Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   lau 31. október 2020 12:20
Ívan Guðjón Baldursson
Guardiola vill fimm skiptingar: Þetta er út í hött
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola, stjóri Man City, er ósáttur með að ensk úrvalsdeildarfélög hafi kosið gegn því að leyfa áfram fimm skiptingar á leik á nýju tímabili.

Breytt var reglum um skiptingar vegna Covid-19 og voru fimm skiptingar leyfðar á lokahnykk síðasta tímabils. Flestar deildir Evrópu leyfðu áfram fimm skiptingar á nýju tímabili en úrvalsdeildin kaus gegn því.

Sú ákvörðun kom einhverjum á óvart og lét Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, í sér heyra þegar hún var tekin. Undirbúningstímabilið var ekki nægilega langt fyrir leiktíðina og þá fengu leikmenn ekki nógu langt frí eftir síðustu leiktíð. Vöðvameiðsli hafa aukist um næstum 50% frá síðasta tímabili.

„Knattspyrnumenn eru það sem gera knattspyrnuna að því sem hún er. Við verðum að vernda þá frá óþarfa meiðslum og þess vegna er fáránlegt að leyfa ekki fimm skiptingar," sagði Guardiola.

„Þegar leikmenn eru að spila á þriggja daga fresti þá er augljóst hvað þeir eiga lítið í tankinum síðasta hálftímann í hverjum leik. Þú sérð þá þjást á vellinum og svo meiðast þeir. Við verðum að vernda leikmennina eins og er gert annars staðar í heiminum. Það eru leyfðar fimm skiptingar út um allt, á Ítalíu, Þýskalandi, Spáni.

„Þetta snýst ekki um að vernda Man City, þetta snýst um að vernda alla knattspyrnumenn. Tölfræðin talar sínu máli, það eru 50% fleiri vöðvameiðsli en á sama tíma í fyrra og við verðum að bregðast við.

„Allar hinar deildirnar héldu þessari reglu. Af hverju getum við það ekki? Þetta er alveg út í hött."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner