Sjónarmið Grindvíkinga eftir 4-3 tapleik liðsins gegn Fram í gær kom ekki fram hér á Fótbolta.net. Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindvíkinga, hefur neitað að tala við fréttaritara síðunnar eftir tvo síðustu leiki liðsins.
„Guðjón Þórðarson neitaði að ræða við vefmiðilinn Fótbolta.net eftir tap liðsins gegn Fram í kvöld. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðjón neitaði síðunni um viðtal. Guðjón ræddi við alla aðra fjölmiðla en bað aðeins að heilsa ritstjóra áðurnefnds miðils," segir í frétt á Vísi sem birt var í gærkvöldi.
Fréttaritari Fótbolta.net á leiknum í gær bað Guðjón um að fá að ræða við einhvern leikmann fyrst hann sjálfur neitaði viðtali. Eftir stundarfjórðungs bið gafst fréttaritarinn upp þar sem enginn leikmaður kom fram.
Forsaga málsins: Daginn sem Grindavík lék gegn Keflavík í 2. umferð hafði Guðjón Þórðarson samband við Fótbolta.net og var augljóslega heitt í hamsi. Óánægja hans snérist um orð sem ég skrifaði í tengslum við viðtal við Ómar Jóhannsson, leikmann Keflavíkur.
Í viðtalinu er Ómar að tala um samskipti Guðjón Þórðarsonar og Keflavíkur gegnum tíðina. „Maður þekkir marga af þessum strákum og allir þekkja söguna bak við Keflavík og Gauja. Það er engin sérstök ást og hamingja á milli," sagði Ómar.
Í útskýringu á þessum samskiptum skrifaði ég þau orð sem Guðjón var illur yfir:
Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindavíkur, þjálfaði Keflavík á sínum tíma en yfirgaf félagið rétt fyrir mót. Þá eru samskipti hans við félagið í kringum frægt mark Bjarna Guðjónssonar á Skaganum vel þekkt.
Guðjón heimtaði afsökunarbeiðni fyrir leikinn vegna þessara skrifa, annars myndi hann „loka á okkur" eins og hann orðaði það og aldrei tala við okkur aftur. Við ættum að stíga varlega til jarðar og þetta flokkaði hann sem skítkast í sinn garð.
Okkar mat var það að afsökunarbeiðni væri óþörf en ákváðum að breyta orðalaginu yfir í:
Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindavíkur, þjálfaði Keflavík á sínum tíma en leiðir skildu rétt fyrir mót. Þá eru samskipti hans við félagið í kringum frægt mark Bjarna Guðjónssonar á Skaganum vel þekkt.
Þessi breyting varð þó ekki til þess að Guðjón ákvað að draga fjölmiðlabannið til baka.
Það er þó ósk okkar að sjónarmið Grindvíkinga eins og annarra í deildinni muni koma fram á okkar miðli.
Elvar Geir Magnússon
ritstjóri Fótbolta.net
Athugasemdir