Amad semur við Man Utd - Mbeumo á óskalista Arsenal - Ipswich er að kaupa Philogene
   mán 02. desember 2024 23:25
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Sævar Péturs: Breiðablik og Víkingur að verða komin í eigin deild
Sævar Pétursson.
Sævar Pétursson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik KA og Víkings þar sem Sveinn Margeir reyndist Víkingum mjög erfiður.
Úr leik KA og Víkings þar sem Sveinn Margeir reyndist Víkingum mjög erfiður.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Daníel Hafsteinsson var einn af bestu mönnum leiksins þegar KA lagði Víking í bikarúrslitaleiknum í haust.
Daníel Hafsteinsson var einn af bestu mönnum leiksins þegar KA lagði Víking í bikarúrslitaleiknum í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kom frá Dalvík/Reyni, fyrst í yngri flokkana og svo í meistaraflokk KA.
Kom frá Dalvík/Reyni, fyrst í yngri flokkana og svo í meistaraflokk KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel í leik með KA sumarið 2017 sem var hans fyrsta tímabil með meistaraflokki KA. Hann var seldur til Helsingborg sumarið 2019 og sneri aftur í KA fyrir tímabilið 2021.
Daníel í leik með KA sumarið 2017 sem var hans fyrsta tímabil með meistaraflokki KA. Hann var seldur til Helsingborg sumarið 2019 og sneri aftur í KA fyrir tímabilið 2021.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur tilkynnti í gær um komu tveggja leikmanna til félagsins, þeir Daníel Hafsteinsson og Sveinn Margeir Hauksson eru gengir í raðir félagsins og báðir koma þeir frá KA. Báðir riftu þeir samningum sínum við KA fyrr í vetur.

Um er að ræða tvo mjög öfluga leikmenn sem voru í lykilhlutverki hjá KA á liðnu tímabili, miðjumaðurinn Daníel var á bekknum í liði ársins hér á Fótbolti.net og Sveinn Margeir var öflugur í framlínu KA þá mánuði sem hann lék með liðinu.

Fótbolti.net ræddi við Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, um botthvarf leikmannanna tveggja.

Ekki tilbúin að leggja félagið að veði
„Þetta eru vonbrigði, við missum sterka leikmenn sem við vildum svo sannarlega halda hjá okkur og lögðum að okkar mati eins mikið á borðið og hægt var af okkar hálfu, en það virðist ekki hafa verið nóg. Þá er það svo sem bara þannig, við erum ekki tilbúin að leggja félagið að veði með einhverjar fjárfestingar eða skuldbindingar sem við teljum okkur ekki ráða við. Það hefur alltaf verið þannig hjá okkur. Ef það gengur ekki þá er það bara eins og fótboltinn er, stundum vinnurðu og stundum taparðu," segir Sævar.

„Það er vissulega eftirsjá af þessum leikmönnum sem eru uppaldir KA menn þannig lagað, Sveinn er búinn að vera hjá okkur lengi og Danni meira og minna allt sitt líf. Við sjáum virkilega á eftir drengjunum, en KA er með ákveðið 'budget' - ákveðið þak - og ef það dugir ekki þá er það bara áfram gakk hjá okkur. Við munum mæta til leiks með sterkt lið á næsta ári þó svo að við hefðum vissulega viljað hafa þessa tvo leikmenn hjá okkur. Það bara gekk ekki í ár."

Breiðablik og Víkingur að komast í sér flokk
Maður gerir ráð fyrir því að það sé leiðinlegra að sjá þá fara í annað íslenskt félag heldur en ef þeir hefðu haldið erlendis.

„Það væri allt annað ef þeir hefðu farið út. Við höfum sagt það við þá að við viljum að strákarnir fari frá okkur erlendis en ekki í samkeppnisaðila hér innanlands. Kannski verðum við bara að fara lifa með því að Víkingur og Breiðablik, sem eru komin svona langt í Evrópu, eru kannski ekkert samkeppnisaðilar annarra félaga á Íslandi í dag. Þau eru að verða komin með það mikið fjármagn að þau eru pínu að verða komin í eigin deild."

„Ég skil leikmennina alveg að vilja fá hálfgerðan atvinnumannasamning og eiga möguleika á því að fara langt í Evrópu, það er bara spennandi,"
segir Sævar sem undirstrikar að það séu vonbrigði að missa þessa tvo öflugu leikmenn.

Aftur að teikniborðinu
Planið hjá KA var að byggja upp í kringum kjarna leikmanna sem fæddir eru á árunum 1996-2001. Þessir tveir leikmenn voru hluti af þeim kjarna. Það gefur því auga leið að þetta flækir aðeins plönin.

„Við þurfum að fara aðeins aftur að teikniborðinu. Við lögðum mikið í að halda þessum kjarna og byggja í kringum hann. Við sögðum það við þessa leikmenn að við vildum byggja liðið í kringum þá til næstu 2-3 ára. Við töldum möguleika á að toppa á nýjum velli '26/27 þar sem við erum að vígja nýjan völl og töldum okkur hafa spennandi spil á höndum, en því miður gekk það ekki. Við þurfum aðeins að byrja að hugsa hlutina öðruvísi. En það er enginn bilbugur á okkur, við ætlum að mæta sterkir til leiks."

Erfitt að finna menn í staðinn á markaðnum hérna heima
Um er að ræða tvo mjög öfluga leikmenn, Daníel átti mjög gott tímabil og Sveinn Margeir var öflugur þann tíma sem hann spilaði hér á landi áður en hann hélt til Bandaríkjanna. Sveinn getur einungis spilað í um sex vikur á Íslandi á næsta tímabili vegna háskólanáms þannig að KA hefði alltaf þurft að vinna í kringum það, en er ljóst að það þarf að leita erlendis til að fá inn mann í stað Daníels?

„Já, ég held að það sé þannig í tilfelli þeirra beggja, það er mjög erfitt að ætla fylla í þeirra skörð á markaðnum hér heima, ekki nema þá að við förum aðrar leiðir, hugsa eitthvað út fyrir boxið, sem við erum að skoða núna. Getum við breytt einhverju í okkar leik þannig að þeir sem eru í boði eða þeir sem við höfum þegar innan okkar raða nýtist á einhvern annan hátt svo liðið verði jafnsterkt ef ekki sterkara. En ég held að þú fáir engan annan Danna Hafsteins á markaðnum í dag með þennan kraft og þessa hlaupagetu, eða annan Svein Margeir."

Settu annað í biðstöðu á meðan
Andri Fannar Stefánsson og Viðar Örn Kjartansson eru runnir út á samningi. Miða viðræður við þá eitthvað áfram?

„Það er ekkert launungarmál að við höfum verið með önnur samningamál dálítið í biðstöðu út af viðræðunum við Danna og Svenna. Við vorum vongóðir í að halda þeim nánast þangað til við heyrðum að þeir væru komnir í annað félag. Við erum í dag að ýta öðrum viðræðum í gang og reyna að átta okkur á því hvað við viljum gera. Við vildum bíða með þessi mál meðan að við lögðum kapp á að reyna halda þessum tveimur í KA, en því miður gekk það ekki."

Vilja vera með nánast fullmótaðan hóp fljótlega upp úr áramótum
Hvenær vill KA vera komið með ákveðna mynd á hópinn á sér?

„Mótið er orðið þannig að það byrjar um mánaðamótin mars/apríl. Ég held að við eigum leik í byrjun apríl á móti Breiðabliki í meistarar meistaranna. Þú vilt 2-3 mánuðum fyrir þann tíma vera kominn með nánast fullmótaðan hóp. Fljótlega upp úr áramótum viljum við vera komnir með alla leikmenn á svæðið til okkar svo undirbúningur liðsins fyrir komandi átök geti farið á fullt," segir Sævar.
Athugasemdir
banner
banner
banner