Kolbeinn Þórðarson hefur komið sterkur inn í leikmannahópinn hjá Göteborg á seinni hluta sænska deildartímabilsins og var hann í byrjunarliðinu sem tók á móti toppliði Elfsborg í gær.
Kolbeinn spilaði allan leikinn og var heppinn að þurfa ekki skiptingu eftir ljótt samstuð snemma leiks. Dómari leiksins sá atvikið ekki vel og ákvað að dæma aukaspyrnu og gult spjald á sára saklausan Kolbein, sem var raunverulega fórnarlambið.
„Ég veit ekki hvað ég get sagt, dómarinn sá þetta eitthvað öðruvísi heldur en ég. Svona er fótboltinn, leikmenn gera mistök og dómarar gera mistök," sagði Kolbeinn að leikslokum.
„Það er leiðinlegt að fá gult spjald fyrir þetta, en það er eins og það er."
Kolbeinn var ekki sá eini sem var ósáttur með dómgæsluna sem Fredrik Klitte bauð upp á. „Ég veit ekki hvar ég á að byrja, en við skulum bara segja að ég sé fyrst og fremst ánægður með að Kolbeinn sé ekki uppi á spítala í aðgerð vegna fótbrots," sagði Jens Askou, þjálfari Gautaborgar.
„Að mínu mati er þetta klárt rautt spjald, það sást augljóslega þegar atvikið átti sér stað og svo aftur í endursýningunum. Ég skil ekki þessa ákvörðun eða aðrar ákvarðanir. Ég missti tölu á því hversu oft við vorum stöðvaðir ólöglega í skyndisókn án þess að þeir fengu spjald fyrir.
„Vanalega kvarta ég ekki undan dómgæslunni en í dag er það öðruvísi. Ég þakka fyrir að Kolbeinn sé ekki alvarlega slasaður."
Varning på IFK Göteborgs Kolbeinn Thordarson efter den här situationen ????
— discovery+ sport ???????? (@dplus_sportSE) October 30, 2023
Se matchen på https://t.co/ocJJkbIP5v pic.twitter.com/beb40lxQyH
Athugasemdir