Ævisaga hins umdeilda en jafnframt frábæra knattspyrnumanns Zlatan Ibrahimović eftir David Lagercrantz og Zlatan sjálfan kom út í Svíþjóð í fyrra. Íslensk þýðing kom nýlega út í kilju formi undir nafninu Ég er Zlatan Ibrahimović . Þýðandinn er Sigurður Helgason sem lék fóbolta með KR á yngri árum.
Zlatan Ibrahimović er þrítugur Svíi sem fæddist í Malmö. Faðir hans er frá Bosníu og móðir hans er frá Króatíu.
Zlatan hefur verið mikið í fréttum að undanförnu eftir félagsskiptin til Paris St. Germain frá AC Milan og undirritun á launasamningi sem gerði hann að næst launahæsta knattspyrnumanni í heimi.
Þetta er opinská saga af Zlatan frá því að hann ólst upp í innflytjendahverfinu Rosengård fyrir utan Malmö. Hann lifði við bág kjör fyrst heima hjá móður sinni en síðan flutti hann til pabba síns sem var mikill drykkjumaður. Það var átakanlegt að lesa um barnæsku hans. Hann fékk litla umhyggju, rændi hjólum og var góðri leið með að verða smáglæpamaður. En fótboltinn fangaði hug hans og Zlatan hafði hæfileika, metnað og vilja til að ná langt þrátt fyrir mótlæti.
Zlatan hefur átt stórkostlegan feril í knattspyrnunni. Byrjaði hjá Malmö FF, fór þaðan til Ajax í Hollandi og þar næst til Juventus á Ítalíu þar sem að hann upplifði fall stórveldisins. Þá var hann seldur til Inter Milan en draumur hans var alltaf að spila með Barcelona eða Real Madrid. Draumurinn virtist rætast þegar hann var seldur til Barcelona 2009. Zlatan var ánægður þegar hann skrifaði undir hjá Börsungum en hann átti eftir að upplifa leiðinda atvik og ganga í gegnum erfitt tímabil í samskiptum við Josep Guardiola stjóra liðsins. Hann var síðan seldur til AC Milan eftir aðeins eitt ár á Spáni. Hjá AC Milan upplifði hann sig velkominn og fannst hann vera partur af sigurliði.
Það voru nokkur atriði úr bókinni sem stóðu upp úr að mínu mati:
Zlatan segir frá upplifun sinni af því að umgangast liðsmenn Barcelona, þá Xavi, Messi og Iniesta. Þeir voru þögulir, rólegir og hegðuðu sér eins og fyrirmyndar nemendur þar sem að Guardiola var kennarinn. Svíanum hávaxna þótti það ótrúlegt, reyndi að fitta inní hópinn en það gekk brösulega. Hann var vanur því að leikmenn væru stjörnur og hegðuðu sér sem slíkar eins og í ítalska boltanum. Zlatan vildi frekar fylgja sínum lífstíl enda var honum skítsama hvað öðrum fannst um hann og hann vildi bara sigra. Hann er fæddur sigurvegari og allt mótlæti hvetur hann áfram.
Zlatan var stærsta fjárfesting Katalóníuklúbbsins. Haft var eftir honum að Barca hefði keypt Ferrari en ekið honum eins og Fiat.
Þegar Zlatan var 17 ára að spila með drengjaliði Malmö FF átti hann það til að einspila og reyna alls konar brellur á móti móherjunum. Eitt skiptið var hann ekki sáttur við samherja sína og lét þá heyra það. Hann fékk gult spjald frá dómaranum fyrir rifrildi. Zlatan sagði dómaranum að fara til fjandans. Foreldrar leikmannanna í Malmö FF settu af stað undirskriftalista og vildu að Zlatan yrði rekinn úr klúbbnum. En Zlatan efldist bara við mótlætið og var síðar færður upp í aðalliðið.
Árið 2005 var Zlatan seldur frá hollensku meisturunum í Ajax til Juventus á Ítalíu á 16 milljónir, hafði verðið lækkað úr 35 milljónum, niður í 25, niður í 20 og á endanum var samið um 16 milljónir evra. Sá sem gerði það að verkum að slík eftirspurn var eftir Zlatan, var Mino Raiola umboðsmaður hans, enda fer mjög mikið fyrir honum í bókinni. Þeir eru bestu vinir, líkar týpur og fá oftast það sem þeir vilja. Báðir eru skapstórir, ákveðnir og fylgnir sér.
Þegar samið var um sölu Zlatans til Juventus þá var það einmitt síðasta daginn fyrir lok félagsskiptagluggans. Mino Raiola var taugaóstyrkur og var í símanum allan daginn því illa gekk að semja um kaupverðið á framherjanum efnilega. Zlatan var slakur heima þann dag og einbeitti sér að því að spila tölvuleiki þrátt fyrir aðgangshörku fjölmiðla. Mino hringdi í hann á nokkurra mínútna fresti með upplýsingar um stöðu samninga.
Korteri fyrir lok félagsskiptagluggans náðust samningar og eins og fyrr segir var kaupverð 16 milljónir evra, Ajax hafði tapað nær 20 milljónum á þessum viðskiptum miðað við fyrstu tölur. Luciano Moggi framkvæmdastjóri Juventus var harður í samningaviðræðum og lét engann vaða yfir sig.
Fabio Capello (þjálfari Juventus 2004-2006) er einn harðasti þjálfarinn í bransanum, hann gat gert alla menn taugaóstyrka. Wayne Rooney framherji Manchester United og enska landsliðsins lýsti því þannig, þegar maður mætir Capello á gangi þá veitir hann manni enga athygli . Zlatan upplifði þessa tilfinningu.
Hann muldraði stundum „ciao“ þegar hann gekk framhjá mönnum eða lét eins og enginn væri á staðnum. Menn standa í röð þegar Capello mætir.
Blaðamaður spurði Capello: ,,Hvernig færðu svona mikla virðingu frá öllum?“
Capello svaraði: ,,Maður fær ekki virðingu, hún fær mann“. Það eru ummæli sem Zlatan mun aldrei gleyma.
Capello er stálherforingi, sergente di ferro. Hann er ekki félagi leikmanna og ræðir ekki við þá. Hann brýtur leikmenn niður en byggir þá einnig upp aftur.
Einn dag voru liðsmenn Juventus að hefja æfingu og fóru í reitarbolta. Allt í einu stöðvar Capello æfinguna og skipar mönnum að fara inní klefa. Honum fannst liðið vera latt og lélegt þennan dag og sendi alla leikmennina heim. Ítalski harðstjórinn vildi að liðsmenn væru eins og stríðsmenn og gæfu allt í næstu æfingar.
Capello sagði eitt sinn við Zlatan að hann þyrfti ekki að sanna getu sína, hann vissi allt um hann, hinum sænska var mikið létt við að heyra það.
Jonathan Zebina var franskur varnarmaður sem spilaði með Juve. Hann átti við persónuleg vandamál að stríða og var mjög grófur á æfingum. Hann tæklaði Zlatan eitt sinn harkalega á æfingu. Zlatan reis upp og sagðist spila gróft á móti ef hann ætlaði að halda þessum stælum áfram. Zebina skallaði þá Zlatan og Zlatan sló hann þá fast á móti.
Zebina féll í grasið og Capello stóð ískaldur og horfði á atburðarrásina. Fabio Cannavaro varnarmaður Juve kom þá að þeim og spurði Zlatan hvað hann hefði gert. Síðan blikkaði Cannavaro Zlatan og gaf þannig til kynna að Zebina hefði átt þetta skilið. Zebina hafði hegðað sér eins og fífl á æfingum og margir voru orðnir þreyttir á honum.
Þá kom franski varnarmaðurinn Lilian Thuram og kallaði á Zlatan: „Þú ert ungur og vitlaus. Svona gerir maður ekki. Þú ert bara kjáni!“ En lengra komst hann ekki því Capello öskraði: „Thuuuuraaaam!!, haltu kjafti og farðu burtu frá þeim!“
Bæði Zlatan og Zebina voru sektaðir af Moggi framkvæmdastjóra en Capello tók þá ekki á fund. Honum þótti þessi samskipti liðsfélagana góð fyrir liðið. Hann vildi adrenalínflæði á æfingum og sjá menn berjast en hroka fyrirleit hann í fari manna.
Bókin er mjög skemmtileg og heldur lesandanum á tánum. Ég hef lesið nokkrar sjálfsævisögur knattspyrnumanna síðustu árin og er þetta ein af þeim betri ef ekki sú besta. Forlagið og þýðandi eiga hrós skilið fyrir að leggja vinnu í þýðingu og útgáfu á þessu verki.
Ég mæli með því að fótboltaaðdáendur sem og aðrir gefi sér tíma í að lesa þessa bók um þennan skemmtilega knattspyrnumann sem hefur það nafn á sér að vera vandræðagemlingur en hefur unnið nánast alla titla sem í boði eru hjá félagsliðum.
Samtals hefur hann unnið 39 titla á sínum ferli sem atvinnuknattspyrnumaður og spennandi verður að sjá hvernig honum mun vegna í Frakklandi með Paris SG.
Hér má sjá skemmtilega klippu af Mino Raiola umboðsmanni Zlatans þegar Svíinn var nýbúinn að skipta yfir til Parísarklúbbsins:
Athugasemdir