
Írski fótboltasérfræðingurinn Roy Keane var alls ekki ánægður með hegðun brasilíska liðsins gegn Suður Kóreu í kvöld.
Brasilía gerði út um leikinn í fyrri hálfleik þar sem liðið skoraði fjögur mörk. Það er mikil dans menning í Brasilíu og eru leikmenn frá Brasilíu vanir að taka nokkur spor þegar þeir fagna mörkum.
Þeir gerðu það eftir hvert einasta mark í kvöld og Keane fannst það vanvirðing við Suður Kóreumenn.
„Ég hef ekki séð svona mikið af dansi, þetta er eins og að horfa á Strictly (breska útgáfan af Allir geta dansað). Ég trúi því ekki sem ég er að horfa á, í alvöru. Aluko talaði um kúltúr en mér finnst þú vera gera lítið úr andstæðingnum," sagði Keane.
Tite, þjálfari brasilíska liðsins tók þátt í dansinum og það fyllti mælinn hjá Keane.
„Það er 4-0 og þeir gera þetta í hvert skipti. Allt í lagi einu sinni. Svo blandar þjálfarinn sér í þetta. Ég er ekki ánægður með þetta, þetta er alls ekki gott," sagði Keane.
Vinicius Junior varð fyrir miklu aðkasti á tímabilinu með Real Madrid þar sem hann var gagnrýndur fyrir dansana og það fór út fyrir öll velsæmismörk á endanum.