Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 24. júní 2019 13:00
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 10. umferð: Veturinn var engin tilviljun
Pálmi Rafn í baráttunni í leiknum gegn FH.
Pálmi Rafn í baráttunni í leiknum gegn FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta hefur verið nokkuð öflugt hjá okkur í undanförnum leikjum. Við höfum verið í þokkalega góðu prógrammi og við náðum að klára þetta eins og við ætluðum okkur að gera. Þetta hefur gengið vel og það er sjálfstraust í liðinu," sagði Pálmi Rafn Pálmason leikmaður KR sem er leikmaður 10. umferðar í Pepsi Max-deild karla.

Pálmi Rafn var virkilega öflugur í 2-1 sigri liðsins gegn FH á Kaplakrikavellinum í gærkvöldi.

KR-liðið er á fljúgandi siglingu en liðið hefur unnið sex leiki í röð í Pepsi Max-deildinni og einn í Mjólkurbikarnum. Pálmi Rafn segir að það sé mikið sjálfstraust í KR-liðinu í dag og að leikmennirnir hafi trú á því sem liðið er að gera.

„Við fengum inn leikmenn sem styrkja okkur og eru að styrkja okkur á þann hátt sem okkur vantaði. Það hafa ekkert orðið miklar breytingar á liðinu og við höfum spilað lengi vel saman og erum farnir að þekkja hvorn annan vel. Þjálfarateymið hefur stillt okkur vel saman. Það er að sýna sig enn betur að veturinn var engin tilviljun. Okkur gekk mjög vel og þetta er orðið mjög smurt hjá okkur," sagði Pálmi Rafn og bætti við að allir í hópnum séu að stefna í sömu áttina.

„Okkur líður vel þegar við komum inní leiki og okkur líður vel í leikjunum. Eins og á móti Val, þá greip sig aldrei neitt panik þó við hefðum fengið á okkur eitt mark og svo annað," sagði Pálmi en KR vann Val 3-2 í 9. umferðinni eftir að hafa lent 2-0 undir.

„Við vorum alltaf staðráðnir í því að koma til baka. Við erum síðan með breidd sem eru miklu meiri en var í fyrra. Við erum að fá inn leikmenn sem eru að klára leiki fyrir okkur og það er gríðarlega sterkt fyrir okkur. Allir leikmenn í hópnum hjá okkur geta byrjað leiki sem er mikill munur fyrir okkur."

Hann er virkilega ánægður með leikmannahóp KR í dag og segir hópinn vera frábæran.

„Það eru menn sem sitja á bekknum sem eiga jafn mikinn þátt í þessu eins og allir aðrir. Það þarf ekki nema eitt skemmt epli til að eyðileggja stemningu í hóp. Það er langt frá því að vera þannig hjá okkur. Leikmaður eins og Ægir Jarl sem gæti líklega farið inn í hvaða byrjunarlið sem er í deildinni og er full þess verðugur að byrja leiki hjá okkur, hann er þolinmóður og kemur inn þegar hann fær tækifærið og sinnir sínu verki frábærlega eins og allir aðrir. Pablo kemur inná gegn Val og klárar þann leik."

„Þetta eru allt topp náungar og við stöndum allir saman í þessu og erum allir að berjast saman. Það er algjört lykilatriði ef við ætlum að berjast um einhverja titla," sagði Pálmi Rafn sem vildi ekki samþykkja það strax að tveggja hesta kaupphlaup sé um Íslandsmeistaratitilinn á milli KR og Breiðabliks.

„Það er hellingur eftir af þessu móti. Ef þetta heldur svona áfram þá verður þetta tveggja hesta kapphlaup. Það er alltof mikið eftir af þessu móti til að vera spá fyrir um það hvernig þetta fer. Miðað við spilamennskuna hjá okkur og Breiðabliki þá má alveg vænta þess að þau félög verði að berjast um Íslandsmeistaratitlinn. En þessi staða gefur okkur ekki neitt ef við ætlum að fara slaka á. Þetta er fljótt að breytast og það hefur margoft sýnt sig," sagði Pálmi Rafn Pálmason að lokum.

Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla og kvenna fá verðlaun frá Domino's í sumar.

Sjá einnig:
Bestur í 8. umferð: Valdimar Þór Ingimundarson (Fylkir)
Bestur í 7. umferð: Helgi Valur Daníelsson (Fylkir)
Bestur í 6. umferð: Steinar Þorsteinsson (ÍA)
Bestur í 5. umferð: Óskar Örn Hauksson (KR)
Bestur í 4. umferð: Bjarki Steinn Bjarkason (ÍA)
Bestur í 3. umferð: Kolbeinn Þórðarson (Breiðablik)
Bestur í 2. umferð: Torfi Tímoteus Gunnarsson (KA)
Bestur í 1. umferð: Tryggvi Hrafn Haraldsson (ÍA)
Athugasemdir
banner
banner
banner