Chiesa mögulegur arftaki Kvaratskhelia - Delap og Zirkzee orðaðir við Juventus
   sun 01. desember 2024 18:22
Elvar Geir Magnússon
Daníel Hafsteins og Sveinn Margeir í Víking (Staðfest)
Daníel Hafsteinsson.
Daníel Hafsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveinn Margeir Hauksson.
Sveinn Margeir Hauksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur hefur fengið Daníel Hafsteinsson og Svein Margeir Hauksson frá KA. Báðir riftu þeir samningum sínum við bikarmeistarana.

Daníel, sem er 25 ára, átti virkilega gott tímabil með KA í sumar, skoraði fimm mörk í 25 deildarleikjum og tvö mörk í fjórum bikarleikjum. Hann var á bekknum í liði ársins hér á Fótbolti.net.

Sveinn Margeir, sem er 23 ára sóknarmiðjumaður, verður einungis í um sex vikur á Íslandi næsta sumar þar sem hann er í háskólanámi í Bandaríkjunum.

„Báðir eru þeir gríðarlega spennandi leikmenn. Daníel getur spilað meira eða minna allar stöður miðsvæðis á vellinum. Sveinn Margeir er gríðarlega kraftmikill leikmaður sem getur spilað allar framliggjandi stöður. Það skiptir okkur miklu máli að fá ákveðna tegund af leikmönnum í Víkina og báðir passa þeir fullkomlega inn í þá hugmyndafræði sem við vinnum eftir hér í Hamingjunni," segir Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, við heimasíðu félagsins.

„Það er klárlega alvöru áhugi, á bæði Daníel og Sveini Margeiri. Þetta eru tveir toppleikmenn, tveir toppstrákar. Þegar svona gaurar eru fáanlegir þá verðum við að reyna selja þeim að koma hingað," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, við Fótbolta.net í síðustu viku.

Gísli Gottskálk Þórðarson sprakk út hjá Víkingi í sumar og var í lykilhlutverki í liðinu seinni hluta tímabilsins. Hann er tvítugur og eru taldar góðar líkur á því að hann fari út í atvinnumennsku í vetur. Það þarf að fylla í hans skarð og þá er óvíst hvenær og hvernig Pablo Punyed snýr aftur á völlinn en hann sleit krossband í júlí.

Daníel hefur leikið meira og minna allan ferilinn með KA en fór til Helsingborgar árið 2019 og kom heim og lék eitt tímabil hjá FH árið 2020 áður en hann fór aftur til KA snemma árs 2021. Daníel á að baki 19 landsleiki fyrir yngri landslið íslands og hefur skorað í þeim eitt mark. Hann lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Suður Kóreu þann 11.nóvember 2022.

Sveinn Margeir Hauksson hefur sömuleiðis leikið meira og minna allan sinn feril með KA og stundar meistaranám i fjármálaverkfræði í Bandaríkjunum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner