Tryggvi Hrafn Haraldsson (ÍA)
„Það er mjög gott að vera kominn aftur á Skagann," segir Tryggvi Hrafn Haraldsson, besti leikmaður 1. umferðar í Pepsi Max-deildinni 2019.
Tryggvi, sem er 22 ára, skoraði tvennu þegar ÍA vann 3-1 sigur gegn KA á Akranesi. Tryggvi var að spila sinn fyrsta leik í efstu deild síðan 2017 en undanfarin ár hefur hann verið að spila með Halmstad í Svíþjóð.
„Það er allt til alls hérna, mikið af jákvæðum og góðum hlutum í gangi og Jói Kalli hefur mikið fram að færa. Síðan þekkir maður alla leikmennina í liðinu fyrir og allt umhverfið þannig að mér líður mjög vel."
ÍA er nýliði í Pepsi Max-deildinni en liðið hefur litið mjög vel út á undirbúningstímabilinu og byrjar vel í Pepsi Max-deildinni.
„Ég var mjög sáttur með leik liðsins í heildina. Við héldum skipulagi allan tímann og allir skiluðu sínu. Við vorum mjög þéttir og vörnin frábær, með Hall að tarfast vel í hægri bakverði. Þetta gefur okkur fremstu mönnum líka frjálsræði hinum megin á vellinum."
„Ég er ánægður með mína eigin frammistöðu og geggjað fyrir bæði mig og Viktor að brjóta ísinn strax," segir Tryggvi en Viktor Jónsson var einnig á skotskónum í leiknum. Viktor gekk í raðir ÍA eftir að hafa átt stórkostlegt tímabil með Þrótti R. í Inkasso-deildinni á síðustu leiktíð.
ÍA ætlar sér ekki að vera í fallbaráttu í sumar.
„Okkur er spáð sjötta og sjöunda sæti út um allt og það er eitthvað sem við yrðum ekki ósáttir með. Við ætlum ekki að vera í fallbaráttu og það er löngu kominn tími á að festa ÍA almennilega í sessi í efstu deild og hætta að flakka á milli efstu og næst efstu deildar eins og undanfarið."
„Annars erum við með virkilega öflugt lið og ætlum að reyna að stríða þessum efstu fimm liðum."
Tíminn í Svíþjóð
Eins og áður kemur fram hefur Tryggvi spilað undanfarin ár í Svíþjóð með Halmstad.
Tryggvi skoraði þrjú mörk í 27 leikjum með Halmstad en á síðasta tímabili var hann mikið á bekknum hjá liðinu í sænsku B-deildinni.
„Tíminn minn í Svíþjóð var eiginlega tvískiptur. Ég spilaði nánast alltaf þegar við vorum í efstu deild og stóð mig vel. Tímabilið eftir var ég fljótlega kominn í kuldann hjá þjálfaranum án útskýringa og við áttum í rauninni ekki mikla samleið."
„Það er eins og það er og maður verður þá bara að leita annað, sem ég gerði og er mjög ánægður á Skaganum," sagði Tryggvi Hrafn.
Að lokum var hann spurður út í næsta leik ÍA sem er gegn Fylki á sunnudag.
„Leikurinn gen Fylki leggst mjög vel í mig, við erum fullir sjálfstrausts eftir gott undirbúningstímabil og flottan fyrsta leik. Það er mikill hugur í mönnum og við ætlum að halda okkar skriði áfram og vinna," sagði Tryggvi Hrafn að lokum.
Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla og kvenna fá verðlaun frá Domino's í sumar.
Sjá einnig:
Lið 1. umferðar - Þrír fyrrum leikmenn Halmstad
Athugasemdir