Liverpool veit verðið á Kerkez - City vill Saliba og Reijnders - Saka í viðræður um nýjan samning
banner
   mán 31. mars 2025 14:13
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Umfjöllun
Fengu á sig mark eftir að hafa brotið 8 sekúndna regluna
Myndin er ekki úr leiknum í gær en ætla má að viðbrögð leikmanna Hamars hafi verið eitthvað í líkingu við þessi.
Myndin er ekki úr leiknum í gær en ætla má að viðbrögð leikmanna Hamars hafi verið eitthvað í líkingu við þessi.
Mynd: Guðmundur Karl/Sunnlenska.is
Einar Ari með boltann í höndunum í leik á síðasta tímabili.
Einar Ari með boltann í höndunum í leik á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leik hjá Magna á síðasta tímabili.
Úr leik hjá Magna á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Um helgina komu upp a.m.k. tvö atvik í 1. umferð Mjólkurbikarsins þar sem dómarar leikjanna fylgdu nýju átta sekúndna reglunni og dæmdu leiktöf á markmenn. Í þeim tilvikum, eins og reglan segir til um, fengu andstæðingarnir hornspyrnu.

Markmenn hafa einungis átta sekúndur eftir að þeir ná fullu valdi á boltanum með höndunum til þess að koma honum í leik.

Fyrra atvikið átti sér stað í framlengdum leik Hamars og Skallagríms sem fram fór í Þróttheimum. Róbert Þór Guðmundsson, dómari leiksins, dæmdi leiktöf á Ísak Sindra Daníelsson Martin eftir um fimm mínútna leik í seinni hálfleik framlengingarinnar. Skallagrímur tók hornspyrnuna og Alejandro Serraivo Gomez kom boltanum í netið.

Fótbolti.net ræddi við Valdimar Unnar Jóhannsson, þjálfara Hamars, í dag.

„Það var enginn vafi, dómarinn sýndi vel með fingrunum. Þetta var bara klaufalegt, ungur strákur í markinu hjá okkur, bara reynsluleysi. Mér finnst þetta flott regla, en náttúrulega ömurlegt að þetta hafi endað með marki. Þetta var bara hornspyrna á fjærstöngina og mark, það var bara skrifað í skýin að þetta augnablik myndi enda með marki. Þetta var mjög vel framkvæmt í gegnum leikinn, maður sá dómarann telja. Það er ekki hægt að kenna dómaranum um þetta, bara okkur sjálfum," segir Unnar.

Rædduð þið við markmennina þar sem þið vissuð af þessari nýju reglu?

„Nei, við gerðum það nú ekki. En þeir voru báðir meðvitað um hana. Það var reyndari markmaður í markinu í fyrri hálfleik og þeir voru búnir að tala um þetta innbyrðis. Þetta var bara eitthvað 'brainfart', nýtt fyrir honum. Markmenn hafa komist upp með það í langan tíma að halda lengi í boltann. Þetta var bara einbeitingarleysi einhvern veginn."

„2-1 mark í framlengingu, þetta verður ekki meira svekkjandi en þetta. Maður hefði getað sagt sjálfum sér að það kæmi mark upp úr þessu,"
segir Unnar.

Skallagrímur endaði á að vinna leikinn 1-3 og fer áfram í 2. umferð Mjólkurbikarsins. Skallagrímur mætir þar Úlfunum á heimavelli.

Seinna atvikið átti sér stað í leik Kormáks/Hvatar og Magna í Boganum í gær. Einar Ari Ármannsson í marki Magna fékk dæmda á sig leiktöf í leiknum og K/H fékk hornspyrnu. Hann ræddi við Fótbolta.net í dag.

„Það voru bara búnar 7-8 sekúndur, ég var ennþá að kasta boltanum en hann (Aðalsteinn Tryggvason, dómari leikins) flautar þá og dæmir hornspyrnu. Þetta er greinilega mjög strangt, samkvæmt þessu er þetta eins og skotklukka í körfubolta; 3-2-1 og svo bara búið. Það er líka alveg hræðilegt fyrir markmann að þurfa vera horfa á dómarann til að sjá hvaða tími er eftir, það er mjög erfitt þá að fylgjast með hvaða leikmaður er opinn á sama tíma," segir Einar Ari.

Það var annað atvik í leiknum þar sem Einar áttaði sig seint á því að hann yrði að koma boltanum srtax í leik. Þá tókst honum að koma boltanum í leik áður en var flautað.

„Mér fannst þetta vera flott áður en þessi regla kom inn, þá létu dómararnir mann bara vita að boltinn þyrfti að fara í leik. Það er þægilegra en að fá þessa niðurtalningu," segir markmaðurinn.

Magni mætir aftur í Bogann á fimmtudag þegar liðið mætir Þórsurum í 2. umferð keppninnar.

„Ef við höldum svona áfram, spilum góða vörn, þá líst mér ágætlega á þetta. Við fengum „smá" skell á móti Þór í síðasta leik, töpuðum 9-0 í Kjarnafæðimótinu. Við þurfum að gera miklu betur í þetta skiptið," segir Einar Ari.
Athugasemdir
banner