Framarar eru að krækja í hollenska sóknarmanninn Djenario Daniels en Morgunblaðið greinir frá þessu. Guðmundur Torfason, formaður knattspyrnudeildar Fram, staðfestir að leikmaðurinn sé kominn til landsins.
Framarar vonast til þess að Daniels verði löglegur í næsta leik gegn Fylki á miðvikudagskvöld.
Framarar vonast til þess að Daniels verði löglegur í næsta leik gegn Fylki á miðvikudagskvöld.
Daniels er 22 ára gamall sóknarmaður sem getur leyst það að spila á báðum köntunum og fremst á vellinum.
Hann ólst upp hjá Almere City í Hollandi en var einnig hjá unglingaliðum PSV Eindhoven, Utrecht og Sassuolo. Hann fór árið 2022 til Pacific FC í Kanada og hefur að undanförnu verið hjá Leixoes í Portúgal.
Daniels hefur komið við sögu í 14 leikjum með Leixoes í portúgölsku B-deildinni án þess að skora mark.
Sóknarmaðurinn lék á sínum tíma með U17 og U18 landsliðum Hollands en hann kemur til með að styrkja Framliðið eftir að Viktor Bjarki Daðason og Aron Snær Ingason yfirgáfu félagið. Már Ægisson er þá að fara í nám og Jannik Pohl er mikið meiddur.
Fram vann magnaðan sigur á Val í gærkvöldi en liðið er í sjöunda sæti með 22 stig.
Athugasemdir