Hörður Björgvin Magnússon og hans menn í Panathinaikos eru komnir aftur á sigurbraut eftir að hafa unnið Levadiakos, 1-0, í grísku úrvalsdeildinni í dag en það komu upp alls konar vandamál í leiknum.
Panathinaikos er eina liðið í deildinni sem hefur ekki tapað leik en liðið hafði hins vegar gert tvö jafntefli í röð eftir HM-pásuna og vantaði að finna sama gír og fyrir mótið.
Liðið var með öll tök á leiknum í dag og kom eina markið tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks. Hörður Björgvin átti þá langa sendingu úr vörninni og bakvið vörn Levadiakos. Andraz Sporar tók hlaupið, fékk boltann í teignum og lagði hann út á landa sinn, Benjamin Verbic, sem skoraði af stuttu færi.
Í kjölfarið var reyksprengjum kastað úr stúkunni. Lögreglan skarst inn í lætin í stúkunni og gerði það með fremur ómannúðlegum hætti, eða með því að spreyja táragasi í stúkuna. Nokkrir stuðningsmenn misstu meðvitund og greip um sig mikil hræðsla, en fjöldi stuðningsmanna ruddu sér leið inn á völlinn til að komast frá táragasinu.
Leikurinn tafðist því um hálftíma eða svo áður en hann fór aftur af stað. Panathinaikos skoraði annað mark undir lok leiks, en það var dæmt af vegna brots í aðdragandanum. 1-0 sigur Panathinaikos staðreynd.
Panathinaikos er á toppnum með 42 stig, sjö stigum meira en AEK.
Guðmundur Þórarinsson var ekki í leikmannahópi OFI Crete sem gerði markalaust jafntefli við Volos. Crete er í 10. sæti með 12 stig.
Athugasemdir