lau 30. nóvember 2019 22:39
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mourinho: Ég er ekki að segja að þeir elski mig
Mynd: Getty Images
Tottenham hefur farið vel af stað undir stjórn Portúgalans Jose Mourinho og unnið alla leiki sína til þessa.

Mourinho stýrði í dag Tottenham til sigurs í þriðja leiknum í röð er Spurs vann 3-2 gegn Bournemouth.

Mourinho var ráðinn til Tottenham eftir að hinn vinsæli Mauricio Pochettino var rekinn. Mourinho vonast til þess að geta haldið áfram að gleðja stuðningsmennina.

„Stuðningsmennirnir elska félagið, ég er ekki að segja að þeir elski mig en þeir samþykkja mig sem fagmann sem vill gera allt fyrir félagið," sagði Mourinho á BBC eftir sigurinn í dag.

„Fólk hefur fleiri ástæður til að elska mig ef því líkar við það sem ég er að gera í mínu starfi. Stuðningsmennirnir styðja við bakið á liðinu og þeir sjá að við erum að leggja mikið á okkur til að komast á stað í töflunni sem er meira við hæfi fyrir hæfileikana í þessum hópi."

Tottenham er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir leiki dagsins. Næsti leikur Spurs verður sérstakur fyrir Mourinho. Hann fer á sinn gamla heimavöll þegar Tottenham mætir Manchester United á miðvikudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner