Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 21. júní 2012 17:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 8. umferð: Kann betur við að leggja upp
Leikmaður 8. umferðar: Kristinn Jónsson (Breiðablik)
Kristinn fagnar eftir leik í gær.
Kristinn fagnar eftir leik í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
,,Ég er mjög ánægður með þetta, það er gott að fá svona tilnefningu," segir Kristinn Jónsson vinstri bakvörður Breiðabliks en hann er leikmaður 8. umferðar í Pepsi-deildinni að mati Fótbolta.net.

Kristinn var mjög öflugur í 2-1 sigri Breiðabliks á KR í Pepsi-deildinni í gærkvöldi en þetta var þriðji sigur Blika í röð í deildinni eftir erfiða byrjun.

,,Menn eru að finna holurnar betur í sóknarleiknum og við erum að vinna betur út frá styrkleikum okkar. Menn eru virkilega að vinna hvern fyrir annan og það er komið meira sjálfstraust," segir Kristinn en markatalan hjá Blikum eftir átta umferðir er 7-7.

,,Við erum búnir að vinna rosalega vel í varnarleiknum í vetur og það kannski bitnaði pínu á sóknarleiknum til að byrja með hjá okkur. Við erum búnir að vinna betur í honum og það sést á leikjunum hjá okkur. Við þurfum að byggja ofan á þetta og gefa ennþá meira í."

Guðmundur Benediktsson aðstoðarþjálfari Blika var öflugur sóknarmaður á sínum tíma og hann getur miðlað af reynslu sinni. ,,Hann tekur fram skóna öðru hverju og sýnir okkur hvernig á að gera þetta. Hann hefur engu gleymt kallinn."

Kristinn skoraði sjálfur fyrra mark Breiðabliks í leiknum í gær en hann er ekki á hverjum degi á skotskónum. ,,Mér er alveg sama hvort ég skori eða ekki. Aðalatriðið er að einhver skori. Ég hef verið meira í að leggja upp og kann betur við það en það er bónus ef maður laumar inn einu og einu marki."

Kristinn var frá keppni í næstum allan vetur vegna meiðsla sem voru einnig að hrjá hann síðastliðið sumar.

,,Ég er búinn að vinna mikið með sjúkraþjálfaranum og gera alls konar æfingar og ég er í mjög góðu standi. Það hefur tekið tíma að vinna sig út frá þessu síðan árið 2010."

,,Í fyrra var ég 100% þannig séð en það var bras á manni á milli leikja. Ég gat ekki æft af fullu afli en núna er ég búinn að æfa stanslaust í þrjá mánuði. Ég þarf að halda áfram að vera duglegur að gera mínar styrktar og liðleikaæfingar, þá ætti maður að vera í fínum málum."


Blikar eru eftir sigurinn í gær með þrettán stig í fimmta sæti deildarinnar og Kristinn telur að liðið geti blandað sér í baráttuna í efri hlutanum.

,,Ég held að við getum gert það. Við tökum bara einn leik fyrir í einu og næsti leikur er á móti KR í bikarnum svo við ýtum öllu frá í deildinni. Við stefnum á að sjálfsögðu að vinna þann leik. Við getum unnið hvaða lið sem er í deildinni ef við spilum okkar bolta og nýtum okkar styrkleika," sagði Kristinn að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 7. umferðar - Christian Olsen (ÍBV)
Leikmaður 6. umferðar - Atli Guðnason (FH)
Leikmaður 5. umferðar - Sam Tillen (Fram)
Leikmaður 4. umferðar - Kennie Chopart (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Kjartan Henry Finnbogason (KR)
Leikmaður 2. umferðar - Frans Elvarsson (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Ingólfur Þórarinsson (Selfoss)
Athugasemdir
banner