Pape Mamadou Faye óskaði eftir því að fá að snúa til baka í Víking. Þetta staðfesti Ólafur Þórðarson fyrrum þjálfari Víkings í samtali við Fótbolta.net nú rétt í þessu.
Pape tilkynnti það eftir fjóra leiki í Pepsi-deildinni í sumar að hann væri hættur hjá Víking.
Pape tilkynnti það eftir fjóra leiki í Pepsi-deildinni í sumar að hann væri hættur hjá Víking.
„Þetta hefur verið að byggjast upp núna í langan tíma og seinustu vikur hef ég fengið nóg á að vera þar. Ég hef nokkrum sinnum farið á fund með þjálfurunum og fengið stöðuna hvernig mér hefur liðið og hvernig þeirra aðferðir gangvart mér hafa ekki verið að ganga upp," sagði Pape til að mynda í pistli sem hann birti á Facebook-síðu sinni í kjölfarið.
Er mjög ósáttur við að Pape yfirgaf okkur
„Þegar Pape fer, þá erum við taplausir og það fór svolítill broddi úr okkar sóknarleik þegar hann fór. Við höfum ekkert verið að spila illa eftir að Pape fór, en við höfum ekki náð að klára leikina. Það er erfitt að fylla upp í skörð þeirra leikmanna sem hætta hjá félaginu, því Víkingur hefur ekki svo stóran hóp," sagði Ólafur sem rekinn var frá Víkingi í gær.
„Ég er mjög ósáttur við þá ákvörðun Pape að hafa yfirgefið okkur á þessum tímapunkti. Það er ekkert sem við breytum, þetta er búið og gert."
Pape talaði um að þetta hafi verið persónuleg ákvörðun og honum hafi alls ekki liðið vel hjá Víking, eins og kemur fram hér að ofan. Ólafur segist ekki kaupa þau rök.
„Ég veit ekki hvað ég get sagt um það. Við vorum nánast búnir að ganga frá því að selja hann til BÍ/Bolungarvíkur þá allt í einu vildi hann koma aftur til baka í Víking. Það var ekkert inn í myndinni, eftir trúnaðarbresti sem attu sér stað."
„Þetta er eitthvað sem hann verður að eiga við sjálfan sig," sagði Ólafur um málið.
Lengra og ítarlegra viðtal við Ólaf kemur inn á síðuna seinna í dag.
Athugasemdir