Bayern setur meiri kraft í viðræður við Musiala - Newcastle fylgist með Sane - Barcelona vill Kimmich
   fim 01. ágúst 2024 10:36
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Alfreð Finnbogason í starf hjá Breiðabliki (Staðfest) - Spilar áfram í Evrópu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Breiðablik tilkynnti í morgun að Alfreð Finnbogason væri orðinn starfsmaður félagsins; væri kominn í starf sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar hjá félaginu.

„Alfreð mun bera ábyrgð á knattspyrnulegum málefnum Breiðabliks, móta stefnu um hugmyndafræði félagsins á víðum grunni og bera ábyrgð á faglegu starfi deildarinnar ásamt starfsfólki knattspyrnudeildar," segir m.a. í tilkynningu félagsins.

Alfreð er núverandi atvinnu- og landsliðsmaður. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum við belgíska félagið Eupen og segir að hann muni sinna starfi sínu hjá Breiðabliki samhliða því að spila sem atvinnumaður í Evrópu.

Framherjinn þekkir vel til hjá Breiðabliki því hann var hjá félaginu á árunum 2005-2010 og varð bæði Íslands- og bikarmeistari með liðinu.

Tilkynning Breiðabliks
Alfreð Finnbogason verður tæknilegur ráðgjafi Knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Alfreð mun bera ábyrgð á knattspyrnulegum málefnum Breiðabliks, móta stefnu um hugmyndafræði félagsins á víðum grunni og bera ábyrgð á faglegu starfi deildarinnar ásamt starfsfólki knattspyrnudeildar.

Hann mun vinna náið með þjálfurum meistaraflokka félagsins og öðru starfsfólki við að halda áfram að byggja upp og efla enn frekar starfið hjá einni öflugustu knattspyrnudeild á Íslandi með árangursmiðuðum hætti.

Alfreð mun vera í ráðgjafar hlutverki, samhliða því að spila sem atvinnumaður í Evrópu. Það mun svo breytast og þróast eftir aðstæðum.

„Þegar Breiðablik leitaði til mín varðandi það að hjálpa þeim að móta stefnu næstu ára ásamt því að vera þeirra ráðgjafi varðandi fótbolta tengdar ákvarðanir, þá þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um. Við áttum góð samtöl og vorum sammála um að á meðan margt er í mjög góðum farvegi hjá Breiðablik, þá eru atriði sem hægt er að gera betur í sameiningu með rétta teyminu. Mikilvægast er að Breiðablik haldi áfram því frábæra starfi sem það er þekkt fyrir síðustu 15 árin, sem er að spila góðan og árangursríkan fótbolta, ásamt þvi að gefa ungum leikmönnum tækifæri eins og hefðin hefur verið. Minn fótboltaferill mun áfram vera mitt forgangsatriði ásamt því núna að vera Breiðablik til halds og traust þegar það á við,“ segir Alfreð Finnbogason.

Alfreð þarf ekki að kynna fyrir Breiðabliksfólki eða íslenskum knattspyrnuáhugamönnum. Hann spilaði 67 leiki með Breiðablik á árunum 2008 til 2010 og varð bikarmeistari með félaginu 2009 og Íslandsmeistari 2010.

Alfreð hélt í atvinnumennsku 2010 og hefur á sínum ferli leikið meðal annars með Lokeren, Helsingborgs IF, Heerenvenn, Real Sociedad, FC Augsburg, Lyngby og spilar núna með Eupen í Belgíu. Hann á að baki 73 landsleiki, hefur skorað í þeim 18 mörk og spilaði fyrir íslands hönd á EM í Frakklandi 2016 og HM í Rússlandi 2018.

„Við erum afar stolt og spennt að Alfreð sé að koma til liðs við okkur hjá Breiðabliki, en þessi frábæra viðbót, er hluti af af þeirri endurskipulagningu og stefnumótun sem verið hefur og er í gangi hjá okkur. Við vitum að þekking hans og reynsla mun nýtast félaginu afar vel nú og á komandi árum, hlökkum til samstarfsins og bjóðum Alfreð hjartanlega velkominn aftur í Breiðablik,“ segir Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar.
Athugasemdir
banner
banner