mán 25. nóvember 2019 11:30
Magnús Már Einarsson
Íslenskir Everton menn vilja Silva burt - Hver gæti tekið við?
Marco Silva.
Marco Silva.
Mynd: Getty Images
Mikel Arteta er vinsæll hjá stuðningsmönnum Everton síðan hann spilaði með liðinu.
Mikel Arteta er vinsæll hjá stuðningsmönnum Everton síðan hann spilaði með liðinu.
Mynd: Getty Images
Það gengur lítið upp hjá Silva.
Það gengur lítið upp hjá Silva.
Mynd: Getty Images
David Moyes hefur verið orðaður við endurkomu á Goodison Park.
David Moyes hefur verið orðaður við endurkomu á Goodison Park.
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn Everton vilja fá nýjan knattspyrnustjóra í brúna eftir vonda byrjun á tímabilinu. Everton er í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir tap gegn Norwich á heimavelli um helgina.

Fótbolti.net fékk nokkra stuðningsmenn Everton til að svara spurningunni: Er Marco Silva kominn á endastöð með Everton? Ef svo er, hver á að taka við?



Þórður Snær Júlíusson
Já hann er fyrir nokkuð löngu kominn á endastöð. Líklega byrjaði hann á henni þegar hann var ráðinn. Það hefur engin framþróun átt sér stað þrátt fyrir að það sé búið að eyða þjóðarframleiðslu þróunarlands í nýja leikmenn. Og það áttar sig enginn á því hvernig fótbolta hann er að reyna að spila né hvert besta liðið hans sé. Eina sem leikmenn virðast þurfa að gera til að halda alltaf sæti í liðinu er að geta ekkert í leiknum á undan. Eða hlaupa mjög hægt. Það þykir líka einhver kostur.
Svo er hann pinkulítið óþolandi. Segir „moment“ jafn oft í viðtölum og Martinez sagði „phenomenal“. Tap gegn öllum liðunum sem komu upp, og sjö töp í þrettán leikjum, án þess að spila við nokkurt af bestu liðunum utan Man City, er auðvitað bara fallform. Svo virðist hann vanhæfur til að kenna leikmönnum að verjast föstum leikatriðum og hefur aldrei unnið leik hjá Everton eftir að hafa lent undir. Eina ályktunin sem hægt er að draga er sú að þarna sé á ferðinni hæfileikaríkur bílasali sem tókst að sannfæra einhverja ríka kalla sem eiga fótboltafélag um að hann væri knattspyrnustjóri. Ali Dia stjóranna.
Það kemur bara einn maður til greina í mínum huga: besti litli Spánverji sem við þekkjum, Mikel Arteta. Eldklár, búinn að læra af þeim besta, feikilega vinsæll hjá stuðningsmönnum eftir að hafa verið nánast eini maðurinn í Moyes-liðinu með raunverulega fótboltahæfileika árum saman og með frábært hár. Ég eiginlega skil ekki hárlínuna á honum. Rammar andlitið fullkomlega inn.

Haraldur Örn Hannesson
Þegar Marco Silva var ráðinn til Everton þá voru margir þar á meðal undirritaður mjög spenntir. Silva hafði komið inn með áhugaverðum hætti hjá Watford og vorum við Evertonmenn spenntir að sjá hvað hann gæti gert með betri leikmannahóp að okkar mati. En þarna byrja líka vandamálin líka menn fóru fullóvarlega af stað í ráðninguna á Silva og þurftu að greiða Watford skaðabætur fyrir að tala við hann án leyfis. En að hvort sé rétt að láta hann fara þá er ég á Silva out vagninum. Leikaðferð hans virkar ekki. Eru allar aðgerðir alltof hægar og fyrirsjáanlegar flestar sendingar til baka völlinn það er t.d óskiljanlegt að markvörður liðsins skuli fá fleiri sendingar frá samherjum sínum heldur en Gylfi sem á að stjórna spili liðsins. Svo er það að þegar leikmaður eins og Gylfi er að fá boltann í góðum stöðum að þá þarf hann oft að bíða eftir að bakverðirnir komi upp kantana og er þá kominn með 2-3 menn í sig og á ekki sendingarmöguleika lengur. Silva virðist eiga í miklum vandræðum með að bregðast við aðstæðum Everton hefur ALDREI unnið deildarleik sem það hefur lent undir í undir hans stjórn.Það er margt að í þessu ferli öllu en leikmannahópurinn telur einhverja 15-18 landsliðsmenn vinna ýmissu landa og hlýtur að vera hægt að gera mun betur með þennan hóp. Ef Mosrhi á nóg af peningum þá væri ég til í að fá Allegri í stólinn.

Halldór Bogason
Marco Silva er klárlega komin á endastöð með Everton og ef mínir menn hefðu smá stolt væri hann rekinn í dag. Tap gegn öllum nýliðum deildarinnar ásamt Bournemouth, Burnley og Brighton er óásættanlegt. Honum hefur tekist að vinna leiki inn á milli og sett plástur á skotsár en líklegt er að þetta sé slagæð í þetta skipti og plásturinn haldi ekki. Nema þetta sé auðvitað Batman plástur. Ég gæti skrifað hérna að við ættum að ná í Pochettino en maðurinn er alltof „proven“ stjóri til þess að taka við okkur á þessum tímapunkti og líklega of góður. Raunsæir næstu stjórar eru: 1. Arteta – gjörsamlega elskaður í bítlaborginni. 2. Eddie Howe – Everton stuðningsmaður frá blautu barnsbeini sem hefur gert frábæra hluti fyrir Bournemouth og spilar skemmtilegan fótbolta. 3. David Moyes – plís ekki. 4. Chris Wilder – Eitthvað sexy við Sheffield United í dag. 5. Bielsa – winner.

Magnús Eyjólfsson
Allt sem við kemur Marco Silva er þrot. Hann spilar þrotaðan fótbolta og hefur þrotaða og karakterslausa nærveru. Honum hefur tekist að láta Gylfa ítrekað líta út eins og Fred á slæmum degi og er haldinn þeirri ranghugmynd að Dominic Calvert-Levin geti leitt sóknarlínu í úrvalsdeildarliði. Á sama tíma og hann lætur eitt mesta efni í Evrópu rotna á bekknum. Hann er búinn.
Það felst í því mikil lífslexía að halda með Everton. Þú lærir auðmýkt, sáluhjálp, að stilla öllum væntingum í hóf og gleðjast óhóflega yfir öllum litlum sigrum. Og umfram allt að gefa sér aldrei að botninum sé náð. Þegar maður hélt að klúbburinn gæti ekki sokkið dýpra en með Sam Allardyce við stjórnvölinn, þá steig Marco Silva með tonn af vanhæfni í farteskinu. Varðandi eftirmann þá vill maður auðvitað fá þá allra bestu til verksins, Pochettino eða eitthvað nafn af því kaliberi. En maður verður að vera raunsær og hafa í huga að við erum Everton. Innanmeinin í klúbbnum eru slík að það besta sem maður getur vonað er einhver sem slefar rétt yfir meðallag, Eddie Howe eða David Moyes. Jókerinn minn er Marco Bielsa. Það þarf einhvern snarruglaðan egóbrjálæðing með handfylli af persónuleikatruflunum til að rétta skútuna við.

Viðar Guðjónsson
Stutt svarið er já, því miður. Liðið er stefnulaust rekald sem veit ekki hverjir styrkleikar sínir eru og veikleikar. Þetta er eiginlega búið að vera alveg glatað á þessu tímabili frá A-Ö. Ég á ekki gott með að segja hver ætti að taka við en mig langar að nefna Mikel Arteta í þessu samhengi. Ástæðan er sú að hann þekkir félagið eftir dvöl sína hjá því og svo hefur maður tilfinningu fyrir því að tíminn undir Pep Guardiola sé góður skóli. Eins held ég ég að Eddie Howe væri góður fyrir Everton. Hann er gamall stuðningsmaður sem og að vera sóknarsinnaður og skemmtilega þenkjandi þjálfari. Bið ekki um meira að svo stöddu. Ef þetta gengur ekki þá væri ég einnig til í að sjá Wenger taka klúbbinn í gegn, skila tveimur til þremur góðum árum fyrir næsta stjóra.
Stöðutaflan England Premier league - karlar
  L U J T ms: mf: mun Stig
1 Arsenal 28 20 4 4 70 24 +46 64
2 Liverpool 28 19 7 2 65 26 +39 64
3 Man City 28 19 6 3 63 28 +35 63
4 Aston Villa 29 17 5 7 60 42 +18 56
5 Tottenham 28 16 5 7 59 42 +17 53
6 Man Utd 28 15 2 11 39 39 0 47
7 West Ham 29 12 8 9 46 50 -4 44
8 Brighton 28 11 9 8 50 44 +6 42
9 Wolves 28 12 5 11 42 44 -2 41
10 Newcastle 28 12 4 12 59 48 +11 40
11 Chelsea 27 11 6 10 47 45 +2 39
12 Fulham 29 11 5 13 43 44 -1 38
13 Bournemouth 28 9 8 11 41 52 -11 35
14 Crystal Palace 28 7 8 13 33 48 -15 29
15 Brentford 29 7 5 17 41 54 -13 26
16 Everton 28 8 7 13 29 39 -10 25
17 Luton 29 5 7 17 42 60 -18 22
18 Nott. Forest 29 6 7 16 35 51 -16 21
19 Burnley 29 4 5 20 29 63 -34 17
20 Sheffield Utd 28 3 5 20 24 74 -50 14
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner