Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 06. febrúar 2021 17:04
Brynjar Ingi Erluson
England: Dramatískur sigur Newcastle - Jói Berg skoraði í jafntefli
Jóhann Berg Guðmundsson og Dwight McNeil fagna jöfnunarmarkinu
Jóhann Berg Guðmundsson og Dwight McNeil fagna jöfnunarmarkinu
Mynd: Getty Images
Newcastle United vann Southampton 3-2 í hörkuleik á St. James's Park í dag á meðan Jóhann Berg Guðmundsson tryggði Burnley stig í 1-1 jafntefli gegn Brighton.

Leikur Newcastle og Southampton var fjörugur. Joe Willock var í byrjunarliði Newcastle eftir að hafa komið á láni frá Arsenal undir lok gluggans og hann var fljótur að minna á sig.

Hann kom Newcastle yfir á 16. mínútu eftir frábæran undirbúning frá Allan Saint-Maximin. Franski vængmaðurinn lék á Jan Bednarek áður en hann fann Willock í hlaupinu sem skoraði svo örugglega.

Bednarek átti ömurlegan leik fyrir Southampton líkt og í síðasta leik. Hann fékk rautt spjald gegn Manchester United og skoraði sjálfsmark en rauða spjaldið var dregið til baka eftir leikinn og fór hann því ekki í bann.

Southampton hefði sennilega óskað þess að hann hefði farið í bann því hann gerði annað sjálfsmark tíu mínútum síðar eftir fyrirgjöf frá Miguel Almiron. Takumi Minamino minnkaði muninn fyrir Southampton á 30. mínútu í fyrsta leik hans fyrir félagið frá því hann frá Liverpool á láni og Southampton komið aftur inn í leikinn.

Almiron gerði svo þriðja mark Newcastle undir lok fyrri hálfleiks eftir mistök frá Alex McCarthy, markverði Southampton. James Ward-Prowse hélt lífi í leiknum með marki úr aukaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks og þá fengu gestirnir von tveimur mínútum síðar er Jeff Hendrick var rekinn af velli í liði Newcastle er hann fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum fyrir brot á Minamino.

Danny Ings átti skot í stöng af stuttu færi þegar hálftími var eftir af leiknum. Bednarek var næstum því fokinn af velli stuttu síðar er hann flæktist með hendurnar í andlitinu á Almiron. VAR skoðaði atvikið og ákvað Craig Pawson dómari að gefa honum aðeins gult spjald.

Newcastle spilaði tveimur mönnum færri síðustu tólf mínúturnar af venjulegum leiktíma er Fabian Schär meiddist. Newcastle var búið með allar skiptingarnar og þurftu því að leika tveimur mönnum færri.

Undir lok leiksins var Ings nálægt því að jafna en Isaac Hayden bjargaði meistaralega á línu. Sex mínútum var bætt við venjulegan leiktíma en Southampton tókst ekki að nýta sér það og 3-2 sigur Newcastle staðreynd. Ótrúlegur leikur.

Newcastle er í 17. sæti með 22 stig en Southampton í 12. sæti með 29 stig.

Burnley og Brighton gerðu þá 1-1 jafntefli á Turf Moor. Lewis Dunk kom Brighton yfir á 36. mínútu með skalla eftir hornspyrnu og stóðu leikar þannig í hálfleik.

Jóhann Berg Guðmundsson, sem byrjaði leikinn fyrir Burnley, skoraði svo langþráð mark og jafnaði leikinn á 53. mínútu með góðu skoti úr teignum. Fyrsta deildarmark hans frá því í desember 2019.

1-1 jafntefli niðurstaðan á Turf Moor. Burnley í 16. sæti með 23 stig en Brighton sæti ofar með 25 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Burnley 1 - 1 Brighton
0-1 Lewis Dunk ('36 )
1-1 Jóhann Berg Guðmundsson ('53 )

Newcastle 3 - 2 Southampton
1-0 Joseph Willock ('16 )
2-0 Miguel Almiron ('26 )
2-1 Takumi Minamino ('30 )
3-1 Miguel Almiron ('45 )
3-2 James Ward-Prowse ('48 )
Rautt spjald: Jeff Hendrick, Newcastle ('50)
Athugasemdir
banner
banner