Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 01. ágúst 2024 11:54
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Flosi spenntur: Alfreð með mikið Breiðablikshjarta
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Flosi Eiríksson.
Flosi Eiríksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð Finnbogason var í morgun tilkynntur sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar Breiðabliks. Fyrsti dagur hans sem starfsmaður Breiðabliks er í dag.

Flosi Eiríksson, fomaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, ræddi við Fótbolta.net í dag

„Hann byrjar sem ráðgjafi í dag, hann er orðinn starfsmaður Breiðabliks. Síðan ræðst það svolítið af hans skuldbindingum í Belgíu og hans ferli hvernig þessu verður öllu háttað, en hann er allavega byrjaður í þessu starfi," segir Flosi.

Alfreð er samningsbundinn belgíska félaginu Eupen út komandi tímabil.

„Það er ekki langt síðan við hófum viðræður við Alfreð, þetta hefur gengið tiltölulega hratt og verið afar skemmtilegt. Alfreð er ofboðslega frjór, með fullt af hugmyndum og mikið Breiðablikshjarta. Við erum afa spennt fyrir þessu."

Þýðir innkoma hans sem starfsmanns að breytingar séu á starfi knattspyrnudeildar Breiðabliks?

„Já, breytingar og bætingar. Það eru náttúrulega breytingar hjá okkur núna; Eysteinn (Pétur Lárusson) er að hætta - fer í KSÍ. Búið er að ráða nýjan framkvæmdastjóra, hana Tönju (Tómasdóttur) sem verður líka framkvæmdastjóri knattspyrnudeildarinnar. Svo fáum við Alfreð inn í faglega hlutann. Við erum að endurskipuleggja og læra á þetta allt saman."

„Það er verið að hefja framkvæmdir við nýjan gervigrasvöll hjá okkur sem bætir aðstöðuna. Við erum líka að bæta aðstöðuna fyrir alla þjálfarana. Það er nóg í gangi og einn af stóru hlutunum var að fá inn tæknilegan ráðgjafa í knattspyrnumálin."


Er Alfreð að taka við af starfi Karls Daníels Magnússonar sem hefur starfað sem deildarstjóri afrekssviðs?

„Ekki mikið. Hann tekur við einhverjum ákveðnum verkefnum. Kalli hefur verið í rekstri meistaraflokkanna, en við erum ekki að ráða Alfreð Finnbogason í slíkt. Auðvitað eru einhver verkefni; leikmannasamningar og samskipti sem Alfreð tekur yfir. Þetta á allt eftir að skýrast, þroskast og þróast í góðu samstarfi," segir Flosi.
Athugasemdir
banner
banner