Arsenal með í kapphlaupinu um Ekitike - Mikill áhugi á McAtee - Man Utd tilbúið að selja Malacia
   mán 30. júní 2025 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Thun
Þetta eru varnarmenn Íslands - Sú besta í heiminum
Icelandair
EM KVK 2025
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði.
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Glódís hefur lengi verið hluti af landsliðinu.
Glódís hefur lengi verið hluti af landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís var í fyrra íþróttamaður ársins.
Glódís var í fyrra íþróttamaður ársins.
Mynd: KSÍ - Mummi Lú
Fyrirliði landsliðsins og Bayern München.
Fyrirliði landsliðsins og Bayern München.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Sædís er efnilegur leikmaður sem er á leið á sitt fyrsta stórmót.
Sædís er efnilegur leikmaður sem er á leið á sitt fyrsta stórmót.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sædís lék áður með Stjörnunni.
Sædís lék áður með Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Ingibjörg er varafyrirliði landsliðsins.
Ingibjörg er varafyrirliði landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir leik með landsliðinu.
Fyrir leik með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á EM 2017.
Á EM 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Natasha Anasi fyrir leik með landsliðinu.
Natasha Anasi fyrir leik með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Keflavík.
Í leik með Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðrún Arnardóttir.
Guðrún Arnardóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Áritar hér Vestra treyju.
Áritar hér Vestra treyju.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir að Ísland komst á EM.
Eftir að Ísland komst á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda á landsliðsæfingu.
Áslaug Munda á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Útskrifaðist úr Harvard fyrir stuttu.
Útskrifaðist úr Harvard fyrir stuttu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðný Árnadóttir, miðvörðurinn sem er í dag bakvörður.
Guðný Árnadóttir, miðvörðurinn sem er í dag bakvörður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðný spilar í dag með Íslendingaliði Kristianstad.
Guðný spilar í dag með Íslendingaliði Kristianstad.
Mynd: Kristianstad
Fyrsti leikur Íslands á Evrópumótinu fer fram á miðvikudag er stelpurnar okkar mæta Finnlandi. Í riðlinum eru líka Noregur og Sviss en það eru góðir möguleikar á því að gera góða hluti á þessu móti.

Fyrir fyrsta leik á mótinu ætlum við að kynna lesendum betur fyrir öllum leikmönnum liðsins og næst eru það varnarmennirnir.

4. Glódís Perla Viggósdóttir
Aldur: 30 ára
Staða: Miðvörður
Heimabær: Kópavogur
Uppeldisfélag: HK
Félag: Bayern München
Fyrrum félög: HK/Víkingur, Horsens SIK, Stjarnan, Eskilstuna, Rosengård
Landsleikjafjöldi og mörk: 137 leikir og 11 mörk

Hvar á maður eiginlega að byrja með landsliðsfyrirliðann. Er á leiðinni á sitt fjórða stórmót með Íslandi en hennar fyrsta mót var árið 2013 þegar hún var nýorðin 18 ára gömul. Það má alveg segja að Glódís hafi verið barnastjarna en hún hóf meistaraflokksferil sinn með HK/Víkingi þegar hún var 14 ára.

Sumarið 2011 var hennar síðasta með HK/Víkingi en þá skoraði hún 14 mörk í ellefu leikjum í 1. deild. Geri aðrir miðverðir betur en það. Hún fór í Stjörnuna árið 2012 sem var á þeim tíma að þróast í það að verða besta lið landsins. Á hennar öðru tímabili hjá félaginu verður Stjarnan Íslandsmeistari og vinnur alla leikina. Stjarnan fær bara á sig sex mörk allt sumarið, en þetta er einmitt sumarið þar sem Glódís fer á sitt fyrsta stórmót með Íslandi.

Glódís verður einnig Íslandsmeistari með Stjörnunni 2014 og svo kominn tími á það að fara í atvinnumennsku. Hún samdi við Eskilstuna í Svíþjóð og endaði óvænt í titilbaráttu á fyrsta tímabilinu sínu þar. Það segir kannski svolítið mikið um Glódísi að Eskilstuna var ekkert að reikna með að fara í titilbaráttu en svo kemur Glódís og liðið endar í öðru sæti, hársbreidd frá titlinum í Svíþjóð.

„Hún er bara 20 ára gömul og ég hef ekki enn séð mikið betri miðvörð í kvennaboltanum. Kannski leikmenn á svipuðum „standard" og hún. Nú hef ég spilað við Bandaríkin, Svíþjóð og Noreg og hef ekki séð miðvörð sem er betri en hún. Hún gæti náð algjörlega í fremstu röð," sagði Freyr Alexandersson, þáverandi landsliðsþjálfari, 2015 og þannig er algjörlega raunin í dag.

Það er ekki annað hægt að segja en að Glódís sé í fremstu röð. Eftir tíma sinn hjá Eskilstuna fór hún til Rosengård sem er gríðarlega sigursælt félag í Svíþjóð. Þar vann hún sænsku úrvalsdeildina einu sinni og bikarinn tvisvar áður en hún gekk í raðir þýska stórveldisins Bayern München þar sem hún er í dag fyrirliði, dýrkuð og dáð.

Glódís var í fyrra tilnefnd til Ballon d'Or og var þar efst miðvarða á lista. Það segir manni það að hún er besti miðvörður í heimi. Hún hefur verið fyrirliði landsliðsins eftir að Sara Björk Gunnarsdóttir hætti stuttu eftir EM í Englandi. Og hún er frábær fyrirliði og leiðtogi fyrir þennan hóp.

5. Sædís Rún Heiðarsdóttir
Aldur: 20 ára
Staða: Vinstri bakvörður
Heimabær: Snæfellsbær
Uppeldisfélag: Víkingur Ólafsvík
Félag: Vålerenga
Fyrrum félög: Víkingur Ólafsvík, Stjarnan
Landsleikjafjöldi: 19 leikir og 0 mörk

Fyrsta fréttin um Sædísi hér á Fótbolta.net er frá 2019 þegar hún fór með U16 landsliðinu á mót í Króatíu. Í þeim hópi voru tveir leikmenn úr Víkingi Ólafsvík en það voru Sædís og Aldís Guðlaugsdóttir, sem er í dag markvörður FH. Aldís hefði mögulega gert tilkall í að komast á EM ef hún hefði ekki meiðst illa fyrir stuttu.

Sædís lék með Snæfellsnesi í yngri flokkunum og spilaði sína fyrstu leiki í meistaraflokki með Víkingi Ólafsvík í Lengjubikarnum 2018. Víkingur Ólafsvík hefur hins vegar ekki verið með lið í meistaraflokki kvenna síðustu árin. Sumarið 2019 spilaði hún með 3. flokki karla hjá Snæfellsnesi, en undir lok þess árs flutti hún á höfuðborgarsvæðið og gekk í raðir Stjörnunnar.

Eftir félagaskiptin í Stjörnuna fór hún fljótt að vekja athygli með öfluga spyrnutækni í vinstri bakverðinum. Sumarið 2020 spilaði hún 13 leiki í efstu deild og sumarið á eftir má segja að hún hafi verið orðin lykilmaður í Stjörnunni. Hún var fljót að festa sig í sessi í Garðabænum og vinstri bakvarðarstaðan var engin vandræðastaða þar í mörg ár.

Sumarið 2022, þegar Sædís var á 18. aldursári, þá var hún valin í lið ársins í Bestu deild kvenna og þá var farið að tala um hana sem framtíðarleikmann í landsliðinu. Hún er líka afskaplega sterkur karakter og snemma árs 2023 var hún fyrirliði U19 landsliðsins sem komst í lokakeppni Evrópumótsins. Hún leiddi það lið út á mótinu og stóð sig vel í því hlutverki.

Sumarið 2023 var magnað fyrir Sædísi þar sem hún var níu sinnum í liði umferðarinnar á Fótbolta.net og var valin best seinni hluta sumarsins í Bestu deildinni. Í september það ár var hún í fyrsta sinn valin í A-landsliðið og hefur hún til þessa byrjað marga leiki fyrir landsliðið.

„Þetta var alltaf markmiðið og ég hef lagt hart að mér til þess að vera hérna. Ég er virkilega stolt að hafa komist hingað og það er bara að halda áfram núna," sagði Sædís þegar hún var fyrst valin í landsliðið en núna er hún mætt á EM.

6. Ingibjörg Sigurðardóttir
Aldur: 27 ára
Staða: Miðvörður
Heimabær: Grindavík
Uppeldisfélag: Grindavík
Félag: Bröndby
Fyrrum félög: Grindavík, Breiðablik, Djurgården, Vålerenga, Duisburg
Landsleikjafjöldi: 75 leikir og 2 mörk

Það er afar líklegt að Glódís og Ingibjörg muni hefja Evrópumótið sem miðverðir Íslands í fjögurra manna línu. Ingibjörg hefur leikið með landsliðinu í fjöldamörg ár en hún byrjaði fótboltaferil sinn með Grindavík. Hún komst í fréttirnar fyrst þegar hún kom inn á sem varamaður í efstu deild aðeins 13 ára gömul árið 2011. Hún kom þá inn á í 3-2 sigri Grindavíkur gegn Þrótti.

Ingibjörg var þarna mjög efnilegur leikmaður en árið 2012 gengur hún í raðir Breiðabliks og tekur skrefið upp á við. Þrátt fyrir að vera aðeins á 15. aldursári á þeim tíma, þá fer hún að spila með Breiðabliki í efstu deild og skorar eitt mark í fjórum leikjum.

Þrátt fyrir ungan aldur var Ingibjörg fljótlega búin að vinna sér inn sæti í liði Blika og spilaði reglulega. Í lok árs 2016 var hún valin í æfingahóp A-landsliðsins og árið 2017 var stórt fyrir hana þar sem hún fór þá á sitt fyrsta stórmót. Hún var valin sem nýliði í landsliðið í apríl 2017, þá 19 ára, og hún gerði bara virkilega vel. Náði að heilla landsliðsþjálfarann og vann sér inn sæti í hópnum fyrir EM í Hollandi. Og það sem meira er, þá var hún í byrjunarliðinu þar.

Í fyrsta leik á móti Frakklandi 2017 átti hún hressilega tæklingu. „Mér er drullusama um þessar gellur. Ég þoli ekki svona hroka... ég nenni ekki einu sinni að segja það. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að þagga niðrí þeim og láta aðeins finna fyrir mér," sagði Ingibjörg í leikslok þar.

Eftir tímabilið 2017 þá stökk Ingibjörg á atvinnumennskuna og samdi við Djurgården í Svíþjóð þar sem hún átti góð ár áður en hún fór til Vålerenga í Noregi. Þar má segja að hún hafi orðið ákveðin goðsögn þar sem hún var með bestu leikmönnum norsku deildarinnar á tíma sínum hjá félaginu; var hún meðal annars valinn besti leikmaður norsku deildarinnar. Hún gerði stuttan samning við Duisburg í Þýskalandi í fyrra og gekk svo í raðir Bröndby, sem er eitt stærsta félagið í Danmörku, seint á síðasta ári.

Ingibjörg er einn reynslumesti leikmaður liðsins fyrir þetta Evrópumót en hún fékk að bera fyrirliðaband Íslands í fjarveru Glódísar Perlu í apríl á þessu ári. Gerði hún það með sæmd. „Fyrir mér er þetta eitt það stærsta sem þú getur gert. Ég tek þessu mjög alvarlega og vil gera þetta vel," sagði Ingibjörg sem er varafyrirliði Íslands á eftir Glódísi.

11. Natasha Moraa Anasi
Aldur: 33 ára
Staða: Miðvörður eða bakvörður
Heimabær: Irving, Texas í Bandaríkjunum
Uppeldisfélag: Martin High School
Félag: Valur
Fyrrum félög: Duke, ÍBV, Keflavík, Breiðablik, Brann
Landsleikjafjöldi: 9 leikir og 1 mark

Natasha ólst upp í Texas í Bandaríkjunum og fór í háskóla í Duke, sem er einn besti íþróttaháskólinn í Bandaríkjunum. Um mitt sumar 2014, eftir háskólagönguna, þá ákvað hún að koma til Íslands og semja við ÍBV. Hún lék mjög vel fyrir Eyjaliðið og endursamdi að tímabilinu loknu.

Natasha varð fljótt mikill leiðtogi í Eyjaliðinu og stimplaði sig heldur betur inn sem einn besti varnarmaður landsins. Hún var árið 2016 valin í úrvalslið efstu deildar á Íslandi eftir að hafa tekið sitt þriðja tímabil hér. Fyrir tímabilið 2017 varð hún ólétt og ákvað að færa sig yfir til Keflavíkur sem var þá í 1. deild.

Sumarið 2018 sneri hún aftur til baka á völlinn af krafti og var þá með markahæstu leikmönnum 1. deildar þar sem hún skoraði 13 mörk í 18 leikjum. Það hefur kannski ekki verið hennar helsti styrkleiki á vellinum að skora fullt af mörkum, en þetta sumar gerði hún það. Það má segja að hún hafi pakkað næst efstu deildinni saman og Keflavík fór upp.

„Hún er alveg mögnuð, mikill hvalreki fyrir okkur að hafa fengið hana og eiginlega bara synd að hún skuli ekki vera orðin íslendingur því hún væri örugglega byrjunarliðsmaður í íslenska landsliðinu í dag," sagði Gunnar Magnús Jónsson, þáverandi þjálfari Keflavíkur, um Nathöshu árið 2019 en það sama ár fékk hún íslenskan ríkisborgararétt.

Í byrjun árs 2020 var hún svo í fyrsta sinn valin í landsliðið. Þrátt fyrir að Keflavík hafi fallið 2019, þá hélt hún tryggði við félagið og hjálpaði þeim aftur upp með því að raða aftur inn mörkum. Hún hjálpaði Keflavík að halda sér uppi og fór svo í Breiðablik enda átti hún að vera að spila í efri hluta deildarinnar, og það miklu áður. Natasha lék í eitt sumar með Breiðabliki og fór svo í Brann í Noregi, en kom heim í fyrra og gekk í raðir Vals.

Það má segja að Natasha hafi unnið hug og hjörtu Íslendinga þegar hún skilaði ótrúlegri frammistöðu gegn Þýskalandi í fyrra. Þar sýndi hún það hversu góð hún er í fótbolta. Ekki það að hún hafi ekki sýnt það í þessi tíu ár sem hún hefur spilað á Íslandi.

18. Guðrún Arnardóttir
Aldur: 29 ára
Staða: Miðvörður eða bakvörður
Heimabær: Ísafjörður
Uppeldisfélag: BÍ/Bolungarvík
Félag: Rosengård
Fyrrum félög: BÍ/Bolungarvík, Selfoss, Breiðablik, Santa Clara, Djurgården, Rosengård
Landsleikjafjöldi: 52 leikir og 1 mark

Guðrún ólst upp á Ísafirði og spilaði í yngri flokkum með BÍ/Bolungarvík. Svo fór hún í Selfoss 2010 og steig þar sín fyrstu skref í meistaraflokki áður en hún skipti svo yfir í Breiðablik fyrir tímabilið 2012. Guðrún, sem var þarna búin að spila svolítið mikið með unglingalandsliðunum, var ekki lengi að koma sér inn í myndina hjá Blikum og spilaði alla leikina í Bestu deildinni sumarið 2012.

Hún fór að banka á dyrnar í A-landsliðinu 2014 en náði kannski ekki að festa sig almennilega í hópnum. Hún fór í nám í Bandaríkjunum við hinn virta Santa Clara háskóla og kláraði þar BS gráðu í hag­fræði meðfram fótboltanum.

Guðrún átti frábært fótboltasumar 2018 og var valin í lið ársins í Bestu deildinni. Eftir það sagði hún samningi sínum upp við Breiðablik og hélt í atvinnumennskuna. Það má kannski segja að Guðrún sé 'late bloomer' þegar kemur að landsliðinu en árið 2020 var skrifuð hér grein á Fótbolta.net þar sem fjallað var um leikmenn sem væru næstir inn í landsliðið og Guðrún á þeim lista. Á þeim tímapunkti hafði hún ekki fengið alvöru tækifæri með landsliðinu þrátt fyrir að vera mikilvægur leikmaður í landsliðinu.

Það var kannski ekki bara fyrr en Þorsteinn Halldórsson, sem þjálfaði Guðrúnu í Breiðabliki, tók við landsliðinu að hún varð fastamaður í hópnum. Um sumarið 2021 skiptir hún svo yfir til Rosengård og tekur við keflinu af Glódísi Perlu þar. Glódís var komin í guðatölu hjá sænska félaginu en Guðrún var arftaki hennar. Segja má að hún hafi tekið það kefli með stæl því hún hefur verið stórkostleg með Rosengård og verið einn besti varnarmaður sænsku deildarinnar um margra ára skeið.

Guðrún fór á EM með Íslandi 2022 og byrjaði þar fyrstu tvo leikina í miðverði en upp á síðkastið hefur hún mikið verið að leysa bakvörðinn. Spurning er hvort það sé staða sem henti henni, en það kemur kannski betur í ljós á EM í sumar. Guðrún er að verða samningslaus hjá Rosengård og verður fróðlegt að sjá hvað hún gerir næst en hún hefur verið orðuð við stærstu deildir Evrópu.

19. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir
Aldur: 24 ára
Staða: Bakvörður og kantur
Heimabær: Egilsstaðir
Uppeldisfélag: Höttur
Félag: Breiðablik
Fyrrum félög: Höttur, Völsungur, Breiðablik, Harvard
Landsleikjafjöldi: 20 leikir og 0 mörk

Áslaug Munda er líklega gáfaðasti leikmaðurinn í hópnum en hún útskrifaðist nýverið með gráðu frá Harvard í Bandaríkjunum, sem er einn allra virtasti háskóli í heimi. Hún hefur verið þar á fótboltastyrk síðustu árin og hefur það verið ákveðin upplifun fyrir hana.

Munda, eins og hún er oft kölluð, hefur þurft að díla við krónísk höfuðmeiðsli á meðan hún hefur verið í Bandaríkjunum og hefur það haft mikil áhrif á hana. „Þetta eru búin að vera fjögur ár og hjá mér hefur þetta verið mikið upp og niður með höfuðmeiðsli og annað. Ég er alveg tilbúin í að klára þetta tímabil í lífinu og prófa eitthvað nýtt. Ég mun auðvitað sakna fólksins sem ég hef kynnst. Ætli það sé ekki líka skrítið að segja það, en ég mun örugglega sakna þess að vera alltaf upptekin við námið," sagði Áslaug Munda við Fótbolta.net í nóvember á síðasta ári.

Áslaug Munda hefur eiginleika sem ekki margar aðrar íslenskar fótboltakonur hafa en hún er eldsnögg og með mikla tækni. Hún braust fyrst fram á sjónarsviðið með Völsungi árið 2016 og skoraði hún sex mörk í 16 leikjum í 2. deild 2017. Það tímabil var hún valin í lið ársins í 2. deild og efnilegasti leikmaður deildarinnar, en eftir tímabilið tók hún stökkið í Breiðablik.

Stórt stökk að taka, að fara úr 2. deild upp í Breiðablik en hún höndlaði það vel. Hún varð fljótlega einn af þeim leikmönnum sem vakti mesta athygli í Bestu deildinni og í byrjun árs 2020 æfði hún með franska stórliðinu Paris Saint-Germain ásamt Sveindísi Jane Jónsdóttur eftir að hafa verið valin efnilegasti leikmaður Bestu deildarinnar.

Um mitt sumar 2019 spilaði hún sína fyrstu A-landsleiki og svo fór hún með landsliðinu á EM 2022. Hún er sterkur karakter og góð manneskja sem gefur hópnum mikið. Það er alveg hægt að segja að hún sé eldri sál sem nær vonandi að koma fótboltaferlinum á flug á næstu árum. Hæfileikarnir eru svo sannarlega til staðar.

20. Guðný Árnadóttir
Aldur: 24 ára
Staða: Bakvörður og miðvörður
Heimabær: Höfn í Hornafirði
Uppeldisfélag: FH
Félag: Kristianstad
Fyrrum félög: FH, Valur, AC Milan, Napoli
Landsleikjafjöldi: 41 leikur og 0 mörk

Guðný var í sterkum yngri flokkum FH og var fljótlega farin að gera sig gildandi í meistaraflokki Fimleikafélagsins ásamt því að spila með yngri landsliðum Íslands. Árið 2016 fór hún á reynslu til Kristianstad í Svíþjóð sem var kannski merki fyrir framtíðina enda spilar hún þar við góðan orðstír í dag.

Guðný var miðvörður þegar hún var að koma upp en hún var líka með gullfót og var öflug í aukaspyrnunum. Árið 2017, þegar hún var á 17. aldursári, var hún valin í lið fyrri hlutans í efstu deild kvenna og eftir mótið var hún á bekknum í úrvalsliðinu. Guðný stimplaði sig heldur betur inn þarna og var valin í A-landsliðið í byrjun árs 2018.

Hún hélt áfram að spila vel og búa sér til nafn áður en hún gekk svo í raðir Vals fyrir tímabilið 2019. Það var alveg ljóst að hún myndi ekki spila lengi í Val þar sem hún hjálpaði liðinu að verða Íslandsmeistari á sínu fyrsta tímabili þar og var hún valin í úrvalslið ársins. Undir lok ársins 2020 komu fram fréttir um að hún væri á óskalista ítalska stórliðsins AC Milan og skrifaði hún svo undir þar í kjölfarið.

„Ég veit ekki alveg... ég er sveitastelpa en held að mér muni líða mjög vel hér," sagði Guðný eftir að hún skrifaði undir hjá AC Milan. Hún var fyrst lánuð til Napoli, sem er líka stórt félag, og spilaði stórt hlutverk þar áður en hún fór til Mílanó.

Í september 2021 má segja að margt hafi breyst fyrir Guðnýju þar sem hún byrjaði þá að spila í bakverði fyrir landsliðið. Hún var sett í bakvörðinn gegn Hollandi og leyst það býsna vel. Síðan þá hefur hún nánast eingöngu spilað sem bakvörður í landsliðinu, en hún er með öflugar fyrirgjafir og góðan fót ásamt því að vera sterk varnarlega.

Guðný er núna að fara á sitt annað stórmót með Íslandi en hún er í dag leikmaður Kristianstad í Svíþjóð sem er auðvitað mikið Íslendingafélag. Hún var ekki sátt með spiltíma sinn í Mílanó og ákvað að halda til Svíþjóðar þar sem henni líður vel. Hún er ein af þremur íslenskum leikmönnum liðsins sem er að gera góða hluti í sænsku deildinni.
Athugasemdir
banner