fyrsti leikur við stjórnvölinn er heimaleikur gegn KR á sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner