Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
   sun 06. júní 2010 22:06
Matthías Freyr Matthíasson
Umfjöllun: Jafntefli á Akranesi
Skagamenn hafa ekki fagnað oft í sumar
Skagamenn hafa ekki fagnað oft í sumar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Sigurjónsson skoraði mark Þórs í dag
Atli Sigurjónsson skoraði mark Þórs í dag
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Andri Júlíusson skoraði fyrir ÍA
Andri Júlíusson skoraði fyrir ÍA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA 1 - 1 Þór:
0-1 Atli Sigurjónsson Þór ('5)
1-1 Andri Júlíusson ÍA ('63)
Rautt Spjald: Igor Pesic ÍA

Skagamenn tóku á móti Þór á Akranesi í dag. Allar aðstæður voru hinar frábærustu til þess að spila fótbolta. Nánast logn og 10 stiga hiti. Sjaldan sem það er logn á Akranesi, það yfirleitt flýtir sér ansi mikið lognið þar.

Gengi liðana hefur verið margt ólíkt í sumar. Skagamenn hafa átt í miklum erfileikum eins og flestir vita. Áttu þó fínan leik á móti Selfossi í Visa-bikarnum á síðastliðinn fimmtudag og komust áfram í 16.liða úrslit. En gengi liðsins í deildinni hefur verið mikil vonbrigði, þeir sátu fyrir leikinn í næst neðsta sæti með aðeins eitt stig. Þór var fyrir leikinn í fimmta sæti með 7 stig og hafa skipt um þjálfara en Lárus Orri sagði eins og kunnugt er af sér og Páll Viðar Gíslason tók við af honum.

Leikurinn byrjaði ansi fjörlega. Þórsarar mættu til leiks, en ekki er alveg hægt að segja það sama um ÍA. Þórsarar sóttu strax í það að vera með boltann og spila honum á milli sín, á meðan það virtist vera mikið óöryggi í liði ÍA og gekk leikaðferð þeirra út á það að dúndra boltanum fram, a la Drillo style.

Því var það strax á 5.mínútu leiksins að Þórsarar fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateigslínu Skagamanna. Hann Atli Sigurjónsson tók spyrnuna og skoraði af miklu öryggi, setti boltann yfir varnarvegg ÍA og í hægra meginn við Árna markmann ÍA, sem hefði átt að geta gert betur.

Síðan á 9.mínútu leiksins var Andri Júlíusson felldur inn í teig Þórsara og vildu Skagamenn fá vítaspyrnu í kjölfarið en fengu ekki. Virtist þó vera úr stúkunni séð, klárt brot og víti.

Ottó Reynisson var svo á ferðinni fyrir Þór á 20.mínútu og var við það að komast í gott færi en varnarmenn ÍA voru vel á verði. Ottó tók síðan hornspyrnu 15.mínútum seinna, eða á 35.mínútu og fór boltinn í þverslánna.

Fyrri hálfleikurinn var ekki góður af hálfu Skagamanna en Þórsarar spiluðu á tímum fanta flottan bolta. Því var ljóst að Skagamenn þyrftu að koma mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik ef ekki ætti að fara illa hjá þeim. Það var það sem þeir gerðu, þeir mættu mun sterkari til leiks eftir hléið og spurning hvort að Þórður Þórðarsson þjálfari ÍA hafi notað hárblásaraaðferðina því að það var allt annað að sjá til liðsins stóran hluta seinni hálfleiksins.

En þó voru það Þórsarar sem fengu fyrsta færi seinni hálfleiks og þar var á ferðinni Jóhann Helgi Hannesson sem fékk flott færi en boltinn fór framhjá.

En á 63.mínútu fékk Andri Júlíusson háan bolta inn fyrir vörn Þórs, Andri hljóp sem vindurinn og náði að vippa boltanum hátt yfir Björn markmann Þórs og staðan því orðin 1-1. Á 68.mínútu komst svo Ólafur Valur Valdimarsson í dauðafæri einn fyrir framan mark Þórs eftir sendingu frá Stefáni Erni Arnarssyni sem hafði sent boltann fyrir markið. Ólafur hafði nógan tíma til að athafna sig en Björn markmaður Þórs náði að vera á frábæran hátt.

Liðin skiptust á að sækja eftir þetta og Skagamenn slepptu aðeins tökunum sem þeir höfðu haft það sem af var seinni hálfleiks. Varnarmenn þeirra virkuðu óöruggir og sóknarmenn Þórs nýttu sér það til að keyra á þá.

Leikurinn var við það að renna út þegar það komu tvær hættulegar sóknir hjá hvoru liðinu. Jóhann Helgi átti skot á 90 mínútu leiksins sem endaði í stönginni og síðan hinum meginn á vellinum átti Andri Júlíusson skot sem endaði í varnarmanni Þórs. ÍA fékk hornspyrnu og Stefán Örn skallaði boltann rétt framhjá marki Þórs.

Leikurinn endaði því 1-1 og geta bæði lið verið nokkuð sátt við þá niðurstöðu eftir á að hyggja. Ég verð svo í lokinn að minnast á stuðningsmenn Þórs sem fjölmenntu á Akranes í dag, þeir studdu við sitt lið allan tímann með því að syngja og tralla og voru í stuði allan tímann. Virkilega flott stuðningsmannalið þar á ferð.

Lið ÍA: Árni Snær Ólason - Guðjón Heiðar Sveinsson, Igor Pesic, Andri Júlíusson, Ísleifur Guðmundsson, Hjörtur Hjartarson, Arnar Már Guðjónsson, Ólafur Valur Valdimarsson, Guðmundur Guðjónsson, Einar Logi Einarsson, Andri Geir Alexandersson. Varamenn: Aron Ýmir Pétursson, Ragnar Leósson, Andri Adolphsson, Stefán Arnarson, Gísli Þór Gíslason.

Lið Þórs: Björn Hákon Sveinsson – Ármann Sævarsson, Nenad Zivanovic, Þorsteinn Ingason, Ottó Reynisson, Guiseppe Funicello, Baldvin Ólafsson, Gísli Helgason, Sigurður Kristjánsson, Atli Sigurjónsson, Jóhann Helgi Hannesson.
Varamenn: Sveinn Elías Jónsson, Sveinn Óli Birgisson, Trausti Örn Þórðarson, Kristján Steinn Magnússon, Guðmundur Ragnar Vignisson.

Aðstæður: Frábærar! Logn og hlýtt. 831 áhorfandi
Dómari: Örvar Sær Gíslason (slakur)
















banner
banner
banner
banner