Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   mið 27. nóvember 2024 22:01
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Liverpool vann Evrópumeistara Real Madrid - Kelleher varði víti frá Mbappe
Alexis Mac Allister skoraði fyrra mark Liverpool
Alexis Mac Allister skoraði fyrra mark Liverpool
Mynd: Getty Images
Caoimhin Kelleher varði vítaspyrnu frá Mbappe
Caoimhin Kelleher varði vítaspyrnu frá Mbappe
Mynd: Getty Images
Kylian Mbappe var arfaslakur í liði Real Madrid
Kylian Mbappe var arfaslakur í liði Real Madrid
Mynd: Getty Images
Morgan Rogers fagnar eftir að hafa skorað undir lok leiks, en VAR tók markið af honum
Morgan Rogers fagnar eftir að hafa skorað undir lok leiks, en VAR tók markið af honum
Mynd: Getty Images
Liverpool er komið aftur í toppsætið í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa unnið Evrópumeistara Real Madrid, 2-0, á Anfield. Sigur Liverpool þýðir að liðið er komið áfram í útsláttarkeppnina.

Liverpool fékk fyrsta hættulega færi leiksins. Ryan Gravenberch vann boltann af Kylian Mbappe áður en hann kom honum í spil. Egypski sóknarmaðurinn Mohamed Salah fékk hann hægra megin, stakk honum inn fyrir á Darwin Nunez sem náði skotinu sem Thibaut Courtois varði út í teiginn.

Boltinn fór þaðan til Raul Asencio sem átti slæma snertingu en náði að bjarga sér fyrir horn með því að hreinsa af marklínu.

Nunez fékk tvö færi til viðbótar í fyrri hálfleiknum. Boltinn datt fyrir hann í teignum en aftur varði Courtois meistaralega. Liverpool-menn eflaust að upplifa slæmar minningar frá úrslitaleiknum árið 2022 er Courtois átti leik lífs síns í markinu.

Áfram hélt Nunez að ógna marki Madrídinga. Hann átti aðra tilraun sem fór rétt framhjá markinu áður en Courtois varði skalla Luis Díaz stuttu síðar.

Conor Bradley var að spila í hægri bakverðinum í stað Trent Alexander-Arnold og var að eiga frábæran leik. Hann átti hörkutæklingu á Mbappe sem var að koma sér í góða stöðu, en annars stafaði ekki mikil ógn af sóknarmönnum Real Madrid.

Gestirnir nokkuð heppnir að fara inn í hálfleikinn á núllinu en gátu svo sannarlega þakkað Courtois fyrir það.

Francois Letexier, dómari leiksins, var spjaldaglaður í garð Liverpool í fyrri hálfleiknum en þrír fengu gula spjaldið en aðeins einn leikmaður Real Madrid fékk gult. Stuðningsmenn Liverpool voru óánægðir með ósamræmið í dómgæslu Frakkans og létu vel í sér heyra.

Liverpool kom af krafti inn í síðari hálfleikinn og kom loks fyrsta markið er Alexis Mac Allister tók þrihyrningsspil við Bradley áður en hann lagði boltann í vinstra hornið. Courtois sigraður og óhætt að segja að markið hafi verið fyllilega verðskuldað.

Mac Allister fékk tækifæri til að bæta við öðru mínútu síðar en skot hans for framhjá markinu.

Það bætti gráu ofan á svart hjá Madrídingum er Eduardo Camavinga meiddist. Carlo Ancelotti gerði tvöfalda skiptinu, en Camavinga og Arda Güler komu af velli og inn komu þeir Dani Ceballos og Lucas Vazquez.

Á 59. mínútu gerði Andy Robertson sig sekan um slæm mistök er hann steig ofan á ristina á Vazquez í vítateignum og vítaspyrna dæmd. Mbappe, sem hafði ekki átti sinn besta leik fram að spyrnunni, fór á punktinn en írski vítabaninn Caoimhin Kelleher varði vítaspyrnu Frakkans. Kelleher verið algerlega magnaður í fjarveru Alisson Becker.

Tíu mínútum eftir vítaspyrnu Real Madrid fengu heimamenn víti er Ferland Mendy braut á Mohamed Salah í teignum.

Salah fór illa með Mendy á sprettinum sem sá ekkert annað í stöðunni en að brjóta á honum. Egyptinn fór auðvitað sjálfur á punktinn en setti skotið í stöngina og framhjá. Ekki oft sem hann brennir af á punktinum.

Varamaðurinn Cody Gakpo gerði út um leikinn fyrir Liverpool á 77. mínútu. Robertson tók hornspyrnu stutt, fékk boltann aftur og kom með háan bolta á fjær þar sem Gakpo reis eins og fuglinn Fönix í teig Madrídinga og stangaði boltanum í netið.

Liverpool náði að sigla sigrinum nokkuð örugglega heim og er komið áfram í næstu umferð. Liðið er með fimm sigra af fimm mögulegum á toppnum en Real Madrid með aðeins sex stig og alls ekkert öruggt að liðið komist áfram.

Dramatík í Birmingham

Aston Villa og Juventus gerðu markalaust jafntefli á Villa Park í Birmingham-borg.

Bæði lið fengu færin til að skora. Lucas Digne átti aukaspyrnu sem hafnaði í þverslá og þá átti Pau Torres skalla yfir en Francisco Conceicao skapaði þá nokkur fín færi fyrir Juventus.

Seint í uppbótartíma skoraði Morgan Rogers eftir að Michele Di Gregorio, markvörður Juventus, missti boltann til enska leikmannsins sem kom boltanum í netið, en markið var dæmt af eftir skoðun VAR. Diego Carlos var brotlegur í aðdragandanum og niðurstaðan því markalaust jafntefli.

Aston Villa er með 10 stig i 9. sæti en Juventus í 19. sæti með 8 stig.

Tíu leikmenn Mónakó töpuðu fyrir Benfica, 3-2. Hinn 19 ára gamli Eliesse Ben Seghir skoraði fyrra mark Mónakó á 13. mínútu áður en Vangelis Pavlidis jafnaði metin snemma í síðari hálfleik.

Wilfried Singo, leikmaður Mónakó sá sitt annað gula spjald þegar hálftími var eftir en Mónakó lét það ekki stöðva sig. Songoutou Magassa kom Mónakó yfir á 67. mínútu og var liðið nálægt því að ná í fjórða sigur sinn en frábær lokakafli Benfica tryggði liðinu sigur.

Angel Di María lagði upp tvö mörk fyrir Arthur Cabral og Zeki Amdouni og 3-2 sigur niðurstaðan hjá Benfica sem er nú með 9 stig í 14. sæti en Mónakó í 8. sæti með 10 stig.

Mónakó hefur staðið sig frábærlega í Meistaradeildinni á tímabilinu og er með 11 stig í 6. sæti en Benfica í 17. sæti með 9 stig.

Hákon Arnar Haraldsson spilaði síðustu mínúturnar í 2-1 sigri Lille á Bologna. Skagamaðurinn sneri aftur til baka úr meiðslum á dögunum en Lille er með 10 stig í 12. sæti,

PSV vann tíu leikmenn Shakhtar Donetsk, 3-2, eftir frábæran lokakafla og þá gerðu Celtic og Club Brugge 1-1 jafntefli. Borussia Dortmund sótti góðan 3-0 útisigur gegn Dinamo Zagreb í Króatíu, en Dortmund, sem komst í úrslit á síðasta ári, er í 4. sæti með 12 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Aston Villa 0 - 0 Juventus

Bologna 1 - 2 Lille
0-1 Ngalayel Mukau ('44 )
1-1 Jhon Lucumi ('63 )
1-2 Ngalayel Mukau ('66 )

Celtic 1 - 1 Club Brugge
0-1 Cameron Carter-Vickers ('26 , sjálfsmark)
1-1 Daizen Maeda ('60 )

Dinamo Zagreb 0 - 3 Borussia D.
0-1 Jamie Gittens ('41 )
0-2 Ramy Bensebaini ('56 )
0-3 Serhou Guirassy ('90 )

Liverpool 2 - 0 Real Madrid
1-0 Alexis MacAllister ('52 )
1-0 Kylian Mbappe ('61 , Misnotað víti)
1-0 Mohamed Salah ('70 , Misnotað víti)
2-0 Cody Gakpo ('77 )

Monaco 2 - 3 Benfica
1-0 Eliesse Ben Seghir ('13 )
1-1 Vangelis Pavlidis ('48 )
2-1 Soungoutou Magassa ('67 )
2-2 Arthur Cabral ('84 )
2-3 Zeki Amdouni ('88 )
Rautt spjald: Wilfried Singo, Monaco ('58)

PSV 3 - 2 Shakhtar D
0-1 Danylo Sikan ('8 )
0-2 Oleksandr Zubkov ('37 )
1-2 Malik Tillman ('87 )
2-2 Malik Tillman ('90 )
3-2 Ricardo Pepi ('90 )
Rautt spjald: Pedrinho, Shakhtar D ('69)
Athugasemdir
banner
banner