Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   lau 11. maí 2024 09:30
Brynjar Ingi Erluson
PSG ætlar að galopna veskið í sumar
Mynd: EPA
Franska félagið Paris Saint-Germain mun spara sér 225 milljónir evra á brottför Kylian Mbappe frá félaginu í sumar.

Mbappe sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem hann greindi frá því að þetta yrði hans síðasta tímabil með PSG.

Samningur hans rennur út eftir tímabilið og hefur hann ákveðið að fórna um 100 milljónum evra í hollustubónus með því að framlengja ekki samning sinn um eitt ár.

Frakkinn er á leið til Real Madrid á Spáni en það verður gengið frá öllum lausum endum á næstu vikum.

Brottför Mbappe þýðir það að PSG er nú með 225 milljónir evra sem það getur notað á markaðnum í sumar en þessi peningur hefði annars verið notaður í laun, hollustubónus og annað tengt Frakkanum.

Franska félagið ætlar að ráðstafa peningunum í leikmannakaup. Blaðamaðurinn Ben Jacobs segir PSG ætla að kaupa 4-5 öfluga leikmenn til þess að styrkja hópinn.

Það verður erfitt að fylla í skarð Mbappe sem er markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 255 mörk, en PSG er að skoða leikmenn á borð við Rafael Leao, Victor Osimhen og Lamine Yamal.
Athugasemdir
banner
banner