Vísir birti eftir 2–1 sigur Íslands á Kósóvó uppgjör Óskars Hrafns Þorvaldssonar um leikinn. Ekki er hægt að segja annað en að umræða Óskars hafi verið neikvæð þar sem hann lastar frammistöðu landsliðsins í leiknum og setur spurningamerki við mikilvægi Lars Lagerbacks, við frammistöðu Heimis Hallgrímssonar sem þjálfara, spilamennsku liðsins almennt og jafnframt stöðu ákveðinna leikmanna innan liðsins.
Margt sem Óskar Hrafn beinir athyglinni að á algjöran rétt á sér og þess vert að spyrja spurninga þegar liðið spilar illa. Spilamennskan gegn Kósóvó var ekki góð. Menn héldu bolta illa, töpuðu gott sem öllum seinni boltum og spörkuðu hátt og langt á framherja sem máttu sín lítils gegn stórum og stæðilegum miðvörðum Kósóvó.
Eftir þann leik spilaði Ísland hins vegar æfingaleik við Írland. Írar höfðu ekki tapað í 15 leikjum og höfðu ekki tapað leik á heimavelli í þrjú ár. Þeir mættu með ákveðið B-lið til leiks þar sem vantaði menn eins og John O’Shea, Jonathan Walters, Seamus Coleman, James McCarthy og Glenn Whelan sem hafa verið byrjunarliðsmenn hjá liðinu síðustu misseri. Sömu sögu er þó að segja af Íslandi sem gerði átta breytingar á liði sínu frá Kósóvó-leiknum.
Eins og alþjóð veit vannst leikurinn 1–0 með marki Harðar Björgvins Magnússonar og virtist allt annar bragur á leik liðsins borið saman við leikinn gegn Kósóvó. Vörnin var þéttari, seinni boltar unnust og baráttan meiri — þrátt fyrir að sóknarleikurinn hafi verið bitlaus á köflum. En hvað veldur? Er þetta upplegg þjálfarans sem er það sama fyrir alla leiki, að spila löngum boltum og vera þéttir til baka eða er þetta andlegur undirbúningur og vanmat sem orsakar slaka frammistöðu gegn Kósóvó? Þjálfarar og leikmenn geta einir svarað fyrir það. Þó verður að hafa í huga að leikurinn gegn Kósóvó vannst, þrátt fyrir allt.
Spurningin sem ég spyr mig er þessi: Er réttlætanlegt að hafa þessar gífurlegu kröfur á landsliðið eftir að hafa komist á eitt stórmót? (Og það fyrsta hjá okkur í sögunni) Gerir fólk ráð fyrir að vegna þess að við unnum England og fórum í 8-liða úrslit að við vinnum alla leiki og verðum 70% með boltann, spilandi samba-bolta á sama tíma?
Auðvitað er vert að spyrja spurninga þegar spilamennskan er slök og spyrja hvort það þurfi að breyta til í taktík eða hvort það sé kominn tími á menn innan liðsins. Persónulega sé ég ekki aðrar mögulegar breytingar, eins og staðan er í dag, en þær að Sverrir Ingi komi inn í liðið fyrir Kára og að Arnór Ingvi fái stærra hlutverk auk hugsanlega Harðar Björgvins sem var þó slakur þegar hann fékk sénsinn gegn Króatíu og er auk þess dottinn út úr liðinu hjá Bristol City.
Það má einnig spyrja hvort það sé bara ein leikáætlun sem á alltaf að nota eða er pláss fyrir aðra? Á alltaf að spila þessa 4–4–2 taktík og sparka langt sama hver andstæðingurinn er eða á að hafa annað leikplan uppi í erminni og reyna að stýra leikjum betur gegn lakari andstæðingum?
Þetta er leikaðferðin sem kom okkur á EM, kom okkur langt á EM og hefur komið okkur í 2. sætið í þessari undankeppni, í lykilstöðu í mjög sterkum riðli. Að undanskildum Króötum úr fyrsta styrkleikaflokki fengum við líklega sterkustu þjóðirnar úr hverjum styrkleikaflokki fyrir sig. Drátturinn hefði getað verið Rúmenía, Ísland, Norður-Írland, Færeyjar, Moldóva og San Marínó.
Við skulum ekki missa okkur yfir einni slakri frammistöðu gegn Kósóvó, sem má ekki gleyma að eru sterkt lið með góða leikmenn innan sinna raða þrátt fyrir að þeir séu í styrkleikaflokki með San Marínó og Andorra.
Fyrir leikinn gegn Írum svaraði Heimir Hallgrímsson spurningum um slaka frammistöðu gegn Kósóvó frá íslenskum fjölmiðlamönnum á meðan þeir írsku spurðu hann hvernig Ísland hefði farið að því gera svona vel eftir EM.
Það er nefnilega ekkert sjálfgefið að landslið smárrar þjóðar nái fótunum á jörðina eftir svona ævintýri og almennt séð ekki sjálfgefið að landslið sem eru í 2. til 4. styrkleikaflokki eigi margar góðar undankeppnir í röð. Það að við séum í stöðunni sem við erum í er mikið afrek og vonandi að það haldi áfram.
Valur Páll Eiríksson
Pistillinn birtist upphaflega á medium.com
Athugasemdir