Breiðablik hefur hafnað tveimur tilboðum frá ítalska félaginu Spezia í Willum Þór Willumsson. Líklegt er að Spezia komi með nýtt tilboð í Willum í vikunni.
„Ég á frekar von á því að Spezia geri enn eitt tilboðið," sagði Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Willums við Fótbolta.net í dag.
Hinn tvítugi Willum kom af krafti inn í lið Breiðabliks í Pepsi-deildinni á nýliðnu tímabili. Fótbolti.net valdi Willum efnilegasta leikmann deildarinnar.
Hann lék 23 leiki í deild og bikar í sumar og skoraði sex mörk. Fleiri erlend félög hafa sýnt honum áhuga.
„Það eru lið á Norðurlöndunum sem hafa áhuga á honum og líka annars staðar," sagði Ólafur.
Sóknarmaðurinn Sveinn Aron Guðjohnsen gekk í raðir Spezia frá Breiðabliki í sumar en liðið er í tólfta sæti ítölsku B-deildarinnar.
Sveinn Aron hefur mest verið á bekknum en komið við sögu í þremur deildarleikjum.
Athugasemdir