Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mán 02. október 2023 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Sammi búinn að ná báðum markmiðunum - „Við verðum að líta stórt á þetta"
Lengjudeildin
Sammi eftir að Vestri tryggði sig upp.
Sammi eftir að Vestri tryggði sig upp.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, eftir úrslitaleikinn.
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, eftir úrslitaleikinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra, og Sammi.
Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra, og Sammi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í stúkunni með blys.
Í stúkunni með blys.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Rúnar Bjarnason.
Andri Rúnar Bjarnason.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Vestri fagnar sigrinum.
Vestri fagnar sigrinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markmiðin eru háleit.
Markmiðin eru háleit.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elskar Vestra.
Elskar Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markmiðin eru háleit.
Markmiðin eru háleit.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráð karla hjá Vestra, var manna glaðastur þegar Vestri tryggði sér sæti í Bestu deildinni síðasta laugardag. Vestramenn voru bestir í umspilinu, í nýju fyrirkomulagi Lengjudeildarinnar, og unnu sér þannig inn sæti í Bestu deildinni að ári.

„Þetta var bara frábært. Ég á varla til lýsingaorð fyrir þetta. Strákarnir eru búnir að vinna hörðum höndum að þessu. Davíð (Smári Lamude, þjálfari liðsins) hefur verið ótrúlega fókuseraður á það hvað hann ætlaði að gera með þetta lið. Að vera þarna með öllu fólkinu okkar var magnað," segir Samúel í samtali við Fótbolta.net um laugardaginn.

Hann var klökkur er hann ræddi við Stöð 2 Sport eftir leikinn. Honum hefur lengi dreymt um þetta afrek, að sjá sitt heittelskaða félag í deild þeirra bestu.

„Þetta er ótrúlega þýðingamikið. Við höfum stefnt að þessu lengi. Menn tala oft um drauma og þetta hefur verið draumur og markmið fyrir okkur. Ég áttaði mig einhvern veginn ekki á þessu fyrst en þegar ég fékk Nonna (framkvæmdastjóra) í fangið þá kom eitthvað yfir mig. Ég varð bara lítill."

„Konan mín vitnaði í eitthvað viðtal við mig sem var tekið 2009. Þar talaði ég um tvö markmið í lífinu: Að giftast henni og að koma Vestra upp í efstu deild. Þetta hefur lengi verið á stefnuskránni. Við höfum reynt og reynt, en það gekk ekki fyrr en á laugardaginn. Þetta er eitthvað sem við höfum alltaf verið að stefna að. Við höfum alltaf sett markmiðið hátt en það er svo mikið sem þarf að smella svo þetta gangi upp. Með fullri virðingi fyrir öllum þeim góðu mönnum sem hafa starfað hérna og gert frábæra hluti, þá lét Davíð Smári hlutina klikka. Hann bjó til geðveika liðsheild og lét menn hafa trú á verkefninu. Það í raun færði okkur þetta."

Hlaupa í gegnum veggi fyrir hann
Á kuldalegum fimmtudegi fyrir rétt rúmu ári síðan var Davíð Smári Lamude tilkynntur sem nýr þjálfari Vestra. Hann hafði gert mjög góða hluti með Kórdrengi, hann kom liðinu upp úr neðstu deild upp í 1. deildina. Núna er hann búinn að fara upp úr öllum deildum nema nýju 5. deildinni.

Strax á fyrsta fundi ræddi Sammi við Davíð um möguleikann á því að fara upp. Það leit ekki vel út til að byrja með en eftir því sem leið á, þá varð liðsheildin sterkari og sterkari.

„Allir þeir þjálfarar sem hafa starfað hérna eru frábærir á sinn hátt og allt góðir vinir mínir í dag. Davíð Smári er einstakur. Leikmennirnir elska hann og hlaupa í gegnum veggi fyrir hann. Ég var að horfa á leikinn aftur í gær og það sést hvað hann fær menn til að trúa. Liðsheildin er svo mikil. Vestri hefur tapað einum af síðustu 15 eða 16 leikjum," segir Sammi en Vestramenn fóru á mikið skrið eftir erfiða byrjun á mótinu. Liðið fór úr tíunda sæti upp í það fjórða og komst í umspilið. Í undanúrslitunum hafði liðið betur gegn Fjölni og svo vannst sigur á Aftureldingu í úrslitaleiknum.

„Eini skjálfta leikurinn fyrir mig var gegn Fjölni úti, ég vissi að það yrði gríðarlega erfiður leikur. Ég svaf svo eins og ungabarn fyrir leikinn gegn Aftureldingu. Ég vissi að við myndum vinna þetta. Afturelding er frábært lið og þetta var stál í stál, en tilfinningin var alltaf sú að við myndum klára þetta."

Mögnuð stemning
Það var stórkostleg stemning í kringum Vestraliðið í undanúrslitunum og í úrslitaleiknum líka. Sammi var sjálfur mættur með blys í stúkuna þegar Vestri lagði Fjölni í undanúrslitunum.

„Maður verður að hafa gaman að þessu líka, það er bara þannig. Það var partur af því að reyna að búa til gleðistund fyrir leikmennina okkar og fólkið okkar, að gera þetta svolítið eftirminnilegt," segir hann um stemninguna í Grafarvoginum eftir sigurinn í undanúrslitunum.

Á Laugardalsvelli var vel mætt að vestan og frábær stuðningur á bak við liðið úr stúkunni.

„Sko, ég skal segja þér það... þegar ég mætti upp á Snóker- og Poolstofuna, þá kom það strax mér á óvart," segir Sammi um stuðninginn en hann hjálpaði klárlega í úrslitaleiknum. „Það voru allir þar. Það var 40 stiga hiti þarna inni og stappað út úr dyrum. Það var geggjuð stemning. Ég fer niður á Laugardalsvöll klukkan korter í þrjú. Ég fer upp og heilsa upp á fólk og annað. Ég fer á klósettið svona korter yfir. Það er opinn gluggi. Þar heyri ég það nálgast, það kemur nær og nær... okkar stuðningsmenn að syngja: 'Vestri, Vestri, Vestri'. Mér leið alltaf vel og mér leið alltaf eins og við værum að fara að taka þetta. Við eigum magnað fólk og það hefur oft sýnt sig fyrir vestan að þegar á þarf að halda, þá erum við ótrúlega samrýnd. Það sýndi sig á laugardaginn. Það voru allir á vellinum."

Sest niður með Andra Rúnari
Á meðal þeirra sem var að styðja liðið hvað mest í stúkunni var Andri Rúnar Bjarnason, sóknarmaður Vals. Andri Rúnar er uppalinn fyrir vestan.

„Andri Rúnar er náttúrulega bara Vestramaður. Það er gleðilegt að hann skyldi vera þarna eins og allir aðrir," sagði Sammi en ætlar hann að reyna að fá Andra til félagsins fyrir Bestu deildina?

„Það kæmi mér mjög á óvart ef við myndum allavega ekki setjast niður saman. Hann er samningsbundinn Val og ég þyrfti þá að ræða við Valsarana. Við gefum þessu kannski vikuna og ég lauma kannski á hann eins og einu skilaboði, hvort að þetta sé eitthvað sem honum líst á," sagði Sammi.

Fyrsta verkefnið
En hvað tekur við núna? Þegar liðið er búið að tryggja sig upp í Bestu deildina.

„Fyrsta verkefni mitt í morgun var að hringja í mann í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Það er algjört lykilatriði að völlurinn okkar verði klár þegar deildin á að byrja. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Við viljum ekki að það komi upp að við séum í efstu deild og svo getum við ekki spilað. Við þurfum að byrja á því að bærinn setji allt kapp á það að klára völlinn. Framkvæmdir við nýja völlinn eiga í raun að klárast í desember, allt nema grasið," segir Sammi en Vestramenn eru að fá gott gervigras, loksins.

„Þau sem þekkja til vita að það er ekki hægt að setja gervigras niður við allar aðstæður. Við þurfum að hjóla í þetta og klára þetta strax, svo það verði allt klárt. Það var samt fróður maður sem sagði mér það í morgun að það væri svo sem hægt að leggja gervigras ef það er snjólaust, þó það sé kalt. Það er hægt að sauma þetta í staðinn fyrir að líma. Það kostar meiri pening en Ísafjarðarbær þarf bara að sjá til að völlurinn verði klár í fyrsta leik í Bestu deildinni. Það væri hrikalega neyðarlegt fyrir Ísafjörð ef við getum ekki spilað fyrstu leikina, það væri alveg glatað. Ef sveitarfélagið er jafn stórhuga og metnaðarmikið og fótboltafélagið, þá verður komið gervigras fyrir fyrsta leik."

Næsta stóra markmið er Evrópa
Vestri er ekki að fara upp í efstu deild bara til að vera með, það er alveg ljóst.

„Ég er nú bara þannig gerður, eins og fólkið sem ég vinn með fyrir vestan, að við höfum alltaf verið í þessu til að gera mjög vel. Við ætlum ekki að fara upp í Bestu deildina bara til að njóta þess að vera þar. Að sjálfsögðu ætlum við að njóta en við ætlum að gera okkur gildandi þar. Það er algjörlega þannig. Það er ótrúlega mikið af fólki í kringum Vestra. Við eigum líka frábæra styrktaraðila. Ég held að þetta sé olía á eldinn fyrir alla," segir Sammi en hann skorar á styrktaraðila félagsins að gefa enn meira í en áður.

„Ég get lofað þér því að þegar ég byrja að hringja í menn að biðja um að þeir hjálpi okkur áfram, og jafnvel bæta í, að þá verður svarið bara játandi. Það er enginn að fara að svara neitandi. Ég er ekki byrjaður að hringja en ég veit að við eigum mjög gott bakland fyrir vestan og fyrir sunnan. Það verða allir með, það verður pottþétt. Það mun koma mér virkilega á óvart ef einhver svarar neitandi. Þá mun ég nafngreina þann aðila," sagði Sammi léttur.

Eins og áður kemur fram þá setti Sammi tvö markmið árið 2009. Þau hafa bæði gengið upp. Núna er kominn tími á að setja ný markmið.

„Núna setjum við okkur ný markmið. Auðvitað er ég hátt uppi núna og fullur af sjálfstrausti. Maður er oft sleginn mikið niður, en við verðum að stefna hátt áfram. Ég er ekki að segja það að Vestri sé að fara að verða Íslandsmeistari á næsta ári, en við verðum að horfa í það að byggja ofan á það sem við erum búin að gera. Fólkið sem ég vinn með, við viljum gera okkur gildandi. Það er mjög jákvætt ef við getum tryggt það að við spilum áfram í Bestu deildinni en verðum við ekki allavega að horfa í það að næsta skref er að koma Vestra í Evrópu? Það er bara þannig."

„Það er ekkert markmið að halda sér bara í deildinni, við verðum að líta stórt á þetta. Hvort sem við fáum það í hausinn eða ekki, það kemur í ljós. Eigum við ekki að segja að næsta markmið sé að koma Vestra í Evrópu?" sagði Sammi. Að leyfa sér að dreyma stórt, það kostar ekki neitt.

Eins mikið og ég get elskað
Sammi er gríðarlega ástríðufullur fyrir félaginu sínu. En hversu mikið elskar hann Vestra?

„Það er kannski erfitt að koma því í einhver orð, en ég er mikill Vestramaður og ég elska þetta félag eins mikið og ég get elskað eitthvað. Það er bara þannig. Konan, börnin, fjölskyldan og Vestri; þetta er lífið. Ég vil koma inn á það að ég er í krefjandi vinnu með fótboltanum en ég er með frábært fólk sem er með mér í því. Þau hafa alltaf stutt mig í þessu. Það væri löngu búið að reka mig annars staðar."

„Það er svo mikið af fólki sem kemur að þessum árangri. Ég vil þakka öllu því fólki sem hefur komið Vestra á þennan stað," sagði Sammi að lokum en það verður gríðarlega áhugavert að fylgjast með Vestra í Bestu deildinni.
Athugasemdir
banner
banner