Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   þri 30. október 2018 19:00
Hafliði Breiðfjörð
Sóley, Jasmín, Diljá og María Sól í Stjörnuna (Staðfest)
Sóley Guðmundsdóttir er gengin í raðir Stjörnunnar.
Sóley Guðmundsdóttir er gengin í raðir Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jasmín hefur samið við Stjörnuna til þriggja ára.
Jasmín hefur samið við Stjörnuna til þriggja ára.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan tilkynnti í dag að félagið hafi fengið til liðs við sig fjóra leikmenn fyrir báráttuna í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð.

Þetta eru Sóley Guðmundsdóttir fyrirliði ÍBV, Jasmín Erla Ingadóttir og Dilja Ýr Zomers sem koma frá FH og María Sól Jakobsdóttir sem kemur frá Grindavík. Allar semja þær við félagið til þriggja ára.

Kristján Guðmundsson tók við þjálfun Stjörnunnar í haust og verður með Ólaf Brynjólfsson sér til aðstoðar. Þetta eru fyrstu leikmennirnir sem félagið fær til liðs við sig síðan þeir tóku við.

Sóley Guðmundsdóttir er 25 ára gamall varnarmaður sem er uppalin hjá ÍBV og hefur hún verið fyrirliði meistaraflokks félagsins frá árinu 2015. Sóley hefur leikið 191 leik með meistaraflokki og skorað í þeim 7 mörk. Þá hefur Sóley leikið sjö leiki með yngri landsliðum kvenna og skorað í þeim 1 mark.

Jasmín Erla Ingadóttir er tvítugur miðjumaður sem er uppalin hjá Fjölni og fór þaðan til Fylkis. Hún lék með FH á síðastliðinu keppnistímabili. Jasmín Erla hefur leikið 62 leiki með meistaraflokki og skorað í þeim 12 mörk. Þá hefur Jasmín Erla leikið 23 leiki með yngri landsliðum kvenna og skorað í þeim tvö mörk.

Jasmín Erla var valin besti leikmaður FH í lokahófi félagsins að loknu liðnu keppnistímabili.

María Sól Jakobsdóttir er 19 ára gamall miðjumaður sem er uppalin hjá Stjörnunni en lék á árinu 2016 með venslaliði félagsins, Skínanda. Þá lék hún árin 2017 og 2018 með UMFG. María Sól hefur leikið 51 leik með meistaraflokki og skorað í þeim þrjú mörk. María Sól hefur leikið fjóra leiki með U-17 landsliði kvenna.

María Sól var valin efnilegasti leikmaður UMFG á lokahófi félagsins að loknu liðnu keppnistímabili.

Diljá Ýr Zomers er 17 ára gamall miðju- og sóknarmaður, uppalin hjá FH. Hún hefur leikið 26 leiki með meistaraflokki og skorað í þeim eitt mark. Diljá Ýr hefur leikið fimm leiki með U-17 landsliði kvenna og skorað í þeim eitt mark.

Diljá Ýr var valin efnilegasti leikmaður FH á lokahófi félagsins að loknu liðnu keppnistímabili.

„Stjarnan býður leikmennina velkomna til félagsins og bindur miklar vonir við framlag þeirra á komandi árum. Félagið stefnir sem áður að því að berjast um alla titla sem í boði eru og telur að leikmenn sem fyrir eru hjá félaginu, hinir nýju leikmenn og öflugt þjálfarateymi gefi fullt tilefni til að ætla að það markmið náist," segir í tilkynningu félagsins í dag.

Athugasemdir
banner