Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
banner
   fim 28. júní 2012 08:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Notum þessar upptökur... eftir á
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kominn er tími á að sjónvarpsupptökur séu notaðar í vissum tilfellum í íslenska fótboltanum. Umhverfi og umgjörð fótboltans eru að þróast og nú á að stíga skrefið í þá átt að notfæra sér upptökur frá völlunum til að leiðrétta refsingar vegna augljóslega rangra ákvarðana varðandi brottvísanir.

Ég er alls ekki talsmaður þess að tæknivæða fótboltann að því leyti að það breyti ákvörðunum í leikjunum sjálfum. Mér finnst sprotadómararnir kjánalegir og er viss um að leikurinn væri ekki eins skemmtilegur ef ekki væri hægt að ræða vafasamar ákvarðanir dómara á kaffistofunum.

Á síðustu vikum hafa komið upp augljós dæmi þar sem leikmenn fá ranglega rautt spjald. Menn gera mistök og dómarar eru jú menn. En í þessum tilfellum þar sem algjörlega augljóst er á upptökum að mistök voru gerð sé ég ekkert því til fyrirstöðu að leikmennirnir fái að sleppa við leikbönn sem hljótast af þessum brottvísunum.

Það eru myndavélar á öllum leikjum í Pepsi-deild karla og flestum í 1. deild, Af hverju ekki að notfæra sér þessar upptökur eftirá í þessum tilfellum?

Einhverstaðar verður að setja mörkin, ég er meðvitaður um það. Ekki förum við að leiðrétta rangstöðudóma og vitlaus innköst eftir leikina. Mín skoðun er sú að það eigi að einskorða notkun á myndbandsupptökum með þessum hætti við brottvísanir.

Í báðar áttir
Auka ætti valdsvið aganefndar KSÍ og ef myndbandsupptaka sýnir það með óyggjandi hætti að leikmaður fékk ranglega rautt spjald ætti félag hans að geta áfrýjað ákvörðun dómarans eins og við þekkjum úr enska boltanum. Aganefndin yrði í þeim tilfellum kölluð saman og myndi fara yfir upptöku sem félagið hefði lagt fram.

Ef ekki nokkur vafi er á því að um rangan dóm sé að ræða yrði rauða spjaldið fellt niður og leikmaðurinn færi ekki í leikbann. Hægt væri hinsvegar að lengja leikbannið ef upptaka sýnir að félagið hafði enga forsendur fyrir áfrýjun.

Að sama skapi ætti aganefndin að geta tekið það fyrir ef myndbandsupptaka sýnir að leikmaður hefði augljóslega átt að fá brottvísun fyrir eitthvað sem dómarar leiksins sáu ekki. Þá væri hægt að dæma menn í bann eftir á.

Þeir sem nota rök gegn þessu segja að lið setji ekki öll við sama borð. Það eru fleiri myndavélar á leikjum sem eru í beinni útsendingu og ekki eru myndavélar á öllum leikjum í neðri deildum. Vissulega ókostur en kostirnir eru svo miklu fleiri. Þar að auki myndi þetta ýta á félögin að taka upp sína leiki sem yrði bara jákvætt. Það eru misgóðir dómarar að dæma leikina... ekki sjita allir við sama borð þar.

Ingvar Kale á ekki skilið að vera í banni næsta mánudag og ef Þóroddur Hjaltalín dómari fengi að ráða í dag eftir að hafa horft á Bikarmörkin myndi hann örugglega fá að spila leikinn.

Þórður Már Gylfason dómari fékk að dæma á sama tíma og Þórsarinn Jóhann Helgi Hannesson þurfti að horfa á liðsfélaga sína úr stúkunni vegna hans mistaka. Hvers vegna dómaranefndin ákvað ekki að setja Þórð í hvíld þá umferð gæti reyndar verið efni í annan pistil...

Það er skref í rétta átt að nota myndbandsupptökur til að leiðrétta rangar ákvarðanir varðandi brottvísanir. Skref í átt að meiri sanngirni.
Athugasemdir
banner
banner