Í dag var tilkynnt að setja eigi nýtt undirlag á Laugardalsvöll og vinna á að hefjast síðar á árinu. Setja á hybrid gras, blöndu af grasi og gervigrasi, og það á að stuðla að því að völlurinn verði nothæfur nánast allt árið um kring.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, ræddi við Fótbolta.net eftir tilkynninguna.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, ræddi við Fótbolta.net eftir tilkynninguna.
„Við erum mjög ánægð að vera komin með þessa niðurstöðu. Menn hafa skoðað ýmsar útfærslur undanfarin ár en nú keyrum við á þetta svona, farið í Hybrid-gras. Fyrstu framkvæmdir fara af stað mjög bráðlega. Þegar það gras er komið þá er ljóst að kastíþróttir frjálsra geta ekki lengur verið hér á vellinum. Við erum líka með framtíðarsýn með frjálsíþróttasambandið," segir Bjarni.
„Þetta er áfangi, við byrjum á því að skipta út yfirlaginu, síðan í framhaldinu fara menn skref fyrir skref að þróa völlinn, þ.m.t. áhorfendastæðin og aðra aðstöðu hérna á vellinum. Það sem mestu skiptir er að þetta gerir það að verkum að við Íslendingar getum boðið um má völl sem er klár fyrir keppni lengra fram á haustið og fyrr á vorin en ella væri."
Núverandi staðsetning er framtíðarvallarstæði þjóðarleikvangsins. Bjarni var spurður hvort að Íslendingar mættu eiga von á nýjum leikvangi en heyra mátti á honum að ekki sé von á nýjum leikvangi.
„Við byrjum á yfirborðinu, lögum það, og svo fylgir í áföngum að laga aðra aðstöðu."
„Við erum með metnaðarfull áform um alvöru völl hérna í Laugardalnum og við ætlum ekki að gefa afslátt á því þó að við förum ekki út í ítrustu hugmyndir eins og þær voru áður hugsaðar."
Bjarni var spurður út í hugmyndir fyrri ára um nýjan þjóðarleikvang. Dæmi um hugmyndir má sjá í hlekknum neðst.
„Þetta var kostnaðarmetið, við þurftum að máta það inn í hvað væri raunhæft, og þetta er niðurstaða sem mér sýnist að KSÍ og allir séu sáttir við. Þannig ég er mjög sáttur," segir Bjarni.
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum efst.
Athugasemdir