Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 28. júlí 2022 11:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Er á súperdíl og maður skilur að hann fari ekki frá honum"
Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert og Lúðvík.
Albert og Lúðvík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er spurning hvað verður um landsliðsmarkvörðinn Rúnar Alex Rúnarsson á næstu vikum; hvort hann verði áfram hjá Arsenal eða fari annað.

Íslendingurinn var á láni hjá Leuven í Belgíu á síðustu leiktíð og stóð sig vel þar.

Hann fór með Arsenal í æfingaferð til Bandaríkjanna á dögunum en hann virðist ekki eiga mikla framtíð hjá félaginu samt sem áður. Í besta falli verður hann markvörður númer þrjú hjá félaginu.

Það var rætt um Rúnar Alex í hlaðvarpinu Enski boltinn í gær en þar var fjallað sérstaklega um Arsenal.

„Hann var kominn í hlutverk sem annar markvörður. Hann spilaði í deildabikarnum en klúðraði þessu gegn Manchester City þegar Mahrez aukaspyrnan lak inn. Allir stuðningsmennirnir voru á bakinu á honum sem var leiðinlegt," sagði Albert Hafsteinsson, leikmaður Fram og stuðningsmaður Arsenal, í hlaðvarpinu í gær.

„Hann er á einhverjum súperdíl þarna og maður skilur að hann fari ekki frá honum."

„Sem stuðningsmaður íslenska landsliðsins þá vill maður að hann fari á lán og spili. Það er algjör lykill að leikmennirnir okkar séu að spila," sagði Lúðvík Gunnarsson, sem er þjálfari hjá KSÍ, í þættinum.

„Ég sá einhverjar æfingaklippur um daginn og þá var einn með Jesus að verja frá honum. Það er hlutverkið sem hann fær ef hann verður áfram. Við vonum að hann fái að spila í einhverri skemmtilegri deild," sagði Albert.

Það verður að teljast líklegra að Rúnar Alex fari á láni frekar en að hann verði seldur út af þeim launapakka sem hann er sagður vera með hjá Arsenal. Það eru ekki öll félög sem ráða við hann og því ágætis líkur á því að Lundúnafélagið muni áfram borga einhvern hluta af launum hans ef hann fer annað á láni.

Hægt er að hlusta á allan þáttinn hér fyrir neðan.
Enski boltinn - Arsenal upphitun með Skagafrændum
Athugasemdir
banner
banner