Ítarlegt viðtal úr útvarpsþættinum
Óli Stefán Flóventsson stýrði Grindavík upp úr Inkasso-deildinni á liðnu tímabili og mun á næsta ári þjálfa í Pepsi-deildinni í fyrsta sinn. Óli var gestur útvarpsþáttarins Fótbolti.net á X-inu síðasta laugardag.
Óli var aðstoðarþjálfari Grindvíkinga á síðasta ári en tók svo við sem aðalþjálfari að tímabilinu loknu.
„Þegar ég var ráðinn þá var nokkuð skýr stefna hjá stjórnarmönnum Grindavíkur að gera harða atlögu að því að fara upp. Ég vissi alveg hvað við vorum með gott og hvað þurfti að bæta við. Við héldum í stefnuna og náðum á endanum góðu liði með sterka liðsheild," segir Óli Stefán.
Hann segist á fyrsta fundi hafa lagt áherslu á að fá Grindvíkingana Alexander Veigar Þórarinsson og Gunnar Þorsteinsson aftur til félagsins. Þeir voru lykilmenn í sumar.
„Fyrir voru sterkir einstaklingar og klefinn varð mjög sterkur. Þó ég hafi verið leikmaður sjálfur þarna lengi þá man ég ekki eftir því að andrúmsloftið í klefanum hafi verið eins gott. Þó illa hafi gengið síðasta vetur þá var klefinn alltaf öflugur. Inn í tímabilið fórum við með gott andrúmsloft. Svo fáum við inn týpur á lokametrunum sem bættu okkur sóknarlega."
Spennandi að sjá Alexander í deild þeirra bestu
Fyrir tímabilið spáðu þjálfarar og fyrirliðar því að Grindavík yrði í sjötta sæti, myndi sigla lygnan sjó en ekki gera atlögu að því að fara upp.
„Ég var rosalega ánægður með að fá þessa spá. Það er auðvelt að nota hana til að „mótivera" mannskapinn og minna á þetta. Við vorum með þetta upp á vegg og töluðum um þetta. Deildin var mjög sterk en hún var jöfn. Við vissum að ef hlutirnir myndu ganga upp hjá okkur þá værum við líklegir," segir Óli Stefán.
Hver er ástæðan fyrir því að Alexander Veigar, sem valinn var leikmaður ársins í deildinni, springur svona út í sumar?
„Ég þekki pabba hans mjög vel. Ég hafði suðað aðeins í honum því Alexander fór í nám til Danmerkur. Svo kemur upp sú staða í mars að hann hefur samband og vill koma heim. Pabbi hans segir við mig að ef ég vilji fá það út úr Alexander sem hann getur þá þurfi hann að vera í 100% standi. Hann er alveg stútfullur af hæfileikum eins og hann sýndi í sumar en hann var líka í frábæru formi."
„Ég vissi hversu góður hann væri með boltann en það kom mér á óvart hversu góður hann væri án boltans. Hann var oft í góðum stöðum þegar við unnum boltann. Ég er mjög spenntur að sjá hvað hann mun gera í deild þeirra bestu því hann er mjög spennandi og skemmtilegur leikmaður. Þá er hann frábær karekter líka."
Gagnrýndum okkur á heiðarlegan hátt
Grindavík lék síðast í Pepsi-deildinni 2012 en öll aðstaða í bæjarfélaginu er eins og best verður kosið fyrir efstu deild. Óli Stefán var fyrirliði liðsins í mörg ár og þekkir hverja þúfu í bænum.
„Á árunum 2000-2004 fórum við hátt, vorum í toppbaráttu og í Evrópukeppni. Síðan þá datt félagið ofan í ákveðna meðalmennsku. Það var eins og menn væru bara sáttir og það væri ekkert meira að sækja. Þegar ég mætti aftur sagði ég að við þyrftum að gagnrýna okkur og byrja upp á því að smíða grunn og fara áfram. Við þurftum að vinna eftir einhverri leið," segir Óli Stefán.
„Ég setti upp fimm ára plan og við erum að fara í þriðja ár í þessu plani núna. Við erum á réttri leið og það er mjög gott að hafa svona skýra stefnu. Það er hollt að gagnrýna okkur sjálfa og fara yfir það sem hægt er að gera betur, það gerðum við alveg heiðarlega."
Tommy hvatti mig til að taka starfið
Tommy Nielsen var aðalþjálfari Grindavíkur í fyrra en Óli Stefán var þá aðstoðarmaður hans. Það kom því mörgum á óvart þegar Óli var gerður að aðalþjálfara eftir tímabilið 2015.
„Samstarf okkar Tommy var mjög gott og ég virði það vel við Tommy hvaða hlutverk ég fékk. Það var oft þannig að aðstoðarmenn hefðu lítið að segja en hjá okkur Tommy þá hlustaði hann mikið á mig og breytti jafnvel ef ég fór fram á eitthvað ef ég sannfærði hann. Ég hafði mikið að segja og við unnum mjög vel saman," segir Óli.
„Eftir tímabilið vissum við hvorugir hvað myndi verða en ég var búinn að segja að ég vildi leita mér að liði sem ég myndi taka við sjálfur. Ég var mikið að hugsa og hlutirnir þróast þannig að mér var boðið þetta starf. Ég spjallaði lengi við Tommy áður en ég sagði já og hann hvatti mig eindregið til að taka þetta og halda áfram með það sem við höfðum unnið að. Ég og Tommy erum enn góðir vinir í dag."
Henti öllu sem ég hélt að væri rétt
Óli Stefán byrjaði sinn þjálfaraferil sem spilandi þjálfari Sindra í neðstu deild 2010 og var í því starfi út tímabilið 2014 en hann kom liðinu upp í 2. deild.
„Ég var alltaf ákveðinn í því að fara í þjálfun. Ég var byrjaður að punkta niður hjá mér frekar snemma á ferlinum en þegar ég tek þetta skref þá fékk ég þetta tilboð þar sem konan mín er frá Hornafirði. Ég taldi að þetta væri mjög gott skref fyrir mig að kynnast botninum og þróast sem þjálfari," segir Óli Stefán.
„Fyrsta árið hélt ég að ég vissi allt í þjálfun og væri eins vel undirbúinn og hægt væri. Ég var með það mikið sjálfstraust að ég hefði treyst mér til að taka við FH. Annað kom hinsvegar á daginn og eftir fyrsta árið var ég búinn að henda öllu sem ég hélt að væri rétt. Svoleiðis heldur maður áfram að læra og þarna fékk ég fimm ár til að mótast. Það var svo í rauninni fullkomið skref að fara í efri deild sem aðstoðarþjálfari."
Óli hefur því þjálfað upp allan deildapíramídann á Íslandi þegar hann stýrir Grindvíkingum í efstu deild á næsta ári.
Fyrsta markmið að halda lífi í deildinni
Aðstoðarmaður Óla Stefáns hjá Grindavík er gamli refurinn Milan Stefán Jankovic sem hefur þjálfað lengi hjá félaginu.
„Ég er með frábæran mann með mér og við erum samstíga í þessu. Við settum gróft plan og beinagrind sem við ætlum að vinna eftir. Við ætlum ekki að breyta neinu," segir Óli og fer að tala um umtalað viðtal við Jónas Þórhallsson, formann knattspyrnudeildar, sem sagði að stefna liðsins væri að ná Evrópusæti á fyrsta tímabili í Pepsi-deildinni.
„Það er fyndið að það sé „tabú" að tala um miklar væntingar eða mikinn metnað. Það er nánast hlegið að því að hann ætli í Evrópukeppni strax og hlakkar í mönnum að sjá menn mistakast. Það er ekkert þannig hjá okkur. Okkur langar að fara í þetta Pepsi-dæmi með okkar sérkennum og á okkar forsendum. Svo sjáum við hverju það skilar en auðvitað verður það alltaf fyrsta markmið að halda lífi í þessari deild."
Óli Stefán segist vera með lista af leikmönnum sem hann hefur áhuga á að fá til félagsins.
„Þetta eru leikmenn sem ég tel að falli vel inn í það sem við erum að gera. Það þurfa ekki endilega að vera frægustu og stærstu nöfnin. Við þurfum að styrkja okkar lið rétt og við ætlum ekki að falla í þá gryfju að fara í uppboðskapphlaup við stóru liðin."
Kenndi Jankó íslensku að stórum hluta
Hvernig fótbolta ætlar Grindavík að spila á næsta ári, sem nýliði í efstu deild?
„Við ætlum að vera skipulagðir og ég vill að Grindavík ráði við það að stjórna leikjum. Það er einmitt það sem Milan Stefán stendur fyrir og hans styrkleiki liggur í. Þess vegna vinnum við auðvitað með það en á sama tíma vil ég koma með ákveðna ákefð og allt sé borðleggjandi sem við ætlum að gera. Við viljum vera með plan A og plan B og vita hvernig við dílum við andstæðinginn, hvort sem við spilum hápressu í Kaplakrika eða förum í lágvörn í Ólafsvík. Við viljum bara vera tilbúnir í alla leiki," segir Óli Stefán.
Milan Stefán var aðalþjálfari Óla Stefáns þegar hann spilaði með Grindavík á sínum tíma. Óli segir að það sé ekkert furðuleg tilfinning hvernig verkaskiptingin hefur snúist við.
„Nei í rauninni ekki. Við Jankó höfum þekkst svo lengi. Hann kom 1992 og fór að vinna á netaverkstæðinu og ég kenndi honum íslensku að stórum hluta. Hann var þjálfari hjá mér á yngsta ári í 2. flokki og ég held að ég hafi talið það rétt að hann hafi þjálfað mig í þrettán ár. Við erum mjög góðir vinir og hann hafði mikil áhrif á minn leikstíl. Honum tókst að gera leikmann úr mér sem segir kannski mikið um hans þjálfarahæfileika," segir Óli.
„Í nútímaþjálfun er unnið með teymi þar sem allir hafa hlutverk. Mér líkar illa við orðið aðstoðarþjálfari. Jankó er stýrimaður á skipinu hjá mér og ég skipstjóri, við erum að stefna að því sama og höfum mjög svipaðar hugmyndir. Það er mikill kostur í okkar samstarfi að ég hef styrkleika sem honum vantar og öfugt, þannig vinnum við þetta."
Viðtalið við Óla Stefán má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan en þar talar hann meðal annars um aukna pressu í boltanum og svarar Tíunni þar sem hann sýnir á sér hina hliðina.
Athugasemdir